17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

267. mál, lausafjárkaup

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil að það komi fram að vitaskuld hefur margt verið gert til þess að auka neytendavernd. Bæði hefur verið miklu betra samstarf við Neytendasamtökin, við verðlagsyfirvöld á hverjum tíma en áður hefur verið og fylgst þar betur með öllu sem er að gerast í þessum málum. Sömuleiðis hafa verið tekin upp fljótvirkari vinnubrögð í sambandi við kvörtunarmál neytenda á ákveðnum sviðum og nú stendur fyrir dyrum að taka upp enn víðtækari dómstól í sambandi við umkvartanir, þannig að í staðinn fyrir að eiga í langvarandi málaferlum verða kveðnir upp almennir úrskurðir. Því verður komið á innan nokkurra daga og hefur viðskrn. fallist á það við Neytendasamtökin að skipa oddamann í slíkan dóm. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þó að bið verði á heildarlöggjöf eru þessi mál auðvitað í fullum gangi og reynt að vinna betur að þeim eins og nauðsyn er á.