14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þingflokkur Alþfl. hafði til athugunar og í vinnslu að leggja hér fram á hinu háa Alþingi frv. til laga sem kvæði á um það að siglingar til landsins á vegum erlendra skipafélaga í skjóli erlendra einokunarlaga yrðu bannaðar. Fram kom í fjölmiðlum að formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., tók undir það, þó ég muni ekki nákvæmlega orðalagið, að til greina kæmi að setja slík lög. Í ljósi þess að þessi samningur hefur legið fyrir og við höfum haft ráðrúm til að kynna okkur hann er það niðurstaða okkar að það sé óþarfi. Þessi samningur sé viðunandi og við viljum láta á það reyna hvern árangur hann ber í framkvæmd, enda vísum við þá til uppsagnarákvæðis innan 12 mánaða ef út af ber með framkvæmdina. Og það er kjarni málsins.

Hér var uppi deila sem var búin að standa allt of lengi, óþarflega lengi. Í tvö og hálft ár hafði þetta mál velkst milli manna í höndum tveggja utanrrh. án niðurstöðu og það virtist stefna í það að þegar þyrfti á grundvelli jafnréttisaðila að gera Bandaríkjamönnum skiljanlegt að það yrði ekki liðið af okkar hálfu mikið lengur. E.t.v. hefur það hrifið. Allavega er ljóst að bandarísk stjórnvöld hafa brugðist við að því er varðar þetta mál með þeim samningi, sem hér liggur fyrir, sem við teljum að sé viðunandi.

Út frá spurningum um innihald samningsins og einstök ákvæði hans sé ég ekki ástæðu til að blanda mér í þær umræður, að því er varðar t.d. spurningu hv. þm. um 4. gr., hvort ákvæði hennar gæti átt við um einhverjar aðrar ráðstafanir í framhaldi af samningnum, vil ég aðeins vekja athygli á því að samkvæmt hinum íslenska texta þá er þessi 4. gr. um að samningsákvæðin skuli ganga fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga - eldri. Það þýðir ósköp einfaldlega að þau taka ekki til ósettra laga eða reglugerða sem við kunnum að setja síðar. Þannig að spurning um það hvaða áhrif þessi samningur kunni að hafa á ógerða hluti snýst ekki um þessa grein út af fyrir sig. Ég hygg að niðurstaðan sé sú, eins og ég sagði, að samningurinn sé viðunandi og við látum nú á það reyna hvort svo sé.

Í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram finnst mér kjarni máls vera þessi. Af hálfu talsmanns Alþb., hv. 5. þm. Austurl., er sagt: Við viljum ekki að íslenskir aðilar verði efnahagslega háðir hinu erlenda varnarliði. Og reyndar fór hann svona heldur snautlegum orðum mörgum hverjum um það. Þá rullu höfum við nú heyrt áratugum saman í hvert skipti sem kemur að slíkum hlutum, eins og t.d. siglingar milli landa í þágu varnarliðsins, verktaka í þágu varnarliðsins, sala á varningi og þjónustu vegna dvalar varnarliðsins. Ef um þetta á ævinlega að fjalla á grundvelli biblíutilvitnana um Júdas þá er það út af fyrir sig kannske smekksatriði. En spurningin er um pólitíkina í málinu. Gagnályktunin er nefnilega sú sem fram kom í máli hv. 3. þm. Reykn.: Varnarsamningurinn er hér í gildi. Við skulum láta liggja á milli hluta hver afstaða meiri hluta þjóðarinnar er til hans. Hann er í gildi og hefur verið í gildi lengi og hjá því verður ekki komist að samskipti íslenskra aðila og þessa varnarliðs eru nokkur. Er það niðurstaða þeirra Alþýðubandalagsmanna þar af leiðandi að því er varðar siglingar með varning til varnarliðsins, þá skuli þær, til þess að koma í veg fyrir að íslenskir aðilar hafi þar efnahagslegra hagsmuna að gæta, vera í höndum erlendra aðila? Er það krafa Alþb. að verktaka í þágu varnarliðsins skuli vera í höndum erlendra aðila? Er það krafa Alþb. á þessum forsendum að allar framkvæmdir, öll samskipti, öll sala á varningi eða þjónustu skuli vera í höndum erlendra aðila? Þetta er spurning sem er rökrétt niðurstaða af þessum málflutningi því að þá fer maður að skilja út af fyrir sig allt talið í hinum hefðbundna landráðabrigslastíl, svo ég nefni nokkuð af þessu hnossi: Molarnir sem falla af borðum Bandaríkjahers. Dollararnir sem eru í boði. Hermangsframkvæmdirnar sem verið er að ástunda. Að blanda saman efnahagslegum hagsmunum og öryggishagsmunum þjóðarinnar. Að boða aronsku. Meðal annarra orða, það er langt síðan menn hafa litið í varnarsamninginn hér á hinu háa Alþingi. Varnarsamningurinn er dálítið merkilegt skjal í íslenskri sögu og hefur kannske að mati flestra staðist býsna vel. En með vísan til umræðna eða brigslyrða um aronsku er rétt að rifja hér upp, með leyfi hæstv. forseta, 2. gr. samningsins. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ísland mun afla heimildar á landsvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenskum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir.“

