10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3880 í B-deild Alþingistíðinda. (3562)

364. mál, alþjóðasamþykkt um þjálfun og vaktstöður sjómanna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að minna á að það mál sem hér er flutt er ein af þeim tillögum sem öryggismálanefnd sjómanna gerði og lagði fyrir hæstv. ráðh. snemma á þessu þingi og ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessi alþjóðasamþykkt verði staðfest. Það hefur satt að segja þegar komið okkur í koll að við erum ekki aðilar að þessari samþykkt og getur gert það enn frekar á komandi árum. Það er því brýnt að þessi alþjóðlega samþykkt fái lagagildi þegar á þessu þingi. Ég lýsi fyrir mitt leyti eindregnum stuðningi við það að þetta mál verði að lögum hér á þinginu.