23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3278 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

209. mál, sjómannadagur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns er tilgangurinn með því að gera sjómannadaginn að almennum frídegi sá að sýna sjómannastéttinni virðingu og eru nefndarmenn því fyllilega sammála.

Á hátíðis- og tyllidögum hefur sjómannastéttin iðulega verið lofuð, kölluð hetjur hafsins og annað í þeim dúr og látið mikið með aðdáun á störfum sjómanna. Hins vegar þegar til hefur átt að taka hefur þessi aðdáun ekki birst í verkum sem skyldi eins og best kom fram nú fyrir skömmu þegar setja átti gerðardómslög á sjómenn þrátt fyrir að mál hefðu ekki verið rædd til hlítar.

Sjútvrh. mun hafa lofað íslenskri sjómannastétt að bera fram frv. um að sjómannadagurinn yrði almennur frídagur og lögfestur, mun hafa gert það fyrir 2-3 árum. Þegar séð var í fyrravetur að ekki bólaði á frv. um þau efni fluttum við Alþýðuflokksmenn lagafrv. um þetta efni. Það var mjög stuttort og hnitmiðað að mínu mati og var gert á sama veg og þegar 1. maí var gerður að almennum frídegi.

Grundvallarskoðun okkar er sú, a.m.k. mín, að það beri að semja um þessa hluti milli aðila, hvernig með daginn skuli fara, en löggjafinn lögfesti hann sem almennan frídag.

Það frv. sem við lögðum fram á síðasta þingi fékk ekki afgreiðslu, en það varð til þess að stugga við þeim er loforðin höfðu gefið og á þessu þingi kom fram frv. sem var þannig úr garði gert að nefndin taldi sig knúna til að gera á því mjög verulegar breytingar, enda komu mótmæli fram við mjög marga liði þess frá sjómannasamtökunum og líka frá útgerðarmönnum.

Ég og þeir aðrir sem ekki voru dús við frv. ráðherra féllumst á að gera breytingar á því með það í huga að þetta mál næði fram að ganga og því erum við aðilar að þeim brtt. sem hér eru. í mínum huga er, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um hvað varðar hans skoðun, þessi dagur fyrst og fremst dagur fiskimanna og haldinn hátíðlegur af þeim og fiskimenn um hinar dreifðu byggðir landsins hafa kappkostað að sýna þessum degi sína virðingu og íbúar byggðarlaganna tekið virkan þátt í því með hátíðahöldum þar sem því hefur verið við komið.

Hér er tíundað margt fleira en er varðar fiskimenn og mun ég láta það afskiptalaust eins og ég hef áður nefnt. Það hefur orðið samkomulag í nefndinni. En ég verð að segja frá því hér að ég er mjög andvígur síðasta málsl. frv. sem er breyting við 5. gr. frv. Þar segir:

„Ákvæði 1. mgr. eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Einnig má víkja frá ákvæðum 1. mgr. ef mikilvægir hagsmunir eru í húfi og samkomulag tekst þar um milli útgerðar og skipshafnar.“

Ég minni á að sjómannasamtökin hafa sýnt þessu atriði mikla andstöðu og það er skoðun mín, og vísa ég þá til eigin reynslu, að atkvæðagreiðslur um borð um vilja skipshafnar eigi sér ekki stað. Það er afar fátítt ef svo er. Yfirleitt er það skipstjórinn sem ræður fyrir skipinu og spurning er hvort svo á ekki að vera eins og í öðrum málum. Hitt er annað að það er farið inn á þessa hluti hér, en það er trúa mín að hásetar muni litlu ráða um hver niðurstaðan verður ef menn vilja sigla, ef útgerðin vill að skipið sigli. Þess vegna er ég andvígur þessum lið og tel að um þetta hefði mátt fjalla í samningum og ná þar niðurstöðu. Ég tel líka að það sé ónauðsynlegt að hafa þessa grein því að hægt sé að skipuleggja landanir með þeim fyrirvara sem til þarf.

Ég ætla ekki að tíunda fleira um þetta mál, en segi aftur: Ég er aðili að áliti sjútvn. vegna þess samkomulags sem gert var í því skyni að ná frv. fram á þessu þingi til að sjómenn geti fengið þá viðurkenningu sem þeim var heitin fyrir nokkrum árum og ég vænti þess að Nd. afgreiði þetta mál fljótlega eða stöðvi það ekki svo að af þessu geti orðið.