03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3663 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

382. mál, eyðing ósonlagsins

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tek innilega undir með hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að það væri til skammar að taka ekki undir svo ágætt mál og ég þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir hans ágætu till. og öllum flm. sem þar eru.

Ég hafði satt að segja ekki hugsað mér að taka til máls vegna þess að ég er ekki vísindamaður á neinu sviði, en þegar búið er að setja gat á himinhvolfið held ég að það séu fleiri en vísindamenn sem geta talað.

Annað sem háði mér líka. Þegar hv. þm. fór að tala um árið 2037 hugsaði ég sem svo: Þetta kemur ekki mál við mig. En þetta er ekki rétt andsvar því að auðvitað er mál allra að svona skuli vera hægt að fara með himinhvolfið og okkar vistarveru sem við höfum ætlast til að yrði griðastaður fyrir afkomendur okkar, ekki einasta næstu kynslóð heldur kynslóðir. Það er svívirðing einber að fara svo með hina ágætu veröld.