11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (3677)

396. mál, utanríkismál

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í það hvort menn eru hér brokkgengir eða þeir fara á Eiríksstaðatölti. Ég svaraði þeirri spurningu sem ég var spurður að hér í kvöld. Ég hefði kannske átt að bæta því við varðandi athugasemdir um utanríkisstefnu að ég sat ekki í ríkisstjórninni um þriggja mánaða skeið þannig að ég veit ekki hvað hefur gerst á þeim fundum annað en það að ég hef ekki lesið það í fundargerðum á því tímabili.

En ég kom hér í ræðustólinn til þess að svara fsp. hv. 10. landsk. þm. um leið og ég vil lýsa furðu minni á málflutningi þingmannsins hér áðan, furðu minni á útlistun þingmannsins á þeirri skýrslu sem hér er til umræðu og þeirri vinnu sem þar liggur á bak við.

Skýrslan er stutt og yfirborðsleg. - Þá spyr ég: Hvað um allar hinar skýrslurnar sem lagðar hafa verið fram á Alþingi og eru allar styttri? Allar. Þetta er sú lengsta og í þessari skýrslu er m.a.s. vísað til ákveðins kafla í skýrslu frá s.l. ári til þess að vera ekki með of langt mál, vera ekki með endurtekningu og ég trúi því varla að þm. hafi ekki þá skýrslu við hendina þegar verið er að gera samanburð og skoða það sem skýrslan hefur fram að færa.

Ég er hér með skýrslu frá því fyrir fimm árum síðan. Skýrslu sem er upp á 25 bls. Skyldi hún hafa verið stutt og yfirborðsleg? (GHelg: Já.) Við getum gagnrýnt sjónarmið og stefnur, en ég segi það alveg eins og er að ég var mjög hissa á því sem hv. þm. sagði varðandi það sem hér hefur verið unnið og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Í sambandi við það undir hvaða ráðuneyti flugstöðin kemur til með að heyra. Þm. á ekki að þurfa að spyrja að þessu. Það gilda lög í þessu landi, lög sem segja að varnarsvæðið allt heyrir undir utanrrn., flugstöðin eins og allt annað sem á varnarsvæðinu er. Radarstöðin austur á Gunnólfsvíkurfjalli heyrir undir utanrrn. af því að hún er á varnarsvæði. Þetta stendur í lögunum frá 1954. (GHelg: Er samkomulag í ríkisstjórninni um þetta?) Það gilda lög í þessu landi sem segja að varnarsvæðið og þær byggingar sem þar eru heyra undir utanrrn. Og á meðan Alþingi breytir ekki lögunum skiptir engu máli hvort um það er samkomulag í ríkisstjórninni. Það eru lögin sem segja til um þetta. Hvaða skoðanir einstaka menn hafa á því hvort flugstöðin á að heyra undir einn eða annan, það er svo aftur allt annað mál. Flugstöðin er með tollgæslu, löggæslu. Nú auðvitað er flugstjórn þar. En lögin frá 1954 segja þetta og það á ekki að þurfa að spyrja að þessu.

Að varnarhagsmunirnir séu ekki lengur hér hjá okkur og þetta sé ef til vill af gömlum vana að hafa varnarlið hér og vera í Atlantshafsbandalaginu. Ég veit að hv. þm. man eftir því hvenær við gengum í Sameinuðu þjóðirnar. Er það ekki rétt? (GHelg: Ætli ég fari ekki nærri um það.) Já. Veit þm. hvenær Afganistan gekk í Sameinuðu þjóðirnar? Man þm. hvað gerðist í Afganistan 1979? Og skyldu þeir halda í dag að það hefði ekki þurft að gera einhverja aðra hluti til þess að tryggja frelsi þeirrar þjóðar? Við skulum gera okkur grein fyrir því að eins og við gerðumst aðilar að varnarbandalaginu 1949 til þess að tryggja okkar eigið öryggi, þá erum við í varnarbandalaginu í dag til þess að tryggja okkar eigið öryggi.

Varðandi efnahagsleg tengsl við varnarliðið, þá er í þessum tveimur skýrslum, í ár og í fyrra, gerð grein fyrir því - ef þm. hafa þá tíma til þess að lesa - þá er gerð grein fyrir því hvaða fjármuni er um að ræða í því sambandi.

Það hefur verið gagnrýnt hér á þingi að alþm. hafi ekki fengið að vita og fái ekki að vita um þær framkvæmdir sem á varnarsvæðinu er unnið að. Það var í tíð forvera míns sem var byrjað á því að láta utanrmn. fá upplýsingar um þessa hluti. Því hefur verið haldið áfram síðan. Þegar flokkur þm., sem hér var að gagnrýna, átti sæti í ríkisstjórn, þá var þetta ekki gert. Þá var ekkert verið að spyrja um þetta. Það var ekkert verið að biðja um þessar upplýsingar þá. Þetta hefur allt verið gert síðan. Það hvarflar ekki að mér að að einni slíkri skýrslu megi ekki eitthvað finna. En eftir því sem búið er að vinna þessa skýrslu fyrir þingið, þá segi ég: Það er óréttlátt að gagnrýna eins og þm. gerði hér áðan.

Þá vék þm. að því að í ársskýrslu fastanefndarinnar væru ræðurnar á ensku sem fluttar hefðu verið þar vestra. Ég get vel verið sammála því að ræðumar hefðu auðvitað átt að vera á íslensku, enda eru þær til þýddar og sjálfsagt að senda þm. þær þó ég viti hins vegar að þm. skilur það mál sem ræðurnar eru fluttar á og þarf þær ekki þess vegna. En ég get vel fallist á það að það ætti að vera því að hér er um íslenska útgáfu að ræða og þá þess vegna.

Þingmaðurinn spurði um afstöðu til efnavopna og rakti viðtöl við embættismenn í utanrrn. og skipti þar og síðan afstöðu. Sú afstaða sem tekin var í sambandi við þær breytingar sem þá var verið að gera var í samræmi við fyrri afstöðu Íslands sem er einföld: Að Ísland hefur ekki afskipti af staðsetningu ólíkra vopnakerfa bandalagsríkjanna þar sem þau eru að ákvarða um staðsetningu vopna sér til varnar. Þetta gilti nákvæmlega eins í þessu tilfelli og í öðrum tilfellum áður.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umræður.