09.02.1987
Neðri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

321. mál, vaxtalög

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það til vaxtalaga sem hér liggur fyrir er samið af Jónatan Þórmundssyni prófessor. Ég fól honum hinn 29. des. s.l. að kanna stöðu vaxta- og okurmála, m.a. í tilefni af dómi Hæstaréttar 19. des. s.l., og semja nýtt frv. til heildstæðrar löggjafar um vaxtamál. Afhenti Jónatan frv. fullbúið 26. jan. s.l. Athugun málsins og samning frv. tók því aðeins tæpan mánuð. Höfundur hafði í starfi sínu samráð við ýmsa aðila, svo sem viðskrn., Seðlabanka Íslands og einstaklinga sérfróða um vaxtamál.

Tilefni hinna skjótu viðbragða nú í vaxtamálum eru í aðra röndina dómur sá er féll í Hæstarétti 19. des. s.l. og vakti mikla athygli af því að sökunautur í okurmáli var sýknaður að hluta til. Í rauninni var mál þetta ákjósanlegt tilefni til að herða á umfangsmiklu endurskoðunar- og umbótastarfi í banka-, verðbréfa- og vaxtamálum sem farið hefur fram á vegum viðskrn. Öll bankalöggjöfin hefur verið endurskoðuð með lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og lögum nr. 87/1985, um sparisjóði, er hvor tveggja tóku gildi í upphafi síðasta árs, og síðan með lögum nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, en þau öðluðust gildi hinn 1. nóv. á s.l. ári. Þá gengu í gildi 1. júní s.l. ný lög um verðbréfamiðlun nr. 27/1986 þar sem reynt er að tryggja heilbrigða viðskiptahætti í verðbréfaviðskiptum og verðbréfamiðlun sett undir eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Þá var gerð breyting á samningalögum með lögum nr. 11 frá síðasta ári, en þau tóku gildi 1. janúar á því ári, í því skyni að styrkja réttarvernd þeirra sem hafa lakari aðstöðu við gerð samninga ef þeir verða taldir ósanngjarnir eða andstæðir góðri viðskiptavenju. Í þessari breytingu felst aukin neytendavernd, í nafnskráningu skuldabréfa og frv. til l. um dráttarvexti o.fl. Hvorugt varð að lögum þá. Áfram var þá unnið í viðskrn. að undirbúningi löggjafar um vaxtamál.

Við samningu frv. þess sem hér liggur fyrir þótti rétt að fella ákvæði um dráttarvexti inn í heildstæð vaxtalög. Höfð var hliðsjón af hinu eldra frv. og umsögnum sérfróðra aðila um það. Enn fremur af fyrra könnunarstarfi og frumvarpsdrögum um dráttarvexti frá 1980.

Það hefur ótvíræða kosti að setja ein heildarlög um vaxtamál. Með því móti fæst gleggri heildarsýn. Reglur verða einfaldari og markvissari og um sumt má setja sameiginlegar reglur án tillits til vaxtaforms.

Dómur Hæstaréttar frá 19. des. í margumræddu okurmáli varð til þess að flýta lokaþættinum í hinu umfangsmikla endurskoðunarstarfi sem staðið hefur yfir hartnær allan þann tíma sem liðinn er frá því ríkisstjórn og Seðlabanki ákváðu í júlí 1984 að nota heimild laga til að veita innlánsstofnunum frelsi til vaxtaákvarðana. Dómurinn leiddi í ljós ákveðið misræmi í löggjöf sem ekki hafði þá unnist tími til að endurskoða til fulls þótt komið væri langleiðina í því starfi á þessum tveimur árum. Ætli það sé ekki fremur sjaldgæft að heildarendurskoðun á jafnumfangsmiklu sviði og hér um ræðir taki skemmri tíma?

Af dóminum leiðir einnig að ný löggjöf hefði þurft að koma til strax um haustið 1984 ef hin breytta vaxtastefna átti engin eða óveruleg áhrif að hafa á væntanleg okurmál sem enginn vissi um þá. Auk þess var málum svo háttað að sérfræðingar töldu almennt að 3. gr. gildandi vaxtalaga nr. 58/1960 væri fullnægjandi undirstaða okurákvæðisins, en þar er vísað til almennra útlánsvaxta eins og þeir eru hæstir á þeim tíma sem til skuldar er stofnað hjá bönkum og sparisjóðum. Hæstiréttur taldi hins vegar refsiheimildina ekki nægilega skýra og ótvíræða eftir að nýtt hafði verið heimild laga til að flytja vaxtaákvarðanir til innlánsstofnunar undir eftirliti Seðlabankans.

