02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

388. mál, lögreglumenn

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um lögreglumenn, nr. 56/1972, með síðari breytingum. Í bókun með sérkjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, dags. 18. júlí 1986, var gefið fyrirheit þess efnis að dómsmrn. mundi beita sér fyrir því að láta leggja fram á næsta Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum um lögreglumenn er fæli í sér heimild til að lækka eða fella niður skaðabótafjárhæð vegna tjóns sem lögreglumenn valda við skyldustörf og er af völdum mistaka eða vanrækslu.

Skyldur og störf lögreglumanna eru þess eðlis að þeir þurfa oftsinnis að bregðast skjótt við aðsteðjandi vanda eða ástandi sem rís skyndilega. Þá gefst sjaldan tóm til að leita fyrirmæla yfirboðara eða ráðrúm til mikillar umhugsunar og verða lögreglumenn að taka tafarlausar eða tafarlitlar ákvarðanir við erfiðar og oft hættulegar aðstæður.

Lögreglumenn eru í þeirri aðstöðu að geta valdið eignatjóni eða slysi af gáleysi sem ekki verður talið stórfellt.

Þau sjónarmið búa að baki þessari lækkunarheimild tjónsfjárhæðar að fjárhagur og aðstæður tjónvalds geta verið slíkar að honum sé gjörsamlega um megn að greiða tjónið allt eða hluta þess. Má segja að sanngirnis- og velferðarsjónarmið liggi til grundvallar þessu ákvæði. Réttarstaða lögreglumanna yrði verulega bætt ef þessi lækkunarheimild verður lögfest.

Mjög fátítt er að ríkið endurkrefji launþega vegna tjóns sem þeir hafa valdið af gáleysi og sem ríkið hefur bætt samkvæmt vinnuveitendaábyrgðarreglunni. Til þess getur þó komið og eins getur tjónþoli snúið sér beint að tjónvaldi. Ofangreind lækkunarheimild nær bæði til endurkröfu vinnuveitanda og beinnar kröfu tjónþola á hendur lögreglumanni sem valdið hefur tjóni. Af þessum sökum er þetta frv. flutt.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.