16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Steingrímur J. Sigfússon:

Hæstvirtur forseti. Virðulegur forseti þessarar deildar hefur mælt fyrir frv. sem hann flytur ásamt með ræðumanni og fleiri hv. þm. og þarf ég ekki að endurtaka hans orð um ástæður þess að við flytjum þetta frv. Ég tel sömuleiðis óþarft að fara að nokkru ráði ofan í efnisatriði þessarar deilu sökum þess að málið hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarna daga og enn fremur ítarlega rætt utan dagskrár í Sþ. fyrir stuttu. En í öllum þessum umræðum og allri þessari umfjöllun hafa okkur flm. ekki þótt koma fram haldbær rök fyrir því að hæstv. menntmrh. skyldi bregðast við sem raun bar vitni og vegna þess enn fremur að sá tími sem gafst til að ná sáttum eða samkomulagi og setja þetta mál í eðlilega rannsókn hefur ekki nýst sem skyldi. Það liggur fyrir að þrátt fyrir eindreginn vilja fræðsluráðs í Norðurlandi eystra til að ná samkomulagi við menntmrn. um rannsókn á málsatvikum og þrátt fyrir að sama fræðsluráð hafi gefið hæstv. ráðh. ítarlegan umhugsunarfrest, sent honum tillögur til lausnar málsins, stöðvað tillöguflutning á Alþingi þannig að hæstv. ráðh. gæti í ró og næði og án alls þrýstings hugsað sinn gang, liggur sú niðurstaða fyrir að ráðherra hefur ekki treyst sér til þess að verða við tilmælum fræðsluráðsins um rannsókn og með ákveðinni tilhögun.

Það er fráleitt að halda því fram að hæstv. menntmrh. hafi fallist á tillögur fræðsluráðsins um rannsókn. Ég hef undir höndum svarbréf hæstv. menntmrh. til Þráins Þórissonar, formanns fræðsluráðs, dagsett 5. febrúar og þar kemur fram ótvírætt að það sem hæstv. ráðh. virðist tilbúinn til að fallast á er einhvers konar nefndarskipan til að kanna þessi samskipti óskilgreint og til að koma þeim í fastara horf með tilliti til framtíðar. Með öllu eru sniðgengnar í þessu svari hæstv. menntmrh. þær tillögur fræðsluráðsins um rannsókn á deilunni og meintum ávirðingum í garð fyrrv. fræðslustjóra sem auðvitað eru kjarni í þessari deilu. Þar af leiðandi er svar hæstv. menntmrh. sýndarmennskusvar að mínu mati og viðbrögð fræðsluráðsins gátu ekki orðið önnur en þau að hafna því. Þar af leiðandi er niðurstaðan sú eins og hún snýr við okkur alþm. sem flytjum þetta mál og væntanlega fleiri hv. alþm. sem fengið hafa undanfarna daga og undanfarnar vikur fjölda áskorana um að þessi mál verði rannsökuð og skipta þær tugum ef ekki hundruðum þær samþykktir, ályktanir og undirskriftir sem hingað hafa borist, m.a. til virðulegs forseta Sþ. og þm. fleiri kjördæma en Norðurlands eystra.

Hæstv. ráðh. hefur sjálfur ítrekað sagt að öll kurl þurfi að koma til grafar í þessari deilu og hann geti ekki unað öðru en það verði upplýst að fullu. Þess vegna kemur það spánskt fyrir sjónir að hæstv. ráðh. skuli bregðast við og ýmsir mætir flokksbræður hans með þeim hætti sem raun ber vitni að verða nánast ókvæða við þegar lagt er til að Alþingi sjálft hlutist til um rannsókn. Ég tel að það geti ekki borið vitni um annað en slæman málstað eða einhver annarleg sjónarmið að bregðast við þingmálinu með þessum hætti, því þingmáli sem hér er flutt, tillögu um rannsókn. Að halda því fram að hér sé á ferðinni með einhverju móti óeðlileg tillögugerð er að mínu mati ekki réttmætt.