Hæstiréttur setur með dómi sínum á oddinn eitt atriði hinnar mikilsverðu grundvallarreglu um lögbundnar refsiheimildir, þ.e. að þær séu svo skýrar og ótvíræðar að borgararnir þurfi ekki að velkjast í vafa um efni þeirra. Þetta er nauðsynleg forsenda þess að önnur skilyrði reglunnar komi að gagni, þ.e. að refsiheimild sé birt með fullnægjandi hætti áður en verk það er unnið sem reglan tekur til.

Enginn veit fyrir víst fyrir fram hver verður úrlausn dómstóla. Þá væri lítil þörf fyrir dómstóla. Dómar eru til þess að skera úr vafaatriðum og til þess að læra af. Í samræmi við það var strax brugðist við í máli þessu og unnið að þeim lagfæringum sem nauðsynlegar voru.

Ákvæði um vexti og vaxtamál eru nú á víð og dreif í íslenskri löggjöf. Ákvæðum þessa frv. er ætlað að vera almenn löggjöf um vexti, en æskilegt væri að samræma sérákvæði laga hinum nýju lögum ef samþykkt verða.

Um nokkur slík ákvæði þótti þó rétt að flytja tillögur til breytinga, sbr. fylgifrv. þau sem birt eru á fylgiskjölum með frv. Önnur sérákvæði eru látin haldast um sinn, enda þarf samvinna fleiri ráðuneyta til að koma ef gera á heildarúttekt á þessum ákvæðum öllum.

Frv. þetta kemur í stað gildandi laga nr. 58/1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl., og laga um dómvexti nr. 56/1979 og í annan stað hefur það ýmist ný eða fyllri ákvæði að geyma um atriði sem lagasetningu hefur vantað um. Nauðsynlegt er að samræma vaxtareglur og laga þær betur að nýjum viðhorfum og breyttum viðskiptaháttum í þjóðfélaginu.

Fram kemur í almennum athugasemdum við frv. þetta að það taki mið af eftirfarandi forsendum:

Í fyrsta lagi að viðhalda því takmarkaða vaxtafrelsi sem Íslendingar búa nú við eftir þróun síðustu ára til aukins vaxtafrelsis.

Í öðru lagi að treysta og samræma lagaheimildir um ákvörðun vaxta, refsiábyrgð og viðurlög við okri.

Í þriðja lagi að tryggja upplýsingar um öll almenn vaxtakjör hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og reglulega birtingu þeirra í Lögbirtingablaði á sem aðgengilegastan hátt.

Í fjórða lagi að gera vaxtareglur þannig úr garði að þær verði einfaldari og meðfærilegri í allri framkvæmd en gildandi reglur, m.a. í dómsmálum.

Í fimmta lagi að tryggja efnisleg málalok í þeim okurmálum sem enn eru til meðferðar fyrir dómstólum.

Í athugasemdunum er gerð grein fyrir þróun undanfarinna ára í átt til aukins vaxtafrelsis og frumkvæðis innlánsstofnana. Ljóst er að þessi stefnubreyting hefur þegar skilað umtalsverðum árangri. Þannig námu t.d. innlán hjá innlánsstofnunum árið 1984 27,5% af landsframleiðslu, en höfðu árið 1978 farið niður fyrir 20%. Á árinu 1985 var hlutfall innlána af landsframleiðslu 29,1% og árið 1986 31,2%. Raunaukning innlána árið 1985, þ.e. hækkun umfram hækkun lánskjaravísitölu, nemur 9,3% og á árinu 1986 17,1%.

Peningasparnaður í bankakerfinu fer óðum vaxandi þótt hann sé ekki kominn á sama stig og þekkist í nágrannalöndum okkar. Hlutfall peningamagns af landsframleiðslu samkvæmt síðustu handbærum tölum er: Noregur 54,9%, Danmörk 49,3%, Svíþjóð 56,9%, en þar hef ég viðmiðun frá 1982, og Finnland 42,5%.

Á sama tíma hefur einnig átt sér stað töluverð aukning útlána. Á árinu 1985 jukust útlán innlánsstofnana um 30% á móti rúmlega 48% aukningu innlána. Sambærilegar tölur 1986 voru 21% á móti 34%. Raungildi útlána minnkaði því um tæp 4% á árinu 1985. Þessi aukning innlána umfram útlán hefur leitt til batnandi lausafjárstöðu hjá flestum innlánsstofnunum. Á árinu 1986 jókst raungildi útlána aftur um 5,4%.

