14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. „Þetta sem nú hann varast vann, varð þó að koma yfir hann," segir í vísunni og ég hef alla samúð með hinni vestrænu samvinnu í þeirri umræðu sem um hana fer fram hér í dag og skal ekki blanda mér í hana. En það eru nokkur tæknileg atriði, sem ég vil fá svör við, sem hv. 5. þm. Austurl. hefur spurt um hvað eftir annað en ekki fengið svör við. Það er í fyrsta lagi 4. gr. Ég vil koma því á framfæri vegna þess að ég sé að hér sitja í hliðarsölum aðstoðarmenn hæstv. utanrrh. að mér finnst ekki alveg samræmi milli hinnar íslensku þýðingar og frumtextans. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði samnings þessa og sérhvers samkomulags um framkvæmd hans, sem gert er samkvæmt 1. grein," o.s.frv.

Í enska textanum er sagt:

„The provisions of this Treaty and any implementing arrangements concluded pursuant to Article I“. Eins og ég skil enska tungu, er þýðingin „sem gert er“ vafasöm. Í enska textanum sýnist mér innifalið „og gert verður“. Og ég vil spyrja: Þýðir þetta þá: öll ákvæði samnings þessa og sérhvers samkomulags um framkvæmd hans sem gert hefur verið og gert verður? Ég býst t.d. við að hv. þm. Eiður Guðnason viti að sögnin „to pursue“ þýðir að fylgja á eftir eða að fara í kjölfarið á. Þetta skiptir mjög miklu máli, hvort þetta gildir um það samkomulag „sem gert verður“ og byggist á þessari grein. Og ég bið hæstv. utanrrh. að ráðgast við sína sérfræðinga og svara þessu, því að þetta er mikilvægt.

Þá vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Hvaða lög geta hugsanlega orðið að engu fyrir þennan samning? Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra um dæmi sem mér kom í hug hér meðan ég var að hlýða á umræður. Segjum að ríkisstjórnin setji lögbann á verkfall á farskipum. Gildir það e.t.v. ekki um þessi skip sem eru að flytja farm til herstöðvarinnar? Þetta er mjög forvitnilegt að vita. Gilda ekki lög um haffærni, sóttvarnir o.s.frv.? Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. utanrrh. að vita hvort hann getur sett lögbann á verkfall t.d. á þessum skipum eða bráðabirgðalög eða eitthvað slíkt.

Annað textaatriði sem stingur mig dálítið í þessum samningi er í 1. gr. og varðar vissulega réttindi þeirra sem á þessum skipum koma til með að vera og vinna. Þar stendur í 1. gr., með leyfi forseta:

„Flutningaþjónusta á sjó milli Íslands og Bandaríkjanna með farm vegna varnarsamningsins“. Síðan er efst á bls. 3 talað um „carriage of military cargo“. Hvað er það? Eru það hergögn? Eru það atómvopn? Hvað er „military cargo“ hæstv. utanrrh.? Hefur áhöfn slíks skips ekkert um það að segja hvað hún flytur? Farmur getur verið sitt af hverju. Ég held að þessar skilgreiningar sé mjög mikilvægt að hafa alveg á hreinu og það getur ekki verið ofverk embættismanna utanrrn. að gera þetta alveg ljóst. Og ég held að það geti heldur ekki verið ofverk þeirra að fara í gegnum öll þau lög sem um siglingar og farmflutninga fjalla og grannskoða hvaða lög þessi samningur getur brotið í bága við. Ég held að við verðum að hafa í huga réttindi þeirra skipverja sem þessa flutninga eiga að annast og að það sé grannskoðað hvort þeir eigi ekki rétt á að vita hverju sinni hvað þeir hafa um borð.

Þessi örfáu atriði vildi ég aðeins minnast á. Ég er ekki að halda neinu fram en vil fá svör við þeim efasemdum sem mér finnst liggja hér í þessum texta og óska eftir að því verði svarað, ef ekki hér þá í meðferð hæstv. utanrmn.

Ég skal ekki segja mikið meira um hið vestræna samstarf. Ég held að það blasi við og innihald þess hverjum fullvita manni, sem fylgst hefur með atburðum síðustu daga, og skil sárindi og vonbrigði þeirra sem trúðu á vilja Bandaríkjamanna til þess að vinna að friði með öðrum vestrænum þjóðum og austrænum raunar. En það var kannske ágætt að fá það beint úr munni forseta Bandaríkjanna að Keflavíkurstöðin væri ein þýðingarmesta herstöð Bandaríkjamanna. Þá vitum við það og ég vænti þess að við þurfum þá ekki oftar að jagast um það hér í þingsölum hver sé skilningur vinaþjóðarinnar í vestri á þeirri herstöð. En ég skal ekki hleypa umræðunni út í þetta, við getum gert það seinna, en ég held að þau atriði sem ég hef hér minnst á krefjist svars. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.