10.03.1987
Efri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3875 í B-deild Alþingistíðinda. (3547)

196. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til tollalaga. Frv. það sem hér liggur fyrir er liður í þeim áformum að einfalda þann þátt tekjuöflunarkerfis ríkissjóðs sem lýtur að innheimtu og álagningu aðflutningsgjalda og með þeim hætti að gera það skilvirkara en um leið draga úr kostnaði sem bæði innflutningsverslunin og ríkissjóður óhjákvæmilega hljóta að axla við núverandi aðstæður.

Leitað hefur verið til ýmissa hagsmunaaðila sem málið varðar og í ýmsum efnum höfð hliðsjón af ábendingum þeirra um fjölmörg atriði.

Að undanförnu hefur jafnframt verið unnið að endurskoðun þeirra gjalda sem lögð eru á innfluttar vörur og vörur framleiddar innanlands með það fyrir augum að fækka gjaldstofnum, eyða uppsöfnunaráhrifum aðflutningsgjalda í innlendri framleiðslu og að öðru leyti með niðurfellingu eða lækkun aðflutningsgjalda í því skyni að efla atvinnustarfsemi og atvinnuuppbyggingu.

Megintilgangur með framlagningu þessa frv. er hins vegar þessi:

1. Að setja heildarlöggjöf um tollheimtu og tolleftirlit þannig að jafnt viðskiptavinir tollyfirvalda sem þau sjálf séu vitandi um réttindi og skyldur varðandi innflutning og útflutning á vörum.

2. Að gera tollmeðferð á vörum sem einfaldasta og taka upp vinnubrögð sem nútímalegir viðskiptahættir krefjast.

3. Að gera yfirstjórn tollamála markvissari, m.a. með því að fela ríkistollstjóra að hafa eftirlit með og samræma störf tollstjóra í einstökum tollumdæmum.

4. Að breyta tollumdæmum þannig að sem mestrar hagkvæmni gæti í rekstri tollembætta og dregið verði sem mest úr kostnaði innflytjenda og farmflytjenda af tolleftirliti.

5. Að kveða skýrt á um yfirstjórn tollgæslunnar, samræma störf tollgæslumanna og að öðru leyti efla tollgæslu.

6. Að taka upp greiðslufrest á aðflutningsgjöldum í þeim tilgangi að stytta birgðahald og geymslutíma hjá innflytjendum og um leið geymslukostnað sem leiða ætti til lækkunar vöruverðs.

7. Að setja skýrari reglur um úrlausn ágreiningsmála til að stuðla að sem mestu réttaröryggi við úrlausn tollamála.

Meginreglur þær sem gilda um álagningu og innheimtu aðflutningsgjalda er nú að finna í þrennum lögum. Í fyrsta lagi gilda um álagningu aðflutningsgjalda lög nr. 120 frá 1976, um tollskrá o.fl. Í lögum nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, eru meginákvæðin um yfirstjórn tollamála, tollstjórnina, tollsvæði, tollhafnir o.fl. Þriðju lögin sem fjalla um tollmeðferð á vörum eru lög nr. 43 frá 1960, um tollvörugeymslur o.fl. Í þessum lögum er að finna ákvæði er varðar rekstur almennra tollvörugeymslna, tollfrjálsar forðageymslur, tollfrjálsar verslanir og svokallaðar flutningsgeymslur.

Í þessum þrennum lögum er gripið á öllum helstu þáttum er snerta tollmeðferð og tollheimtu í tengslum við innflutning og útflutning á vörum. Eðlilegast er að efnisákvæðum er snerta ákveðið réttarsvið sé skipað saman í einn lagabálk. Með því fæst betri yfirsýn yfir gildandi rétt á viðkomandi sviði, réttarskipanin verður gleggri og ætla má að síður verði hætta á að ósamræmis gæti í einstökum atriðum. Við heildarendurskoðun á tollskrárlögum var þegar ákveðið að semja frv. er tæki til allra meginþátta tollkerfisins og er tollafrv. árangur þess starfs.

Meginefni tollskrárlaga frá 1976 er tollnafnaskrá með tolltöxtum sem er, eins og menn kannast við, byggð á svonefndri Brussel-tollnafnaskrá frá árinu 1963.

