27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

236. mál, tryggingasjóður loðdýraræktar

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 254, um eflingu fiskeldis sem búgreinar á bújörðum. Flm. auk mín eru hv. alþm. Guðmundur Bjarnason, Stefán Guðmundsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Jón Kristjánsson. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta vinna að því ötullega að fiskeldi geti orðið búgrein á þeim jörðum sem hafa til þess náttúruleg skilyrði.

Að þessu verði m.a. unnið á eftirfarandi hátt:

1. Kannað verði með skipulegum hætti í hvaða héruðum og á hvaða jörðum finnist nægilegt og heppilegt heitt og kalt vatn.

2. Komið verði á kennslu í matfiskeldi við báða bændaskólana. - Á Hvanneyri verði komið upp matfiskeldisstöð.

3. Veiðimálastofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði gert kleift að vinna í sameiningu að rannsóknum og kynbótum í matfiskeldi þar á meðal kynbótum á laxi til eldis í fersku vatni.

4. Leiðbeiningarþjónustu verði komið á í fiskeldi, einkum matfiskeldi, með því að Búnaðarfélagi Íslands verði gert kleift að ráða landsráðunaut í matfiskeldi og búnaðarsamböndunum að efla leiðbeiningarþjónustu sína þannig að þau geti einnig sinnt þessari grein meðal bænda sem hafa möguleika til fiskeldis.“

Herra forseti. Þessi till. skýrir sig sjálf. Hún er stutt og greinargóð. Ég legg til að till. verði vísað til atvmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.