05.03.1987
Sameinað þing: 59. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

244. mál, mannréttindamál

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. og hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir undirtektirnar við þessa þáltill. Jafnframt fagna ég því að hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir því á fundinum í Vín að taka þátt í tillögugerð sem er í stíl við það efni sem hér er til umræðu.

Ef þessi till. verður samþykkt getur hæstv. ríkisstjórn sagt að þingið standi að baki þeirri viðleitni sem hún vill sýna og ég veit að hefur stuðning allra hv. þm.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat þess að það gæti komið til greina að breyta till. og hafa hana víðtækari en hún er samkvæmt efni og innihaldi og get ég út af fyrir sig fallist á það og þá með nýrri málsgr. því að tilefni tillöguflutningsins er auðvitað sá fundur sem nú fer fram í Vínarborg og er framhald af ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu, en það eru 35 ríki sem stóðu að sínum tíma að Helsinki-sáttmálanum. Ég get tekið undir það með hv. þm. að við getum á alþjóðavettvangi látið meira að okkur kveða. Við getum til að mynda tekið undir þær kröfur, sem hafa verið vaxandi á síðari tímum, að Sameinuðu þjóðirnar fái meira eftirlitsvald í þessum efnum en hingað til hefur verið. Því miður er það svo að þær þjóðir sem mest brjóta mannréttindi á mönnum eru jafnframt þær sem síst hleypa inn í land sitt opinberum eftirlitsaðilum, þar á meðal eftirlitsaðilum frá Sameinuðu þjóðunum.

Það má vera að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi fundist gæta einhverrar fýlu í ræðu minni áðan. Það virtist koma smákippur í litla Rússahjartað í hv. þm. þegar athyglin beindist að Sovétríkjunum. En það sem áherslan verður að liggja á er þetta: Við megum ekki undir neinum kringumstæðum kaupa Sovétmenn til þess að þeir standi við þær skuldbindingar sem þeir hafa ritað undír og að þeir geti tekið mannréttindin í gíslingu, eins og Sharanski orðaði það svo ágætlega í sinni blaðagrein og ég vitnaði til. Þetta eru aðalatriði málsins. Við báðir, hæstv. ráðh. og ég lýstum því auðvitað yfir að við fögnum því sem gerst hefur í Sovétríkjunum og vonumst til þess einlæglega að áfram verði haldið á þeirri braut sem nú hefur verið mörkuð, en minnum á að það eru aðeins fáeinir aðilar sem hafa sloppið og þeir nafnkunnustu. Hinir sitja enn á bak við lás og slá. Við megum ekki heldur láta þyrla upp moldviðri og blindast af því sem gerst hefur því enn er langt í land. Þetta eru aðalatriði málsins. Ég misskildi hv. þm. ekki neitt. Hann studdi þessi sjónarmið og ég fagna því sem kom fram í hans málflutningi þótt hann væri að ýja að því að það gætti einhverrar fýlu hjá okkur sjálfstæðismönnum vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í Sovétríkjunum.

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Ég þakka eingöngu fyrir þær undirtektir sem þessi till. hefur fengið og hlýtur það að vita á að málið fái hraða afgreiðslu í hv. utanrmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.