05.03.1987
Sameinað þing: 59. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3766 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

244. mál, mannréttindamál

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er á þskj. 261, mál nr. 244. Hún er flutt af öllum þm. Sjálfstfl. nema þeim sem gegna ráðherraembættum. Þó skal þess getið að Eyjólfur Konráð Jónsson var ekki viðstaddur þegar þessi till. var lögð fram, en er samþykkur efni hennar. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fordæma brot á mannréttindaákvæðum Helsinki-sáttmálans og felur ríkisstjórninni að vinna að því að mannréttindamál fái aukið vægi á þriðja framhaldsfundi ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem nú stendur yfir í Vín, og einnig á sérfræðingafundum eða öðrum framhaldsfundum ráðstefnunnar sem ákveðnir verða í Vín.“

Umræður um afvopnunarmál eru tíðar á hv. Alþingi, en því miður er sjaldnast minnst á þau grundvallaratriði að mannréttindi og virðing fyrir þeim eru forsenda þess trausts sem þarf nauðsynlega að vera fyrir hendi ef varanlegur friður á að nást. Með flutningi þessarar till. viljum við flm. leggja áherslu á það nána samband sem er á milli mannréttinda og friðar og benda á að lítil og vopnlaus þjóð verður að leggja sitt af mörkum á alþjóðavettvangi til að ríkisstjórnir virði mannréttindi. Ýmsir hafa talið að breyting sé að verða á mannréttindamálum í Sovétríkjunum eftir að Gorbatsjoff tók við völdum, en er það rétt?

Undanfarnar vikur hafa sovésk stjórnvöld linað tökin og leyst nafnkunna andófsmenn úr haldi. En boðar þetta breytta tíð? Í blaðagrein sem Anatoli Sharanski skrifaði í The Wall Street Journal í lok síðasta árs segir að yfir 40 félagar í Helsinkinefndinni sitji á bak við lás og slá og dómurinn yfir sumum þeirra hefur verið þyngdur og aðbúnaður annarra versnað undir forustu hins upplýsta og framsækna Gorbatsjoffs.

Óþarfi er að rifja upp hvað varð um Charter-77 í Tékkóslóvakíu og ástæða er tii að minna á að austantjaldsþjóðirnar trufla útvarpssendingar. Helsinki-sáttmálinn er kannske prentaður, en honum er ekki dreift. Sovétmenn virða ekki gagnkvæmni í samningum. Þeir geta gefið út sovéskan áróður hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum, en vestrænir fjölmiðlar eiga ekki aðgang að sovéskri alþýðu, enda er almenningsálit ekki til þar sem mannréttindi eru ekki virt.

Ég mun nú gera stutta grein fyrir Helsinkisáttmálanum og alþjóðlegu samstarfi í framhaldi af samþykktinni 1975.

Helsinki-samþykktin var undirrituð í höfuðborg Finnlands hinn 1. ágúst 1975. Í lokakafla samþykktarinnar lýsa þátttökuríkin yfir þeim vilja sínum að halda áfram þeirri hreyfingu sem Helsinki-sáttmálinn er upphafið að. Því hafa með reglulegu millibili verið haldnir sérstakir framhaldsfundir og nú stendur yfir í Vín þriðji framhaldsfundur ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Fyrsti framhaldsfundur ráðstefnunnar var haldinn í Belgrad 1977 og annar framhaldsfundur stóð yfir í Madrid á árunum 1980-1983.

Í Helsinki-samþykktinni hétu þátttökuríkin 35 að hlýða vissum samskiptareglum og vinna að lausn þeirra mannlegu, efnahagslegu, stjórnmálalegu og hernaðarlegu vandamála sem væru orsök þeirrar spennu og óöryggis er einkenndi samskipti hinna tveggja blokka í Evrópu. Í samþykktinni kemur skýrt fram að hvert svið sé jafnmikilvægt fyrir raunverulegt öryggi og samvinnu í Evrópu. Til frekari skýringar vil ég benda á að Helsinki-samþykktin er sett saman úr nokkrum þáttum. Á tæknimáli þeirra sem fjalla einna mest um þessi mál er talað um körfur í þessu sambandi.

