03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

278. mál, hjálparkalltæki

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Að hve miklu leyti greiðir Tryggingastofnun ríkisins hjálparkalltæki fyrir sjúklinga og aldrað fólk? Beðið var um sundurliðun á greiðsluhluta stofnunarinnar í stofnkostnaði og afnotagjöldum.

Svarið er þetta: Styrkurinn skal nema 90% af kaupverði viðvörunarkerfis sem Tryggingastofnun samþykkir. Að notkun lokinni er skylt að skila tækjunum til Tryggingastofnunar ríkisins og er sjúklingshluti, þ.e. 10%, afturkræfur. Stofnunin og söluaðili annast framkvæmd þessara skila. Greitt skal 80% í mánaðarlegu þjónustugjaldi vegna notkunar viðvörunarkerfisins. Stofnunin semur um nánari tilhögun á greiðslum við vaktstöð.

Þessi hækkun á uppbótargreiðslum með sérstökum styrk vegna þessa var samþykkt í tryggingaráði í fyrra að tilhlutan stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra og þetta er framkvæmdin nú.

Þá er spurt: Hverjir eiga rétt á greiðslum?

Svarið er þetta: Heimilt er að veita styrk til kaupa viðurkennds viðvörunarkerfis eða sendistöðvar fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem býr einn eða býr við sams konar aðstæður, enda sé hann svo sjúkur að honum sé nauðsyn á slíku viðvörunarkerfi. Kerfið skal tengt vaktstöð sem starfar allan sólarhringinn. Þeir sjúkdómar sem að jafnaði er um að ræða eru ýmsir miðtaugakerfissjúkdómar, svo sem lamanir, flogaveiki, kransæðasjúkdómar á háu stigi, hjartabilun og svæsnir lungnasjúkdómar. Einnig koma hér til afleiðingar slysa.

Hvaða meginstefnu hafa stjórnvöld sett Tryggingastofnun ríkisins við afgreiðslu umsókna um fyrrgreind hjálparkalltæki?

Svarið er þetta: Reglur þessar taka aðeins til einkaheimila en ekki til neins forms sambýlis eða stofnana þar sem Tryggingastofnun ríkisins eða aðrir opinberir aðilar greiða kostnað af rekstrinum. Tryggingayfirlæknir skal samþykkja umsókn fyrir fram, enda liggi fyrir nákvæmt vottorð læknis um sjúkdómsástand og þörf þess elli- og örorkulífeyrisþega sem um viðvörunarkerfið sækir.

Tryggingastofnun gerir eftirtaldar lágmarkskröfur varðandi búnað og þjónustu við viðvörunarkerfi: a) Boðyfirfærslukerfið skal vera tengt með símalínu. Það skal þó vera óháð símakerfinu, þ.e. því að fá són í símann áður en unnt er að senda boð. Ástand símalínu skal vera undir stöðugri vakt. Möguleiki skal vera á talsambandi við vaktstöð. b) Kerfið skal tengt vaktstöð sem starfar allan sólarhringinn. Það skal prófa a.m.k. þrisvar sinnum á ári með því að fara í húsnæði notanda þess. c) Viðbrögð við útkalli skulu vera í því fólgin að starfsmaður vaktstöðvar sem hefur lykla að viðkomandi húsnæði fari tafarlaust á staðinn.