05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

Tilraunasprenging með kjarnavopnum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. er það að vísu ekki nýtt að annað stórveldanna lýsi yfir stöðvun en hitt stórveldið haldi áfram. Bandaríkin hafa á árum fyrr haldið að sér höndum í tilraunum meðan Sovétríkin héldu áfram tilraunasprengingum. Nú hefur þetta snúist við. Það er hörmuleg þróun að þegar einn vill neitar hinn og tilraunasprengingarnar eru þrándur í götu raunhæfra aðgerða. En tilraunasprengingarnar eru þáttur í stærra máli. Hitt er það að á Reykjavíkurfundinum var sérstaklega rætt um takmörkun og stöðvun á tilraunum með kjarnorkuvopn undir viðunandi eftirliti. Það er hörmulegt að tækifærið eftir Reykjavíkurfundinn hefur ekki verið notað til að ná samningum um þetta efni.

Við Alþýðuflokksmenn getum tekið undir með þeim bandarísku þingmönnum sem tala nú um að gluggi tækifærisins hafi verið opinn, en honum hafi verið skellt aftur. Við áteljum því að þetta tækifæri hafi ekki verið notað og Bandaríkjamenn hafi lokað glugganum með nýjustu tilraunasprengingu sinni. En að því er þetta mál allt varðar teljum við nauðsynlegt að Íslendingar ræði þetta mál meðal bandalagsþjóða sinna og beiti sér fyrir því að raunhæfur árangur geti náðst.

Markmiðið í afvopnunarmálum er að tryggja annars vegar að aldrei verði gripið til kjarnorkuvopna og hins vegar að vinna að fækkun þeirra og eyðingu. Þessum markmiðum verður vitaskuld ekki náð nema gagnkvæmni ráði í samdrætti og jafnvægi í vopnamætti. Þetta mun heldur ekki standast nema þetta sé undir öruggu eftirliti og þannig frá því gengið að allir geti þessu treyst. Þess vegna á að stefna að skipulegri afvopnun á raunhæfum tíma með öflugu eftirliti með framkvæmdinni þannig að gagnkvæmt traust geti ríkt og eflst milli þjóða heims. Takmarkið á að vera að tryggja valdajafnvægi og frið við stöðugt minnkandi vopnaburð. Á þetta teljum við að Íslendingar eigi að leggja sérstaka áherslu.