Í kjölfar þeirrar hröðu þróunar sem hefur átt sér stað í vaxtamálum og bankalöggjöf síðan um mitt ár 1984 er mikilvægt að renna nýjum stoðum undir réttarreglur um vexti, endurnýja sumt miðað við breyttar aðstæður, lögfesta annað sem hefð er komin á og loks að bæta við nýjum ákvæðum í því skyni að bæta þjónustu við almenning, auka aðhald í lánsviðskiptum og treysta réttaröryggi manna gegn misnotkun hins nýfengna samningafrelsis um vaxtakjör.

Frv. skiptist í fimm kafla. Í I. kafla eru sameiginleg ákvæði um gildissvið laganna. II. kafli fjallar um almenna vexti, oft nefndir samningsvextir frá lántökudegi og fram að gjalddaga. III. kafli er um dráttarvexti, vanskilavexti frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Í IV. kafla eru refsiákvæði um okur mótuð með hliðsjón af takmörkuðu vaxtafrelsi og því nokkuð frábrugðin gildandi ákvæði í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 58 frá 1960 og sömuleiðis nokkuð öðruvísi en vera mundi við fullkomið vaxtafrelsi. Þar eru auk þess ákvæði um önnur réttaráhrif brota gegn lögunum ef samþykkt verða og um málsmeðferð. Og loks eru í V. kafla ákvæði um gildistöku, brottfallin lög og bráðabirgðaráðstafanir. Eru m.a. gerðar ráðstafanir til þess að öll opinber mál sem höfðuð hafa verið til refsingar fyrir okur en ekki hafa hlotið endanlegan dóm fyrir gildistöku laganna verði rekin áfram fyrir dómstólum og hljóti þar efnisdóm þrátt fyrir ákvæði 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 1940, um bann við afturvirkum refsiákvæðum.

Í I. kafla frv. eru almenn ákvæði um gildissvið þess. Taka ákvæði þessi jafnt til almennra vaxta, samningsvaxta sem dráttarvaxta, þar með talið vaxtavaxta eftir því sem við á. Í 1. gr. er skilgreint hvers konar kröfur falla undir ákvæði frv. Eru það fyrst og fremst gildar fjárkröfur á sviði fjármunaréttar, en fjárkröfur á öðrum sviðum réttarins, t.d. sifjaréttarkröfur, geta einnig farið eftir þessum reglum ef ekki er öðruvísi kveðið á í lögum.

Skv. 2. gr. er annað endurgjald lagt að jöfnu við vexti í lánssamningum. Skiptir ekki máli hvert endurgjaldið er ef það er raunverulegt endurgjald fyrir lánveitingu, t.d. afföll af skuldabréfum þótt viðskipti séu í formi kaupsamnings ef sannað telst að um dulbúinn lánssamning, lán til eignar, er að ræða. Í þessu felst engin efnisbreyting frá 4. gr., sbr. 6. gr. gildandi laga frá 1960. Athygli er vakin á því að ákvæðið á ekki við um verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Skv. 3. gr. eru ákvæði II. og III. kafla frv. um ákvörðun vaxta almennt frávíkjanleg. Þær gilda einungis ef annað leiðir ekki af lögum, samningum eða venju. Sum ákvæði III. kafla eru þó ófrávíkjanleg, sbr. ákvæði 10.-12. gr. um ákvörðun dráttarvaxta og vaxtavaxta. Refsiákvæði 18. gr. byggist á því að ekki sé hægt að semja um hærri vanskilavexti en í þessum ákvæðum greinir.

Í II. kafla frv. felst staðfesting á því aukna vaxtafrelsi sem þróast hefur undanfarin ár með góðum árangri þannig að vaxtabreytingar ráðast fyrst og fremst af verðbólgustigi og efnahagshorfum í þjóðfélaginu. Meginreglan er sú að viðskiptabankar og sparisjóðir ákveða sjálfir þau vaxtakjör sem þeir vilja bjóða viðskiptavinum sínum upp á á lánamarkaðnum. Að öðru leyti verði frjálst að semja um almenna vexti, bæði um vaxtahæð og önnur vaxtakjör.

Takmarkanir á vaxtafrelsinu lántakendum til verndar felast annars vegar í því að vaxtakjör innlánsstofnana eru í ýmsum efnum viðmiðun fyrir lánamarkaðinn að öðru leyti og um skaðabótakröfur og hins vegar í því að frelsið er bundið við ákveðin vaxtamörk ef það er misnotað. Ef maður hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti er það refsivert okur skv. 17. gr. frv. þegar áskildir eru eða teknir vextir eða annað endurgjald umfram gildandi vaxtahámark sambærilegra bankavaxta.

Sama máli gegnir um endurgreiðsluákvæðið í 19. gr. frv. Í því felst engin takmörkun á vaxtahæð nema samningur sé ólögmætur af öðrum ástæðum, t.d. ef ólögmætri aðferð er beitt við samningsgerð. Kemur þá til endurgreiðslu vaxta umfram hæstu gildandi útlánsvexti banka og sparisjóða af hliðstæðum lánum.

