04.03.1987
Efri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Meginbreytingarnar í þessu frv. frá gildandi lögum eru þær í fyrsta lagi að umferðarmáladeildin er lögð niður og því er 15. gr. í gildandi lögum felld út, í öðru lagi er skattur á sérleyfishafa og hópferðaleyfishafa afnuminn, í þriðja lagi eru ákvæði um einkarétt sveitarfélaga á rekstri strætisvagna gerð skýrari og víðtækari en nú er og í fjórða lagi er fulltrúum í skipulagsnefnd fækkað úr sjö í fimm.

Í Nd. var gerð sú breyting á frv. að aftur var fjölgað í nefndinni úr fimm í sjö. Sú breyting var ekki gerð í samráði við mig. Ég var henni andvígur. Ég hefði þó heldur sætt mig við að nefndin hefði verið eins skipuð og hún er í gildandi lögum, en það hefur verið gerð ein breyting á, að annar fulltrúi sérleyfishafa er felldur út úr nefndinni og inn kemur fulltrúi frá Ferðamálaráði.

Önnur breyting var afar lítilfjörleg. Það var á 2. gr. Það er sem sagt bundið í lögum að bifreiðar verða að hafa hópferðaleyfi. Það tel ég ekki rétt að gera. Það á að vera hægt að veita slíkt að fengnum meðmælum skipulagsnefndarinnar og tel ég að þær breytingar sem Nd. gerði á frv. séu ekki til bóta nema síður sé. En ég tek fram að önnur breytingin er ákaflega lítils virði og skiptir ekki höfuðmáli að öðru leyti en því að ég tel ekki ástæðu til að binda slíkt í lögum.

Verkefnum umferðarmáladeildar hefur fækkað verulega á síðustu árum. Þannig eru hópferðaleyfi nú gefin út til fimm ára í senn í stað eins árs áður, en það er til sama tíma og sérleyfi gilda. Á þessu ári var Umferðarmiðstöðin seld Félagi sérleyfishafa og Bifreiðastöð Íslands og fækkar þá enn þeim verkefnum sem þessi deild hafði. Annar tveggja starfsmanna deildarinnar hætti störfum um áramótin vegna aldurs. Það var því tilgangur minn með flutningi frv. að spara í rekstri þessarar deildar og láta þau verkefni sem eftir eru inn í ráðuneytið án þess að fjölga þar fólki. Jafnframt er rétt að taka fram að það var gert ráð fyrir að útgáfu leiðabókarinnar yrði hætt, en hún hefur verið gefin út árlega frá því að Póstur og sími hafði skipulag póstflutninga með höndum. Ég tel eðlilegt að ef þeir aðilar sem hafa þessa flutninga með höndum vilja halda áfram útgáfu slíkrar bókar eða líkrar bókar sé það alveg á þeirra verksviði.

Ég sé ekki ástæðu til að fylgja þessu frv. eftir með fleiri orðum, en legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.