03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3620 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

372. mál, geðheilbrigðismál

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég verð að segja, þó það sé nokkuð snemmt að fara að kveðja þm. þegar við eigum heilar tvær vikur eftir af þinghaldinu, að ég kem til með að sakna mjög þeirra umræðna og fsp. sem ég hef á mörgum árum fengið frá þessum ágæta hv. þm., 2. þm. Austurl., því svo mikið er víst, hvort sem við erum í sama stjórnmálaflokki eða ekki, að þar er um einlægan áhuga að ræða fyrir málefnum einmitt þessa hóps manna í þjóðfélaginu sem oft hefur orðið fyrir barðinu á fordómum samborgara sinna, því miður, en sem betur fer stendur það mjög til bóta. Ég freistaðist, herra forseti, til að skjóta þessu inn þó það sé kannske ekki beinlínis svar við fsp.

Aukafyrirspurn kom hérna sem stundum áður frá hv. 10. landsk. þm. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að gefa nál. beinlínis út eða prenta, m.a. vegna þess að mikið af nál. er þegar komið í framkvæmd. Sumar forsendur hafa breyst síðan byrjað var að vinna að þessu eins og gefur að skilja því að síðan eru sex ár. Auk þess væri þar um að ræða rit sem er geysilega mikið að vöxtum. Hitt er annað mál að hv. þm. og þeim sem þess óska er auðvitað velkomið að fá nefndarálitið í hendur svo og þær umsagnir sem þegar liggja fyrir. Eins og gefur að skilja verður að vinna úr tillögunum og taka þær út úr sem miðast við daginn í dag og ástand mála eins og það er til þess að við vitum að við séum með raunhæft plagg í höndunum. Þetta er nokkurn veginn svarið við því sem hv. þm. spurði um í hinni síðari fsp. (GHelg: Má ég gera athugasemd?)