04.03.1987
Efri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3723 í B-deild Alþingistíðinda. (3332)

392. mál, almannatryggingar

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Hér er til einnar umræðu frv. til l. um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Frv. þetta var lagt fram á s.l. hausti fyrir hv. Nd. Á því voru gerðar miklar breytingar og að þeim loknum var það afgreitt til Ed.

Ed. fjallaði um frv., en sökum þess að lítill tími var þar til stefnu var það fyrst og fremst um má segja tæknileg atriði og samkomulag var í Ed. um smávægilegar breytingar við frv.

Í fyrsta lagi er það í sambandi við að ef stytta þarf fresti, m.a. um tilkynningu um merkingu á listum, er ákveðið hve langur dráttur má vera af hálfu ráðuneytisins að gera slíkt ef hinn upphaflegi tími ekki næst vegna þess hversu kosningar ber að með skömmum fyrirvara.

Í öðru lagi eru áhersluatriði í sambandi við úthlutun á jöfnunarsætum til skýringar við 35. gr. frv.

Í þriðja lagi er viðbót við ákvæði til bráðabirgða vegna þeirra kosninga sem gert er ráð fyrir að fram fari 25. apríl n.k. Skulu kærur vegna kjörskrár vera komnar fyrir 6. apríl og sveitarstjórnir skulu skera úr aðfinnslum við kjörskrár á fundi eigi síðar en 13. apríl. Þetta er talið nauðsynlegt vegna þess að að öðrum kosti hefði umfjöllun sveitarstjórna lent á bænadögunum og þá ekki verið hægt að koma niðurstöðum til viðkomandi aðila fyrr en svo má seg] a að alveg væri komið að kosningum.

Ég vænti þess að hv. Nd. sjái sér fært að styðja þessar brtt. og afgreiða frv. í þeirri mynd sem það liggur nú fyrir.