Í frv. því til tollalaga sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir því að fyrirkomulagi tollnafnaskrárinnar verði breytt þannig að hún verði ekki lengur hluti af efnisákvæðum laganna, heldur verði tollnafnaskráin viðauki við lögin ásamt tolltöxtum sem hafa lagagildi. Er gert ráð fyrir að sérstakt ákvæði verði tekið upp er auðveldi ýmsar tæknilegar breytingar á tollskránni og hægt verði að leiðrétta hana þannig að texti skrárinnar endurspegli m.a. sem nákvæmast tollun vara og dragi þannig úr hættu á mismunun tollmeðferðar á vörum eftir innflytjendum eins og nú er raunin vegna fjölmargra undanþága sem er að finna í auglýsingum og einstökum ráðuneytisbréfum.

Þannig er gert ráð fyrir að taka megi upp ný tollskrárnúmer í tollskrána í þeim tilvikum þegar tollar eru samræmdir á vörum sem gerðar eru úr mismunandi efnum eða fella niður t.d. þegar framleiðsla er hafin innanlands á vörum sem samningar Íslands við Fríverslunarbandalagið og Evrópubandalagið taka til. Jafnframt verður hægt að taka upp ný tollskrárnúmer til þess að auðvelda framleiðendum innlendra vara að átta sig á samkeppnisstöðu sinni gagnvart innlendum aðilum eða viðkomandi hagsmunasamtökum, eða ríkinu að fylgjast með innflutningsverslun landsmanna. Heimildin felur jafnframt í sér möguleika til þess að leggja af tollskrárnúmer sem kunna að vera orðin dauður bókstafur vegna breyttra framleiðsluhátta. Loks er lagt til að sérstök heimild verði tekin upp til þess að aðlaga tollskrána þeim breytingum sem kunna að verða samþykktar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins varðandi flokkun vara í tollskrá.

Í júní 1983 var lagður fram samningur af hálfu Tollasamvinnuráðsins um nýja vöruflokkun í tollskrá, sem nefndur hefur verið Samræmda skráin. Gert er ráð fyrir að þau lönd sem gerast aðilar að skránni taki hana upp 1. jan. 1988. Samningur þessi hefur þegar verið undirritaður af Íslands hálfu og mun hljóta staðfestingu síðar. Unnið hefur verið að því í fjmrn. að undanförnu að undirbúa upptöku þessarar skrár. Þar sem mjög æskilegt er að tengja upptöku skrárinnar þeirri tölvuvinnslu sem fyrirhuguð er á næstunni og forðast þannig tvöfaldan forritunarkostnað er stefnt að því að Samræmda skráin verði tekin upp á sama tíma. Yrði farið að fordæmi annarra landa í því sambandi.

Meginefni þeirra breytinga, sem ríkisstjórnin telur tímabært að gerðar verði á tollkerfinu og felast í frv., eru til þess m.a. að færa afgreiðsluhætti í það horf að þeir falli sem best að breyttum viðskiptaháttum og flutningum á vörum til og frá landinu. Breyttir viðskiptahættir, aukin verslun og skjalaflóð því samfara krefjast meiri hraða og nútímalegri vinnslu þeirra gagna sem tollafgreiðsla hlýtur ávallt að byggjast á.

Með frv. þessu hefur vonandi tekist að draga upp þann ramma sem varðar leiðina að þessum markmiðum án þess að hagsmunir ríkisins af innheimtu gjalda og löggæslu hafi verið skertir. Hversu vel tekst til er hins vegar ávallt komið undir nánari útfærslu einstakra atriða og ekki síður þeim aðilum sem eftir lögunum eiga að starfa á hverjum tíma.

Fjölmörg önnur efnisatriði mætti hér nefna sem felast í frv., en ég vil leyfa mér, frú forseti, að öðru leyti að vísa til almennra athugasemda sem fylgja með frv. Mál þetta hefur fengið mjög vandlega umfjöllun í hv. fjh.- og viðskn. Nd. og voru í meðförum deildarinnar gerðar á því nokkrar minni háttar lagfæringar.

Frú forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.