Í fyrstu körfu samþykktarinnar eru ákvæði er fela í sér virðingu fyrir mannréttindum og þar er enn fremur að finna níu aðrar meginreglur sem skulu ráða samskiptum ríkja. Þar er einnig fjallað um aðgerðir til að efla traust og ákveðna þætti öryggis og afvopnunar.

Í annarri körfu er fjallað um samvinnu Evrópuríkja á sviði efnahagsmála, vísinda- og tæknimála og umhverfismála.

Í þriðju körfu eru ákvæði um samvinnu að mannúðarmálum og öðrum málum þar sem einkum er mælt fyrir um frjálst flæði hugmynda, upplýsinga, endursameiningu fjölskyldna, aðgang að fjölmiðlum og samvinnu á sviði mennta- og menningarmála.

Fjórða karfan lýtur svo að framhaldsaðgerðum, fundum og ráðstefnum til að fylgja eftir ákvæðum samþykktarinnar.

Í kaflanum um virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi segir m.a. í Helsinki-samþykktinni, með leyfi forseta:

„Þátttökuríkin munu virða mannréttindi og grundvallarfrelsi, þar á meðal hugsana-, samvisku-, trúarbragða- eða sannfæringarfrelsi allra án tillits til kynþáttar, kynferðis, tungu eða trúarbragða.“

Í kaflanum um mannúðarmál er fjallað um ferðafrelsi, sameiningu fjölskyldna, réttindi minnihlutahópa o.s.frv.

Ef kannað er með hvaða hætti þátttökuríkin hafa staðið að framkvæmd þeirra ákvæða er þau rituðu undir í Helsinki árið 1975 verður fyrst fyrir hve illa hefur verið staðið við þau ákvæði er kveða á um mannréttindi og aukna mannúð. Þetta á fyrst og fremst við um Sovétríkin en einnig önnur austantjaldsríki. Það er sorglegt til þess að vita að flestum þeim sérfræðingafundum sem haldnir hafa verið innan ráðstefnunnar um mannréttinda- og mannúðarmál hefur lyktað með litlum eða engum árangri. Þetta á t.d. við um fund varðandi mannréttindi vorið 1985 í Ottawa, menningarmál í Búdapest árið 1985, mannúðarmál í Bern árið 1986.

Á hinn bóginn hefur náðst nokkur árangur á sviði öryggismála en þar ber hæst niðurstöður Stokkhólmsfundar 1986 um tilkynningarskyldu og eftirlit með heræfingum. En hið mikla misræmi í áherslu Sovétmanna á öryggismál en ekki að sama skapi á mannréttinda- og mannúðarmál er ekki í samræmi við ákvæði Helsinki-samþykktarinnar þar sem áhersla var lögð á jafnvægi í þróun hinna mismunandi þátta.

Raunar hafa Sovétmenn gengið fram í því að brjóta kerfisbundið mannréttindaákvæði Helsinkisamþykktarinnar. Ósvífnast var framferði þeirra gegn hinum svonefnda Helsinki-hóp eða Helsinkimonitors sem samanstóð af 40 körlum og konum sem vildu vinna samþykktinni brautargengi innan Sovétríkjanna. Þessi hópur var miskunnarlaust brotinn á bak aftur og forsprakkar hans máttu þola vinnubúðir og fangelsun. Svipaða sögu er að segja um Charter-77 í Tékkóslóvakíu. Svívirðilegasta brotið gegn Helsinki-samþykktinni er þó innrásin og hernaðurinn í Afganistan. Sérfræðingar, sem vinna að rannsóknum á ástandi mannréttindamála á vegum Sameinuðu þjóðanna og starfa undir forsæti virts lagaprófessors við Vínarháskóla, Felix Ermacora, telja að verstu mannréttindabrot sem þekkjast séu framin af innrásarher Sovétmanna í Afganistan. Þeir greina frá limlestingum á gamalmennum og börnum o.s.frv. Í vikublaðinu Newsweek er sagt frá því að valdir kaflar úr skýrslunni hafi verið felldir brott úr henni þegar hún var lögð fyrir Sameinuðu þjóðirnar og hlýtur slíkt að vekja nokkra athygli.

