10.03.1987
Efri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3872 í B-deild Alþingistíðinda. (3541)

339. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Frsm. félmn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur haft til meðferðar þetta frv. um afnám laga nr. 49 20. apríl 1963, um Byggingarsjóð aldraðs fólks. Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. hefur fulltrúaráð Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði óskað eftir að breytingar verði gerðar á lögum um Happdrætti DAS, nr. 16. frá 1973, og jafnframt að lög nr. 49 20. apríl 1963, um Byggingarsjóð aldraðs fólks, verði felld úr gildi. Samkvæmt lögum um Happdrætti DAS renna 40% af tekjum happdrættisins í Byggingarsjóð aldraðs fólks en 60% til DAS. Þannig hefur það verið allt frá gildistöku laga um Byggingarsjóð aldraðs fólks frá 1963. Fyrir þann tíma rann allur ágóðinn til DAS. Frv. felur sem sagt í sér að Byggingarsjóður aldraðs fólks verði lagður niður og jafnframt að eignir sjóðsins og útistandandi kröfur skuli skiptast að jöfnu milli Framkvæmdasjóðs aldraðra og Byggingarsjóðs hjúkrunarheimilis Hrafnistu í Hafnarfirði. Eignir Byggingarsjóðs aldraðs fólks, eins og greint er frá í grg. með frv., munu hafa verið í árslok 1985 19,7 millj. kr., þar af helmingur í skuldabréfum.

Þetta var nú efni þessa frv. Í tengslum við frv. og til samræmis við það hefur svo verið flutt frv. sem er til meðferðar í deildinni, frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti DAS. En í því frv. er gert ráð fyrir að ágóði happdrættisins renni til byggingarframkvæmda aldraðra á vegum Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Með samþykkt þess frv. ásamt þessu á þessi ráðstöfun að ganga upp ef ég má svo að orði komast.

Félmn. leggur eindregið til að þetta frv. verði samþykkt.