10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

Síldarsamningar Norðmanna og Sovétmanna

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Þá veit maður það að ekki má minnast á förumannaflokka og skal því sleppt. Það er rétt sem hæstv. sjútvrh. tók fram að það sem er alvarlegt í þessu máli er það að með þessum árgangi 1983 og endurrisi þess stofns hefðu verið möguleikar á því að áliti margra fiskifræðinga, ekki síst norskra, að þessi stofn mundi fara að ganga vestur til Íslands, undan austurströnd Íslands, jafnvel norðurströnd, og liggja síðan við á Rauða torginu sem kallað er. En það er dregið mjög í efa, þó það sé rétt að Norðmenn hafi samþykkt 150 000 tonn, hvað varðar smásíldina. Með veiðum smásíldarinnar er verið að útiloka að stofninn nái sér upp. Ég dreg mjög í efa að þeir hafi áhuga á að hann verði svo stór að hann fari að leita ætis vestar, í kringum Ísland. Mér virðist öll þeirra frammistaða vera á þann veg að þeir vilji stöðva þá þróun. Hitt er rétt hjá sjútvrh. að það voru 150 000 tonn sem þeir bundu sig við, en út af fyrir sig þarf tonnatalan ekki að skipta máli heldur hitt að hver tunna af smásíld getur verið tvær eða þrjár á móti hverri einni af stærri síld.

Aðeins til upplýsingar: Sovétmenn veiða um 100 000 tonn úr Kyrrahafi. Sovéskum fiskifræðingi, samstarfsmanni Jakobs Jakobssonar hér við land, tókst að friða þann stofn og hefur náð honum upp. Rússar veiða nú um 100 þús. tonn þar sem þeir veiddu nær ekkert áður.

Það er skemmtilegt frá því að segja og á allra vitorði að forstjóri íslensku hafrannsóknastofnunarinnar má ekki skrifa grein eða láta út úr sér orð svo það sé ekki þýtt, t.d. í Sovétríkjunum. Hans orðstír er þar mikill. En í Kyrrahafi er verið að gera svipað og gert var hér við Suðurlandssíldina. Það þarf auðvitað að ná stofninum upp. En með þessu gegndarlausa smásíldardrápi tekst það ekki. Og allt er þetta til þess að geta náð mörkuðunum af Íslendingum. Væri hægt að benda á einhverja þjóð sem hafi verið óprúttin og ósvífin í samkeppni við Íslendinga á erlendum mörkuðum eru það frændur vorir Norðmenn. Ég vona að þetta móðgi ekki virðulega fulltrúa á Norðurlandaþingi.