10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3860 í B-deild Alþingistíðinda. (3520)

369. mál, erlent áhættufjármagn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að það mál sem hér er til umræðu snerti eitt veigamesta deilumál íslenskra stjórnmála um áratuga skeið. Ég tel í raun og veru að málið sé þannig vaxið að það hefði verið full ástæða til þess að taka á því á mjög víðum pólitískum grundvelli með aðild þeirra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Ég tel að það sé mjög óeðlilegt að ríkisstjórn sem er að kveðja eftir nokkrar vikur sé ein að ráðskast með mál af þessum toga, mikið eðlilegra sé að kalla til þverpólitísks samráðs fleiri flokka. Hér er um að ræða stórt og þýðingarmikið mál. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því og verður ekki gert. Hér á að kanna alla möguleika, en gjalda varhug við opnun sem gæti á einn eða annan hátt stofnað okkar efnahagslega forræði í hættu.

Ég vil því hvetja hæstv. viðskrh. til að íhuga hvort ekki er hugsanlegt að koma á samstarfi og athugun á vegum allra stjórnmálaflokka um mál af þessu tagi vegna þess að það er flókið og viðamikið og ástæðulaust að vera að einoka það við tiltölulega takmarkaðan hluta stjórnmálalífsins eins og sakir standa.