Eftir því sem vextir fara meira fram úr gildandi vaxtakjörum innlánsstofnana eykst áhættan fyrir lánveitendur, þ.e. hættan á því að óréttmæt hagnýting teljist hafa átt sér stað og samningur sé þar með ógildur. Frv. tryggir lánamarkaðnum með þessu móti verulegt svigrúm umfram gildandi bankavexti og veitir lántakendum jafnframt viðunandi og raunhæfa vernd gegn misnotkun.

Frv. er ætlað að stuðla að því að viðskipti fari fram með heilbrigðum og heiðarlegum hætti, allir standi sem jafnast að vígi og njóti eðlilegrar verndar gegn misnotkun aðstöðu af hálfu þeirra er hafa viðskiptalega yfirburði. Mikilvægur þáttur í þessari réttarvernd er að sem fullkomnastar upplýsingar liggi ætíð fyrir um þau vaxtakjör sem ríkjandi eru á markaðnum svo menn geti varast að taka á sig skuldbindingar sem eru þyngri en þeir ráða við eða óhagstæðari en þeim standa til boða annars staðar. Hafa ber einnig í huga takmarkað framboð lánsfjármagns hér á landi sem rýrir kosti lántakenda í vali á vaxtakjörum. Í 8. gr. frv. er mikil áhersla lögð á reglulega og aðgengilega birtingu á öllum vaxtakjörum viðskiptabanka og sparisjóða.

Í 4. gr. felst sú aðalregla um almenna vexti eins og verið hefur að engir vextir greiðast fram að gjalddaga kröfu nema um þá sé berum orðum samið eða það leiði af eðlilegri skýringu samnings. Venjur eða lagafyrirmæli kunna að ganga í aðra átt.

Ákvæði 5. gr. er efnislega svipað 1. gr. gildandi laga frá 1960, en þar er ákveðin viðmiðun ef ekki hefur verið tiltekinn vaxtafótur eða fjárhæð vaxta í samningi.

Í 6. gr. er fjallað um breytilega vexti þegar samið er ótiltekið um hæstu lögleyfðu vexti.

Í 7. gr. er nýtt ákvæði um vexti af skaðabótakröfum, bæði innan samnings og utan. Á það að sjálfsögðu eingöngu við ef ekki er á annan veg samið og lagt er til að kröfur um skaðabætur beri almennt vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Eru vextir hér miðaðir við vegið meðaltal vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá bönkum og sparisjóðum. Sé fjárhæð skaðabótakröfu miðuð við verðlag síðar en atvikið átti sér stað, t.d. reikning fyrir viðgerð á eign, skulu vextir miðast við þann tíma.

Ákvæði 8. gr. er ætlað að tryggja almenningi, viðskiptalífi og dómstólum öruggar og aðgengilegar upplýsingar um vaxtakjör innlánsstofnana á föstum og reglulegum tímum. Lögð er í 1. mgr. afdráttarlaus skylda á viðskiptabanka og sparisjóði að tilkynna Seðlabanka Íslands án tafar um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi sem Seðlabankinn krefst. Fram að þessu hefur Seðlabankinn aflað þessara upplýsinga án beinna lagafyrirmæla. Seðlabankinn er skv. 2. mgr. skyldur til að birta mánaðarlega í Lögbirtingablaði í aðgengilegu formi öll almenn vaxtakjör hvers viðskiptabanka og sparisjóðanna sameiginlega svo og vegið meðaltal vaxta að því leyti sem nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum frv. Tilkynning skal birt fyrir lok mánaðar og gilda næsta mánuð eða uns næsta tilkynning er birt. Ekki er gert ráð fyrir birtingu í Lögbirtingablaði nema einhver breyting hafi orðið frá því að síðast var auglýst. Í greinargerðinni eru skilgreiningar á ýmsum hugtökum, þar á meðal í athugasemdum við 8. gr. á hugtökunum „almenn vaxtakjör“ og „vegið meðaltal“.