Samkvæmt þessari grein, 2. gr. varnarsamningsins, sem reyndar er ekki við NATO heldur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Atlantshafssamningsins, er aronsku vísað á bug og hefur svo verið allan tímann sem þessi samningur hefur verið í gildi.

Hitt er svo annað mál sem menn verða að gera upp við sig. Telja þm. Alþb., sem út af fyrir sig hafa sérstöðu og kannske hugsanlega ásamt með Kvennalistanum, ég veit það ekki svo gjörla, sem út af fyrir sig hafa haft þá sérstöðu að vera andstæðingar þessa samnings, að vera andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu, telja þeir það sæmandi næstu 3-4 áratugina að halda áfram að tönnlast á því að við hinir, sem erum ósammála þeim og teljum öryggi Íslendinga best borgið með aðild að varnarsamstarfi lýðræðisríkja, að við séum landráðamenn, að við séum lítilsigldir menn sem eru að sækjast eftir molum sem hrjóti af borðum herraþjóðar o.s.frv. Auðvitað segja þessi orð ekkert um okkur, en þau segja ýmislegt um þá sem láta þessi orð frá sér fara og kannske væri það almennt séð í þágu viti borinnar þjóðmálaumræðu um þýðingarmikið mál að menn venji sig af þessum ósið.

Ég tók vel eftir orðum hæstv. iðnrh. í þessum umræðum. Hann sagði það illt í efni að við værum hér að semja okkur frá ákvæðum bandarískra laga og taldi að það væri lítt viðunandi, sér í lagi með vísan til þess að hér væri um að ræða varnarlið á vegum Atlantshafsbandalagsins. Hæstv. utanrrh. svaraði á þá leið að þetta erum við jú hvað oft hvaðeina að gera. Þegar við leitum eftir fríverslunarsamningum, sagði hann, við Bandaríkin, þá erum við að semja okkur frá ákvæðum bandarískra laga.

Skemmst er að minnast hvalveiðideilu við bandarísk stjórnvöld eða bandaríska hagsmunaaðila. Þar var verið að hóta því að beita ákvæðum bandarískra laga til þess að loka fyrir okkur mörkuðum í þriðja landi, sem heitir Japan. Og þannig mætti taka mörg fleiri dæmi um milliríkjasamskipti þar sem við verðum að sætta okkur við það að við verðum að reyna að ná samningum um að losa okkur undan hótun um beitingu laga sem er beitt nánast eins og refsiákvæðum, og þá vísa ég aftur til þeirra lagaákvæða er varða hvalveiðideiluna. En hæstv. iðnrh. sagði: Ég vil láta endurskoða sitt af hverju í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjanna, að því er varðar framkvæmd varnarsamningsins. Og ég tók reyndar líka eftir því að hv. þm. Gunnar G. Schram sagði: Þessi varnarsamningur er að sjálfsögðu engin heilög kýr.

