03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

224. mál, alnæmissjúklingar

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 240 leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbrmrh.: „Hvaða ráðstafanir hafa heilbrigðisyfirvöld gert eða hyggjast gera til að mæta þeim vanda er óhjákvæmilega hlýtur að skapast á sjúkrahúsum vegna fjölgunar alnæmissjúklinga á Íslandi á næstu árum.?"

Í Morgunblaðinu s.l. laugardag var frétt á forsíðu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verður alnæmisfaraldurinn verri en plágur fyrri alda? Alnæmið getur orðið að svo alvarlegri farsótt að plágur fyrri alda, svo sem svartidauði, kúabóla og taugaveiki, komist þar í engan samjöfnuð við. Kom þetta fram í ræðu sem Otis R. Bowen, heilbrigðismálaráðherra Bandaríkjanna, flutti á fimmtudag hjá bandaríska blaðamannafélaginu.“

Nú er það svo að vísu að fréttir um sjúkdóma og heilbrigðismál í dagblöðum eru ekki alltaf ýkja áreiðanlegar, en með fullri virðingu fyrir blaðinu sem hér um ræðir og þeim heimildum þess sem vitnað er til er þetta auðvitað mjög alvarleg yfirlýsing en jafnframt kemur hún kannske ekki svo mjög á óvart. Mér er það minnisstætt að fyrir einum 2-3 árum ræddi ég um þessi mál við lækni. Það var löngu áður en þessa sjúkdóms hafði orðið vart hér á landi. Þá lét þessi íslenski læknir einmitt orð falla í þá veru að það kynni að vera að hér væri á ferðinni ný plága á borð við drepsóttir fyrri alda.

Það er staðreynd að velflestar spár um aukna útbreiðslu þessa hræðilega sjúkdóms hafa staðist með óhugnanlegri stærðfræðilegri nákvæmni þannig að vafasamt er í rauninni að tala um spár. Í Morgunblaðinu 29. nóv. s.l. birtist grein eftir Harald Briem smitsjúkdómalækni sem er einn þeirra er gleggst þekkja til þessara mála hér. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ef stuðst er við tímasetningu greiningar alnæmissjúklinganna kemur í ljós að fjöldi þeirra fylgir veldisfalli sem bendir til tvöföldunar á sex mánaða fresti. Reynslan annars staðar sýnir að slík fjölgun sjúklinga verður í byrjun faraldursins. Síðan virðist tvöföldunartíminn lengjast í tólf mánuði að nokkrum árum liðnum án þess þó að raunverulega dragi úr útbreiðslunni. Ef gert er ráð fyrir að tvöföldunartíminn lengist að ári liðnu í tólf mánuði á Íslandi má gera ráð fyrir samtals um 20 alnæmissjúklingum fyrir árslok 1987 og um 40 fyrir árslok 1988.“

Ef þessi spá er framlengd um eitt ár, þ.e. til loka ársins 1989, og það er ekki svo ýkjalangur tími þangað til, væru alnæmissjúklingarnir hugsanlega orðnir 80 talsins. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er það staðreynd að spásagnir um útbreiðslu þessa sjúkdóms hafa staðist með óhugnanlega stærðfræðilegri nákvæmni.

Ég sé ekki, herra forseti, að ég þurfi að fylgja þessari fsp. úr hlaði með fleiri orðum, en það er alveg ljóst að þetta krefst sérstakra aðgerða í heilbrigðiskerfinu og því er þessi fsp. fram borin.