29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hv. flm. ágæta greinargerð fyrir þessu frv. verð ég að lýsa yfir að það er vissulega umhugsunarefni hvernig lýðræði verði tryggt með sem bestum hætti, bæði í landsmálum og kannske ekki síður í sveitarstjórnarmálum. Í raun og veru fjallar þetta frv. og sú umræða sem hér hefur farið fram um hvernig unnt sé að koma á virkara lýðræði en nú er.

Það er alveg rétt að í mörgum sveitarfélögum eru ýmsar meiri háttar ákvarðanir, sérstaklega í hinum minni sveitarfélögum, ekki teknar nema eftir hreppsfundi eða héraðafundi þar sem reynt er bæði að kynna málin rækilega og eins að ná sameiginlegri afstöðu.

Ég held að þegar grannt er skoðað stefni allt núna, í stjórnsýslu og stjórnun svæða og landa, í þá átt að auka áhrif alls almennings á ákvarðanatöku. Liður í því er hin mikla upplýsingastarfsemi, sem fram fer og er af hinu góða, um þau mál sem fyrir liggja. Ég held t.d. að hér í Reykjavík væri mikil ástæða til að efla hverfasamtök, efla samtök þess fólks sem annaðhvort nýtur góðs af eða verður fyrir einhverjum vandræðum vegna ákvarðana sem teknar eru í borgarstjórn eða hjá skipulagsyfirvöldum. Ég vil því eindregið hvetja félmn. til að íhuga vandlega þetta mál út frá því sjónarmiði hvort beri að setja ákvæði í sveitarstjórnarlögin um rýmkun á þeim greinum eða þeirri grein sem fjallar um almennar atkvæðagreiðslur um einstök mál. Mér er alveg ljóst að þetta er langt frá því að vera einfalt mál, en ég held að öll rök hnígi að því að það verði að gæta mjög vel að þessu og eftir megni að auka áhrif einstaklinga og hópa á þær ákvarðanir sem snerta þá beint.

Það er að sjálfsögðu ekki á neinn hátt með þessu frv. eða með því sem ég er hér að segja verið að draga í efa réttmæti og nauðsyn þess fulltrúalýðræðis sem sveitarstjórnir eru, heldur miklu fremur hvort ekki megi finna heppilegar leiðir til þess bæði að gera þegnana virkari í lýðræðinu og eins að þeir fái enn þá betri og nákvæmari upplýsingar um það sem verið er að fjalla um en nú er.