Hægt er að tiltaka langan lista yfir mannréttindabrot sem ekki auka á traust íbúa Vesturlanda á samninga um afvopnun við Sovétmenn. Maður hlýtur að spyrja: Hvernig er unnt að treysta þeim þegar þeir brjóta svo rétt á sínum eigin borgurum? Raunhæfur árangur en ekki sýndarmennska er því afar mikilvæg forsenda slökunar spennu og afvopnunar. Það er afar mikilvægt að vestrænar þjóðir knýi á um efndir við þeim skuldbindingum sem Sovétmenn hafa gert á þessu sviði og láti ekki orðin ein nægja.

Það hefur sýnt sig að Sovétmenn virðast nú veikir fyrir þessari gagnrýni og þess vegna hafa þeir á síðustu vikum reynt að breyta ímynd sinni. Þeir hafa sleppt nokkrum fjölda andófsmanna úr prísund. Þeirra þekktastur er Andrei Sakharov. Um leið hafa þó borist fregnir af ömurlegum örlögum annarra, svo sem Anatolis Martsjenkos rithöfundar sem starfaði í Helsinki-hópnum. Vilji Sovétmenn að þeir séu teknir trúanlegir verða umbæturnar að verða mun víðtækari. T.d. skipta þeir Gyðingar tugum ef ekki hundruðum þúsunda sem vilja fá að flytjast búferlum. Ekki er vitað nákvæmlega um fjölda þeirra sem dveljast í vinnubúðum, fangelsum eða geðveikrahælum af pólitískum ástæðum og það þarf að fást upplýst.

Ástæða er til að nefna hér, því að það hefur ekki komið fram áður opinberlega, að formenn allra þingflokkanna sendu bréf til Gorbatsjoffs aðalritara um það að leyfa nokkrum krabbameinssjúklingum að flytja úr landi, en það bréf var dags. 20. des. á s.l. ári. Ég og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, sem höfum verið í sambandi við aðila í Svíþjóð, beittum okkur fyrir því að þetta bréf var samið og sent, og allir formenn þingflokkanna skrifuðu undir þetta bréf. (GJG: Hvað gerðu þm. og frú Kristín Halldórsdóttir?) Það er best að tala skýrar fyrir hv. 7. þm. Reykv., það er kannske fullhratt yfir sögu farið fyrir suma. En við, ég og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, beittum okkur fyrir því að þetta bréf var samið og sent en formenn þingflokkanna, þar á meðal formaður þingflokks Alþb., Ragnar Arnalds, skrifaði undir þetta bréf. Vona ég nú að þetta hafi skýrst í hugum þeirra sem á hlýða. (GJG: Já, það hefur skýrst.)

Einn af erfiðustu þáttunum í samningum við Sovétmenn um takmörkun vígbúnaðar og afvopnun er tregða þeirra til að samþykkja eins traust eftirlit með framkvæmdinni og vestrænar þjóðir kjósa. Þetta á einnig við á öðrum sviðum, einkum á sviði mannréttinda. Til þess að skapa traust verða Sovétmenn því að opna landamæri sín, þeir verða að heimila frjáls ferðalög og standa við önnur ákvæði Helsinki-samþykktarinnar, svo sem um skipti á upplýsingum og fjölmiðlum. Á meðan þeir aðhafast litið á þeim sviðum er varhugavert að taka orð þeirra um aukinn vilja á þessu sviði bókstaflega.

Þá vil ég að lokum minna á að mannréttindi eru forsenda þess trausts milli þjóða sem nauðsynlegt er til að ná varanlegri friði en þeim sem styðst við vopnavald. Á þetta ber smáþjóðum að leggja áherslu og vinna að í alþjóðlegum samskiptum.

