04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2726 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

316. mál, flugmálaáætlun

Haraldur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. sem hér er lagt fram. Ég tel það ákaflega mikilvægt mál og brýnt að hrinda í framkvæmd mjög snöggum og skipulögðum umbótum og endurbótum á flugmálum a Íslandi.

Það hefur þegar komið fram hjá þeim hv. ræðumönnum sem hafa talað á undan mér að flugið er nauðsynlegur ferðamáti og einn mikilvægasti ferðamáti hér á landi. Hins vegar er ástand flugvalla víða úti um land með þeim hætti að það nýtist ekki sem skyldi. Ég held að það hljóti að vera stórt skref í rétta átt að gera langtímaáætlun eins og hér er lagt til.

Ég vil einungis undirstrika að þeir mörkuðu tekjustofnar sem lagt er til að verði teknir upp renni raunverulega til flugs og flugmála. Það hefur verið allt of mikið að því gert að marka tekjustofna og síðan að taka þá af með ákvæðum um undanþágur. Ég tek undir með hv. 4. þm. Austurl. að ég held að hver og einn muni með gleði greiða flugvallagjald ef hann veit að það rennur til þess að bæta flugvelli út um land og flugöryggi í landinu.

En það er eitt sem ég vil minnast á í þessu sambandi og það er nú eiginlega ástæðan fyrir því að ég stend upp. Það er Reykjavíkurflugvöllur. Ég held að það verði að taka Reykjavíkurflugvöll til algjörrar endurskoðunar. Það er ekki lengur fært að hafa þennan stóra flugvöll í miðborg ekki bara Reykjavíkur heldur raunverulega einnig í miðbæ Kópavogs. Það hlýtur að vera framtíðarverkefni að flytja innanlandsflugið suður í Keflavík og taka þá upp hraðar samgöngur þangað, t.d. með einspora braut eins og framsóknarmenn hafa lagt til og barist fyrir fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðustu. Það er raunverulega nú þegar allt of mikil hætta sem stafar af þessum flugvelli. Við höfum reynt það sem búum í grennd við hann að komast ekki heim til okkar vegna flugvéla sem hafa runnið út á Suðurgötuna t.d. Og þó er það ekki verst heldur flugið yfir miðbæinn og yfir miðbæ Kópavogs. Það eru því eindregin tilmæli mín að hæstv. samgrh., sem hefur lagt svo mikla vinnu í flugmálaáætlunina, taki þetta mál til rækilegrar athugunar og ekkert verði gert sem endanlega staðsetji þetta stóran flugvöll hér í miðborg Reykjavíkur.

Það er í sjálfu sér hægt að tína fram fjölmörg rök fyrir því að flytja skuli allt eða mestallt flug af höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur. Þar er stór flugvöllur, mjög vel búinn að öllu leyti. Þar eru stór og mikil flugskýli. Þegar herinn fer losnar þar geysimikið rými. Ég sé að hæstv. samgrh. brosir, en það kemur nú dagur eftir dag okkar, hæstv. ráðh. Enn fremur má geta þess að vegalengdin er í sjálfu sér ekkert gríðarleg. Þetta eru um 50 km og með samgöngubótum þar suður eftir, hvort heldur sem verður með fjórum akreinum eða þá með braut, sporbraut, er hægt að fara þessa leið á um það bil hálftíma. Vegalengdin er því í sjálfu sér ekki neitt vandamál.

Ég vara eindregið við því að fara að byggja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli upp á hundruð milljóna. Í stað þess hefði þegar átt að hanna nýju flugstöðvarbygginguna í Keflavík með það fyrir augum að hún rúmaði einnig innanlandsflugið. Ég veit að það mun með litlum tilkostnaði vera hægt að nýta þá byggingu til þeirra hluta.