Í fyrsta lagi liggur fyrir rétt rúmlega árs gamalt fordæmi þar sem ríkisstjórnin sjálf kaus að viðhafa þá tilhögun að leggja fram frv. og fela Hæstarétti að tilnefna menn í nefnd til að rannsaka tiltekið mál. Fordæmi um frumkvæði Alþingis í þessum efnum eru því miður fá og allt of fá að mínu mati, virðulegur forseti, og er ástæða til að hugleiða í framhaldi af þessum málum öllum hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á þingsköpum Alþingis og jafnvel stjórnarskrá til að auðvelda Alþingi, þegar svo ber undir sem nú, að grípa til aðgerða og koma á fót rannsóknarnefndum til að fara ofan í viðkvæm og stór mál þegar nauðsyn krefst. En það er annað mál og verður ekki rætt frekar hér.

Inn í þetta deilumál hafa ýmsir efnisþættir blandast sem ég sé ekki ástæðu til að gera sérstaklega að umtalsefni hér með hliðsjón af því sem ég fyrr sagði. Ég vil þó nefna að ég hef nú undir höndum ítarlega greinargerð frá fræðsluráði Norðurlandsumdæmis eystra þar sem farið er lið fyrir lið yfir hvert einasta atriði sem hæstv. menntmrh. sakaði fyrrv. fræðslustjóra um í umræðum hér á Alþingi og því svarað og að mínu viti því hnekkt að fræðslustjórinn hafi í þeim tilfellum brotið af sér eða með nokkrum hætti staðið óeðlilega að málum.

Ég hef einnig undir höndum nýjar upplýsingar um stöðu sérkennslumála í þessu fræðsluumdæmi, Norðurlandsumdæmi eystra, og samanburð milli fræðsluumdæmanna. Það mál hefur einnig dregist inn í þessa deilu og því miður verður að segjast að nýjustu upplýsingar sem ég hef um stöðu þessara mála benda til þess að óréttlætið sé í raun mun meira en menn höfðu áður haldið og að talnaleikir hæstv. menntmrh. séu í raun enn þá fjær hinu sanna en við fyrstu sýn virtist.

Þannig kemur það fram að í svari við fsp. minni hér á Alþingi virðist meðferð upplýsinga vera með þeim hætti, virðulegur forseti, að ekki verði við það unað. Ég mun ekki sjá mér annan kost en gera athugasemdir við virðulegan forseta Sþ. við valið tækifæri og fara fram á að þetta þskj., þskj. 319, svar við fsp. um stöðu sérkennslumála, verði unnið upp á nýtt. Þær tölur sem ég hef nú undir höndum um þjónustustig í þessum efnum benda til þess að í þessu þskj. sé svo stórkostlega dregið undan þeirri þjónustu sem höfuðborgarsvæðið nýtur vegna sérstofnananna sem hér eru staðsettar og látið líta svo út sem hlutur landsbyggðar sé í raun miklum mun betri en efni standa til að við það verður ekki unað. Eitt af því sem nú nefnd, sem við leggjum til í þessu frv., virðulegur forseti, að verði skipuð, hefði þurft að fara ofan í saumana á eru einmitt þessi mál.

Það er rétt að leggja svo á það áherslu, m.a. vegna þeirra orða sem hæstv. forsrh. og hv. 9. landsk. þm. létu hér falla, að við gerum í okkar frv. ráð fyrir að rannsókn þessa máls verði miklum mun ítarlegri og víðtækari en hvað varðar ágreiningsefnin um starf fræðslustjórans eins og þær ávirðingar sem á hann eru bornar. Það verða menn að hafa hugfast þegar rætt er annars vegar um dómsrannsókn og hins vegar um rannsókn sem Alþingi hlutaðist til um að hér eru tveir ólíkir hlutir á ferðinni. Það sem fyrrverandi fræðslustjóri getur að sjálfsögðu gert er að höfða mál og þá snýst það mál eðli sínu samkvæmt fyrst og fremst um hans hlutdeild í því persónulega og þann rétt sem hann kann að hafa og örugglega á til bóta vegna brottvikningarinnar á sínum tíma. En við leggjum til að rannsóknin verði mun víðtækari og taki á þessari deilu í heild sinni og þessum samskiptum í heild sinni. Ég held að öllum sé ljóst sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál að slíkt er alveg óhjákvæmilegt og nauðsynlegt. Ég sé ekki, þó að fyrrv. fræðslustjóri fái í gegnum dómstólana einhverjar réttarbætur sér til handa, að traust komist á milli þeirra fjölmörgu aðila sem þurfa að vinna saman að skólamálum í landinu, að framkvæmd grunnskólamálanna í landinu, þó svo að þetta tiltekna atriði fengi einhverja niðurstöðu. Ég held að slíkur trúnaðarbrestur hafi orðið milli kennarastéttarinnar, þeirra sem fara með fræðslumálin úti í umdæmunum, og menntmrn. að þar þurfi mikið að koma til áður en grær um heilt.