Ill. kafli frv. fjallar um dráttarvexti, vanskilavexti. Hlutverk dráttarvaxta er tvíþætt. Annars vegar er þeim ætlað að hvetja skuldara til lögmætra efnda á fjárskuldbindingum. Hins vegar er þeim ætlað að bæta kröfuhafa tjón sem almennt má ætla að greiðsludráttur baki honum án þess að hann þurfi að sanna í hverju tilviki hvert raunverulegt tjón hans er vegna greiðsludráttarins. Í 9. gr. er gert ráð fyrir slíkum vöxtum að meginreglu til ef vanskil verða á greiðslukröfum. Reiknast dráttarvextir frá og með gjalddaga kröfu sé hann fyrir fram ákveðinn og fram að greiðsludegi. Ef kröfuhafi getur ekki krafist greiðslu nema að undangenginni uppsögn eða tilkynningu með ákveðnum fresti er gjalddaginn fyrst að liðnum þeim fresti, en í 2. mgr. 9. gr. er kveðið á um upphafstíma þegar gjalddagi er ekki fyrir fram ákveðinn. 3. mgr. 9. gr. heimilar þó að reikna dráttarvexti frá öðrum tíma en í 2. mgr. segir ef dómsmál er höfðað til heimtu kröfunnar.

Í 10. og 11. gr. eru ákvæði um ákvörðun dráttarvaxta í íslenskum gjaldmiðli og erlendum gjaldmiðli í 11. gr. Við ákvörðun dráttarvaxta hlýtur að verða tekið tillit til þess að slíkir vextir þurfa, ef þeir eiga að gegna hlutverki sínu, að vera alltaf nokkru hærri en ávöxtun nýrra almennra útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á hverjum tíma. Verðbólga á Íslandi hefur verið afar breytileg og þurfa lög að vera nothæf hvort sem verðbólga er mikil eða lítil. Við aukið vaxtafrelsi má reikna með því að vextir nýrra útlána miðist fyrst og fremst við ríkjandi verðbólgu og horfur um hana á næstunni. Raunar má búast við að viðskiptabankar og sparisjóðir tryggi að ávöxtun útlána verði almennt hærri en verðbólga á hverjum tíma. Lán til langs tíma geta borið breytilega vexti eða verið verðtryggð.

Ákvæði 10. gr. miðar að því að raunvaxtamunur venjulegra útlána og dráttarvaxta verði óháður nafnvöxtum. Hlutfallið milli endurgreiðslu að viðbættum dráttarvöxtum og endurgreiðslu með venjulegum útlánsvöxtum verður þá nokkurn veginn hið sama hvort sem nafnvextir eru háir eða lágir. Þetta markmið næst hins vegar ekki ef ákveðinni hundraðstölu er bætt við útlánsvexti og enn síður ef bætt er við þá ákveðnu hlutfalli af nafnvöxtum útlána.

Dráttarvextir eru í 1. mgr. 10. og 11. gr. skilgreindir sem ársvextir, en það stendur opið eftir sem áður að fylgja eldri venjum um styttri innheimtutímabil, t.d. um mánaðarvexti eða dagvexti vegna vanskila. Skv. 2. mgr. þessara ákvæða er Seðlabanka Íslands falið að reikna mánaðarlega vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og birta meðaltal þetta í Lögbirtingablaði ásamt dráttarvöxtum á föstum reglulegum tíma ef um einhverjar breytingar er að ræða, en ekki er gert ráð fyrir neinum aukaákvörðunum vegna óvæntra breytinga á útlánskjörum banka og sparisjóða.

Ákvörðun dráttarvaxta má hugsa sér eftir tveimur mismunandi aðferðum þótt munurinn á þeim þurfi ekki að verða mikill í reynd. Meðal lögfræðinga eru nokkuð skiptar skoðanir á þessum aðferðum. Aðferð sú sem lögð er til grundvallar í frv. þessu er sú sama og nú er notuð af Seðlabanka Íslands. Hún er í því fólgin að dráttarvextir eru byggðir ofan á almennt gildandi vaxtakjör þar sem þau kjör hljóta að vera til viðmiðunar um tjón er leiðir af vanskilum í almennri lánastarfsemi. Þessi leið tekur fyrst mið af öllum venjulegum lánum í almennri lánastarfsemi. Seðlabankinn byggir ákvarðanir sínar á tveimur þáttum, útreikningi á vegnu meðaltali ársávöxtunar annars vegar og ákvörðun reiknihlutfalls skv. 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. hins vegar. Viðskrh. setur nánari reglur um ákvörðun dráttarvaxta samkvæmt þessum greinum, sbr. 3. mgr. 10. gr.

Hin aðferðin gerir ráð fyrir að fastir dráttarvextir, refsivextir, séu byggðir ofan á verðgildisbætur höfuðstóls vísitölu og þá sérstaklega vexti hvers láns. Tekur aðferðin því fremur mið af skaðabótakröfum, ýmiss konar dómkröfum og lánum til langs tíma. Þetta kerfi getur reynst flókið þegar um er að ræða óverðtryggð lán með nafnvöxtum og er óleyst mál varðandi verðtryggð lán.

Rök fyrir verðgildisbótum sem grundvelli dráttarvaxta virðast einkum vera þau að ekki sé á það treystandi að almennt vaxtastig fylgi verðbólgu.