Eitt af því sem er og hefur verið óþolandi er sú tilhneiging Sovétmanna að nota mannréttindin eins og gjaldeyri í viðskiptum gegn afslætti vestrænna þjóða í varnarmálum. Þetta orðar Sharanski svo í fyrrnefndri blaðagrein sinni, með leyfi forseta:

„Helsinki-fundurinn í Vín og leiðtogafundurinn í Reykjavík, annar um mannréttindamál og hinn um afvopnun, eru greinar á sama meiði og óaðskiljanlegir. Eftir fundinn í Reykjavík kváðust talsmenn Gorbatsjoffs gera sér fulla grein fyrir því en sneru síðan öllu á hvolf. Sovétmenn, sögðu þeir, eru tilbúnir til að gefa eftir hvað varðar sovéska Gyðinga, en áhersla Reagans Bandaríkjaforseta á geimvarnaáætlunina er hér þrándur í götu. Þessi augljósa atlaga að varnarstefnu forsetans er dæmd til að mistakast. Hún er byggð á þeim misskilningi Sovétmanna að leyfilegt sé að taka mannréttindin í gíslingu til að ná fram meiri eftirgjöf í öryggismálunum. Með tilvísan til þessara undarlegu skoðana hafa sumir vestrænir fréttaskýrendur bent á að kannske væri rétt að leggja minni áherslu á mannréttindin og lækka þannig verðið sem Sovétríkin setja upp fyrir að fylgja Helsinki-sáttmálanum.

Frjálsum þjóðum ber skylda til að skýra út sambandið milli öryggismála og mannréttinda. Áherslan sem vestrænar þjóðir leggja á raunverulegt frelsi í Sovétríkjunum er engin uppgerðarkrafa sem sovéskir samningamenn geta svarað með gagnkröfu. Helsinki-sáttmálinn skyldar Sovétstjórnina til að virða borgaraleg réttindi og í honum eru framtíðarsamskipti austurs og vesturs bundin því að við samninginn sé staðið. Skyldukröfur okkar um mannréttindi og brottflutningsleyfi valda því að Sovétmenn gera sífellt meiri gagnkröfur. Ættum við að hætta þeim? Svarið er afdráttarlaust nei. Við erum ekki á neinum uppboðsmarkaði. Við megum ekki nota Gyðinga sem gjaldmiðil fyrir eða gegn geimvarnaáætluninni. Við getum ekki fallist á þann skilning Sovétmanna að rétt sé að versla með líf manna. Við verðum að herða baráttuna fyrir frelsi allra samviskufanga. Við verðum að berjast fyrir því að sovéskir Gyðingar fái að flytjast úr landi. Raunverulegur árangur í afvopnunarviðræðum er kominn undir árangri í þessum efnum.

Ef þetta fólk fengi frelsi mundi það sýna að Sovétmenn hefðu í raun stigið skref í átt til gagnkvæms trausts og skilnings. Við sem ekki viljum slá af kröfunum gagnvart Sovétmönnum vitum að það erum við sem erum að leggja grunninn að gagnkvæmu trausti og búa í haginn fyrir raunverulegri afvopnun. Þessi eru tengslin milli Reykjavíkur og Vínar.“

Svo mörg voru þau orð Sharanskis og ég tel að þau eigi erindi hér inn í þingsali. Vonandi er vaxandi skilningur á því að Sovétmenn hafa undirritað mannréttindasáttmála og tekist á hendur skuldbindingar en ekki staðið við sáttmálann. Einnig að virðing mannréttinda er forsenda varanlegs friðar. Vissulega ber að fagna og virða viðleitni nýrra forustumanna í Sovétríkjunum að undanförnu í afvopnunarmálum og þakka að nokkrir þekktir andófsmenn hafa verið leystir úr haldi. En betur má ef duga skal. Það er óhætt að taka undir þau sjónarmið Sakharovs sem hann lýsti nýlega þegar hann sagði að fyrsta skrefið til gagnkvæms trausts stórveldanna væru aukin mannréttindi og lýðræði í Sovétríkjunum.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði vísað til síðari umræðu og utanrmn. Verði till. samþykkt er það hæstv. ríkisstjórn styrkur í viðleitni sinni á alþjóðavettvangi til að efla mannréttindi í einstökum ríkjum sem ekki virða samninga um þessi efni og þau yrðu aðilar að.