Svo að síðustu þetta, virðulegur forseti: Hér var boðuð og lögð fram tillaga um rökstudda dagskrá, frávísunartillaga, till. um að þetta mál fái ekki einu sinni venjulega þinglega meðferð, fái ekki að fara til nefndar eins og flm. hefur gert tillögu um og fái þar ekki skoðun. Hér er reitt hátt til höggs að mínu mati og ekki vel ígrunduð viðbrögðin þó svo að formaður stærsta þingflokksins sem sæti á á Alþingi, hv. 9. landsk. þm., hafi mælt fyrir till.

Ég tel það í fyrsta lagi óeðlilegt með öllu yfir höfuð að rjúfa þá áralöngu hefð og þá samstöðu sem nær undantekningarlaust í allri þingsögunni er fyrir því að öll mál sem á annað borð eru þingtæk fái þinglega meðferð og skoðun. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er býsna alvarlegt ef menn af pólitískum ástæðum reiða svo hátt til höggs að þeir ætla að neita máli sem virðulegur forseti þessarar deildar flytur um þinglega skoðun. Ég hef talið, og það er mín reynsla af því að starfa undir stjórn þessa ágæta forseta Nd., að hann eigi annað skilið af hv. þingdeild en að hún neiti frv. sem hann flytur um eðlilega þinglega skoðun.

Ég held að hæstv. forsrh. hefði átt að lesa betur það þingmál sem hér er til umræðu áður en hann sté í ræðustól og hafði uppi efasemdir um að það væri réttmætt og þinglegt að flytja svona frv. vegna þess að fyrrv. fræðslustjóri hafi höfðað mál hvað varðar sín sérmálefni fyrir dómstólunum. Ég held að misskilningur hæstv. forsrh. felist í því að hér er Alþingi ekki með frv. að leggja til niðurstöðu í þessa deilu. Alþingi er ekki að úrskurða með lögum hverjar skuli verða lyktir deilunnar. Það væri að sjálfsögðu, sbr. það sem hæstv. forsrh. las upp úr frægri bók, alvarlegt og tilefni sérstakrar skoðunar. Hér er ekkert slíkt á ferðinni. Ég sé ekki að það geti brotið á nokkurn hátt í bág við hlutverk dómstólanna í landinu þó að Alþingi setji á laggirnar nefnd með aðstoð Hæstaréttar til að fara ofan í og rannsaka tiltekin efnisatriði máls. Það er tvennt ólíkt, annars vegar hvort Alþingi með lögum skipar niður deilunni og ræður lyktum hennar og gengi þar með inn á verksvið dómstólanna, og hins vegar hvort Alþingi leggur til að fram fari úttekt eða rannsókn á tilteknum atriðum. Ég er alveg viss um að hæstv. forsrh., þegar hann les frv. og flettir svo aftur upp í bók forvera síns, áttar sig á því að þannig liggur í þessu. Hér er því fullkomlega eðlilegur tillöguflutningur á ferðinni sem brýtur ekki á nokkurn hátt í bág hvorki við þinglegar hefðir né við hlutverk dómstólanna í landinu.

Það er svo að lokum mín ósk, virðulegur forseti, og ég satt best að segja trúi ekki öðru fyrr en ég tek á því, að þetta mál fái venjulega og réttláta meðferð eins og öll þingmál venjulega fá og um er algjör samstaða burtséð frá því hversu sammála eða ósammála menn eru tilteknum málum og mér liggur við að segja, með leyfi þínu forseti, burtséð frá því hversu gáfuleg eða vitlaus þingmál eru, að vísa þeim ætíð og ævinlega til skoðunar í nefnd og þar, eftir þá skoðun, verði ráðið frekar um framhald málsins.