Þetta ætti nú brátt að verða ástæðulaus ótti þar sem aukið frjálsræði í markaðsákvörðun vaxta er að vinna sér hefð í lánsviðskiptum og dómsmálum.

Rétt þykir að taka af skarið í lögum um vaxtavöxtun dráttarvaxta, þó þannig að þeir leyfist fyrst eftir tólf mánaða vanskil og á tólf mánaða fresti eftir það. Ákvæði um vaxtavexti hafa verið í auglýsingum Seðlabankans undanfarin ár, sbr. nú síðast auglýsingu birtri 30. jan. 1987 í Lögbirtingablaði, en hún gerir ráð fyrir svipaðri reglu og þetta frv. Með dómi Hæstaréttar frá því í desember var staðfest að heimild Seðlabankans til ákvörðunar dráttarvaxta skv. 5. gr. laga frá 1960 tæki til ákvarðana bæði um vaxtahæð og vaxtareikning. Kemur hið nýja ákvæði 12. gr. þannig í reynd í stað 5. gr. gildandi laga frá 1960.

Í 13. gr. er lagt til að skuldara verði ekki gert að greiða dráttarvexti ef um viðtökudrátt af hálfu kröfuhafa er að ræða. Til þess að um viðtökudrátt geti verið að ræða þarf skuldari að hafa bæði vilja og getu til að greiða og hann þarf að hafa gert kröfuhafa löglegt greiðslutilboð eða lagt féð inn á geymslureikning skv. lögum nr. 9/1978. Ákvæði þetta tekur einnig til þeirra tilvika þegar skuldara er rétt að halda að sér höndum um greiðslu, t.d. vegna vanefnda eftir atvikum, fyrirsjáanlegra vanefnda af hálfu kröfuhafa. Gert er ráð fyrir að vaxtagreiðslur falli niður með öllu meðan á slíkum viðtökudrætti stendur. Þykir ekki rétt að skylda skuldara til að leggja fé inn á geymslureikning þótt við féð bætist nokkrir bankavextir kröfuhafa til handa.

14. gr. frv. er í samræmi við 3. mgr. 1. gr. laga nr. 56 frá 1979, um dómvexti, en lagt er til í 21. gr. að þau lög verði numin úr gildi. Nauðsynlegt er að hafa slíka heimild í lögum þegar litið er til þess að hæð dráttarvaxta getur breyst jafnvel mánaðarlega og málarekstur til heimtu kröfu tekur oft langan tíma. Ef frv. þetta verður að lögum mundi krafa bera þá dráttarvexti á hverjum tíma sem af útreikningi Seðlabankans leiddi samkvæmt fyrirmælum 10. og 11. gr. frv.

Lagt er til í 15. gr. að skaðabótakröfur beri dráttarvexti skv. 1. mgr. 10. gr. þegar liðinn er mánuður frá þeim degi þegar kröfuhafi, tjónþoli, sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf er á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð skaðabóta. Í mörgum tilvikum liggja fyrir nægilegar upplýsingar um tjónsatvik og fjárhæð skaðabóta mjög skömmu eftir að tjónsatvik á sér stað. Í öðrum tilvikum þarf að fá mat sérfróðra manna, t.d. á galla söluhlutar og á fjárhæð skaðabóta. Heimild til að krefja um dráttarvexti mundi í slíkum tilvikum stofnast þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega lagði fram slíkt mat.

Þegar um líkamstjón er að ræða þarf almennt að leggja fram örorkumat og útreikning sérfræðings á fjárhæð skaðabóta vegna tekjutaps er leiðir af örorku. Rétt þykir í slíkum tilvikum svo og vegna miskabótakrafna að dómstólar geti ákveðið við hvaða tíma dráttarvaxtagreiðslu skuli miða. Tíminn frá slysi þar til unnt er að leggja fram upplýsingar um örorku sem þörf er á til að ákvarða bætur getur verið svipaður og við önnur tjónsatvik, en æskilegt getur verið að bíða lengur með að meta fjárhæð bóta vegna þess að oft kemur ekki í ljós fyrr en alllöngu eftir slys hver verður varanleg örorka. Vextir fyrir tímabilið frá slysdegi og þar til endanlegt uppgjör fer fram mega ekki stuðla að því að annar hvor málsaðila hafi hag af því að tefja málið og mega ekki heldur verða til þess að uppgjöri sé hraðað meira en góðu hófi gegnir til að meta örorkuna sem best. Því er dómstólum hér fengin heimild til að kveða á um vaxtatímabilið hverju sinni.