Hvað eru menn þá að tala um þegar þeir tala um endurskoðun á samskiptum Íslendinga og Bandaríkjanna? Væntanlega þetta: Að það sé tryggt að í samskiptum þessara þjóða sé haldið á málum þannig að ekki verði hvikað frá því, sem reyndar er grundvöllur varnarsamningsins, að þessi samskipti séu milli tveggja fullvalda og jafnrétthárra ríkja. Þá gæti það varðað mál eins og t.d. verktöku fyrir varnarliðið. Það gæti varðað mál eins og t.d. réttarstöðu bandarískra þegna í þjónustu varnarliðsins á Íslandi og það gæti varðað t.d. gildistöku eða framkvæmd, framfylgni íslenskra laga í samskiptum við varnarliðið. Það er engin goðgá þótt spurt sé: Er ekki ástæða til þess að huga að þessum málum? Ég fyrir mitt leyti árétta að við Alþýðuflokksmenn erum gjörsamlega ósáttir við núverandi fyrirkomulag verktöku í þágu varnarliðsins. Við teljum algjörlega óeðlilegt að verktakan fari fram raunverulega þannig að einokunarfyrirtæki í höndum tiltölulega fámennra en fjárhagslega öflugra aðila í þessu þjóðfélagi sé falin sú framkvæmd. Við teljum að henni ætti að koma fyrir með þeim hætti að samningar fari fram milli okkar og hins erlenda aðila á vegum ríkisins en því næst verði séð um að þessi verk verði boðin út á frjálsum verktakamarkaði. Við teljum líka ástæðu til að endurskoða sitthvað sem reyndar kannske þarf ekki endilega að þýða ákvæði varnarsamningsins heldur fylgiskjala hans að því er varðar réttarstöðu bandarískra þegna í þessu landi. Og við teljum líka að einnig komi til greina að breyta framkvæmd sem er algjörlega á okkar valdi, íslenskra laga, að því er varðar t.d. innflutning á varningi á vegum varnarliðsins. Og það er sannarlega svo að það er ekkert í þessum samningi, sem við hér ræðum, sem hindrar slíkt.

Hitt er annað mál að það væri út af fyrir sig óeðlilegt að við efndum til þeirrar endurskoðunar í samvinnu við þá aðila sem hafa allt aðra afstöðu, segja ósköp einfaldlega: Við erum andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu; segja ósköp einfaldlega: Við boðum þá pólitík að Íslendingar eigi að vera hlutlaus þjóð utan hernaðarbandalaga - og þar með leggja það fyrir þjóð sína í þessum heimi að við eigum að treysta því að það hlutleysi verði virt. Þeir menn hafa allt aðrar forsendur. Fyrir þeim vakir ekki að sníða af hnökra sem kunna að vera á þessum samningum, endurmeta reynslu sem rök eru fyrir um það hvernig við gætum breytt þessum samningum hugsanlega, heldur að fá þessum samningum hnekkt, sagt upp, og þannig tekin upp kúvending eða algjörlega önnur stefna í utanríkis- og varnarmálum.

Í tilefni af orðum hv. 5. þm. Austurl., sem lét svo að honum kæmi eitthvað á óvart í málflutningi hv. 3. þm. Reykn. þegar hann áréttaði stefnu okkar jafnaðarmanna í utanríkis- og öryggismálum, þá verð ég nú að segja að trúlega hafa það verið látalæti eða ólíkindalæti. Það fer ekkert milli mála hver stefna Alþfl. er og hefur verið frá því að þessi mál komu upp árið 1949 í þeim málum. (Gripið fram í.) Og það skal tekið fram hér, m.a. af gefnu tilefni þessa frammíkalls, að á seinasta flokksþingi Alþfl. var sú stefna áréttuð einróma og mótatkvæðalaust. Einróma og mótatkvæðalaust. Það var áréttað að við treystum okkur ekki til þess að byggja öryggi íslenska ríkisins á einfaldri hlutleysisyfirlýsingu í trausti þess að hún yrði virt. Og það var áréttað að við teldum það vera forsendu fyrir öryggi Íslendinga að við héldum áfram aðild okkar að varnarsamstarfi lýðræðisríkjanna. Og það var enn fremur áréttað að við teldum það vera skyldu þeirra þjóða sem þetta samstarf hafa, þeirra lýðræðisríkja, að efla samstöðu sína í öryggismálum og efna ekki til einhliða aðgerða sem gætu spillt því samstarfi eða veikt aðstöðu einstakra ríkja innan þess. Og ég endurtek: Sú stefna var samþykkt einróma og ágreiningslaust á flokksþingi Alþfl. og áréttar þannig að engra breytinga er að vænta að því er varðar þá grundvallarforsendu í stefnu og málflutningi Alþfl. Þetta breytir ekki því að við teljum rök fyrir því að við eigum að endurskoða margt í samskiptum þessara ríkja, ég hef þegar nefnt dæmi um það, enda ákaflega eðlilegur hlutur að það sé gert þótt það væri á skemmri tíma en liðinn er frá því að þessi samningur var gerður árið 1951.