Í 16. gr. er lagt til að samningsvextir, verðbætur og annað umsamið álag falli niður frá þeim tíma er til greiðslu dráttarvaxta kemur. Leiðir það eðlilega af þeim forsendum sem ákvörðun dráttarvaxta er byggð á í 10.-12. gr. frv. þessa.

Í IV. kafla frv. eru ákvæði um refsiábyrgð fyrir okur, 17. og 18. gr., um endurgreiðslu ólögmæts endurgjalds, 19. gr., og málsmeðferð, 20. gr. Svo sem fyrr er fram komið er refsivert okur skilgreint með nýjum hætti í 17. gr. með hliðsjón af þeirri þróun í vaxtamálum sem orðið hefur á undanförnum árum. Okurhugtak 2. mgr. 6. gr. laga nr. 58 frá 1960 er úrelt orðið að því er almenna vexti varðar. Hins vegar veitir misneytingarákvæði 253. gr. almennra hegningarlaga lántakendum ónóga vernd. Skilyrði þess ákvæðis eru svo ströng að mjög sjaldan reynir á það í framkvæmd. Sama reynsla hefur verið af hliðstæðu ákvæði í Danmörku. Þess vegna þótti rétt þar í landi að styrkja til muna refsivernd lántakenda og annarra sem standa höllum fæti í samningum vegna fjárhagslegra erfiðleika eða annars aðstöðumunar með því að tveimur nýjum lagaákvæðum var á árinu 1975 bætt inn í hegningarlögin.

Markmiðin með hinum nýju ákvæðum IV. kaflans eru þau fyrst og fremst að veita bæði innlánsstofnunum og almenna lánamarkaðnum hæfilegt svigrúm til athafna og þróunar, en veita lántakendum jafnframt viðunandi vernd. Tilhögunin er sú í stórum dráttum að út af fyrir sig má semja um hvaða almenna vexti sem er. En sé farið ólöglega að við samningsgerð, framsal samnings, beitingu hans eða hagnýtingu samkvæmt því sem lýst er í 17. gr. verður hinn brotlegi að gjalda þess að hafa áskilið sér vexti eða annað endurgjald umfram hæstu gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á þeim tíma er til skuldar var stofnað. Eftir því sem þetta bil breikkar og vaxtatakan fer lengra umfram vaxtakjör innlánsstofnana, því meiri er áhættan, bæði hættan á því að dómstólar telji um óréttmæta hagnýtingu aðstöðumunar að ræða svo og á þyngri viðurlögum ef brot sannast.

Hinu ólögmæta atferli er lýst í upphafi 17. gr. frv. sem því að hagnýta sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti. Hér þarf að vera um misnotkun aðstöðu að ræða svo grófa að dómstólar telji hana refsiverða.

Orðin „á óréttmætan hátt“ eru ætluð sem eins konar fyrirvari til dómstóla um varfærnislegt mat á refsiverðleika háttseminnar og þrengingu á efnissviði ákvæðisins svipað og ólögmætisfyrirvari 248. gr. almennra hegningarlaga, um fjársvik.

Að sjálfsögðu skiptir fjárþröng mestu máli varðandi aðstæður viðsemjandans, en rétt þykir að hafa opið ákvæði um hliðstæðan aðstöðumun aðila, t.d. þar sem annar er háður hinum í starfi, vegna fyrri viðskipta, um útvegun fíkniefna, o.s.frv.

Það atferli er lýst var hér að framan þarf að beinast að því að áskilja sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá bönkum og sparisjóðum. Þessi síðari mælikvarði okurháttseminnar er fyrst og fremst hugsaður sem viðmiðun í samningum utan bankakerfisins og mælikvarði við mat háttseminnar.

Okurbrot er fullframið við áskilnað vaxta. Samningur þarf ekki að hafa tekist. Um annað endurgjald er áður rætt.

Sem saknæmisskilyrði þarf ákæruvaldið að sýna fram á annaðhvort ásetning eða stórfellt gáleysi. Er það meðalvegur milli gildandi ákvæða í 2. mgr. 6. gr. laga frá 1960 og misneytingarákvæðis hegningarlaga, ásetningur.

Þótt fésektir verði að líkindum algengasta refsingin fyrir okur er þó gert ráð fyrir að alvarleg brot af þessu tagi geti varðað refsivist. Rétt er að taka fram að gæsluvarðhaldi er því aðeins heimilt að beita að fangelsi sé tilgreint í ákvæðinu sem refsitegund, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Í 2. mgr. 17. gr. er sérstakt ákvæði um eftirfarandi hlutdeild í okurbrotum. Með ákvæði þessu er unnt að ná til „skuggamanna“, þ.e. þeirra sem skipta við okrara, fjármagna slíka starfsemi og njóta hagnaðar af henni. Sökunautar samkvæmt þessu ákvæði þurfa að uppfylla öll sömu skilyrði og aðalmenn skv. 1. mgr. Eðli máls samkvæmt er raunar örðugra að sanna sekt á hlutdeildarmennina, ekki síst ásetning eða stórfellt gáleysi. Samkvæmt tveimur fyrstu málsliðunum þarf hinn brotlegi ekki sjálfur að hafa hagnast á viðskiptunum.

Í 3. mgr. 17. gr. er lagt til að lögfest verði ákvæði um hlutræna refsiábyrgð lögaðila þar sem það á við. Slík ákvæði um refsiábyrgð án persónulegrar sakar eru allalgeng orðin í lagasetningu á síðari árum, einkum til þess að bera niður á svokölluðum efnahagsbrotum í atvinnustarfsemi fyrirtækja. Í grg. eru þessar lagaheimildir taldar upp. Í sumum ákvæðanna felst auk refsiviðurlaga heimild til leyfissviptingar eða sviptingar starfsréttinda. Er svo einnig skv. 3. mgr. 17. gr. í þessu frv.

Að sjálfsögðu eru sömu sönnunarkröfur gerðar sem endranær. Ekki þykir eðlilegt að lögaðili sleppi þótt hinn brotlegi finnist ekki, t.d. af því að honum hefur verið sagt upp.

Að því er ólöglega dráttarvaxtatöku varðar er byggt á hinum ófrávíkjanlegu ákvæðum 10. og 11. gr. um hámark dráttarvaxta. Hér er því hið víðtæka okurhugtak lagt til grundvallar líkt því sem nú er að finna í 6. gr. gildandi laga frá 1960. Um ákvörðun og birtingu dráttarvaxta eru nú skýrar reglur í tilvitnuðum ákvæðum. Um önnur atriði má vísa til athugasemda við 17. gr.

Endurgreiðsluákvæði 19. gr. frv. svarar til 1. mgr. 6. gr. laga frá 1960. Hugmyndin að baki þessu ákvæði er svipuð og í 17. gr. að öðru leyti en því að hér er um endurgreiðslu oftekinna vaxta að ræða en ekki refsiábyrgð. Nánar um tilhögun ákvæðisins má vísa til þess sem áður segir um II. kafla frv. Refsiverður samningur mundi jafnan vera ólögmætur og því ógildur skv. 19. gr. En samningur gæti verið ólögmætur samkvæmt öðrum réttarreglum án þess að leiða til refsiábyrgðar og mundi þá leiða til sömu niðurstöðu.

Ákvæði 20. gr. er í samræmi við almennar reglur, en tekið hér með til áherslu og öryggis.

Í V. kafla eru einungis gildistöku- og bráðabirgðaákvæði. Lagt er til í 21. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi ef samþykkt verða. Hér er aðeins lagt til að numin séu úr gildi hin almennu lagaákvæði um vexti en ekki hróflað við sérákvæðum á ýmsum sviðum. Með frv. þessu fylgja þó nokkur fylgifrv. til breytinga á lögum sem óhjákvæmilegt þótti að breyta til samræmis.

Í 2. mgr. 21. gr. er tekið af skarið um gildistöku með tilliti til eldri og yngri fjárkrafna.

Með bráðabirgðaákvæði I er tryggt að okurmál þau sem þegar hafa verið höfðuð til refsingar fyrir gildistöku laga þessar geti gengið sinn gang og hlotið efnisdóm. Að öðrum kosti er hætt við að þessi mál væru alveg úr sögunni vegna ákvæðis 2. gr. hegningarlaga um bann við afturvirkum refsiheimildum. Ekki er hægt að dæma eftir heimildum sem numdar hafa verið úr gildi. Að sjálfsögðu er ógjörningur með lögum að endurlífga þau sakarefni sem fella þurfti niður vegna dóms Hæstaréttar frá 19. des. s.l.

Í bráðabirgðaákvæði II er tekin afstaða til ákvæða í eldri lánssamningum um hæstu lögleyfða dráttarvexti eins og þeir eru á hverjum tíma og gildi verðtryggingar eftir að vanskil eiga sér stað.

Í bráðabirgðaákvæði III er kveðið svo á að ákvæði í eldri lánssamningum um breytilega vexti í samræmi við hæstu lögleyfðu vexti á hverjum tíma skuli framkvæmd þannig eftir gildistöku laganna að vextir verði jafnháir vegnu meðaltali vaxta af hliðstæðum lánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og þeir eru á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að fara yfir frv. það til vaxtalaga sem hér er til umræðu. Það varðar mikilvægt svið viðskipta og atvinnulífs þar sem mikið er í húfi að lögfesta skýrar heimildir og tryggja réttaröryggi. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.