11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4053 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

396. mál, utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Örstutt athugasemd. Fyrst þá með lengdina á skýrslu hæstv. utanrrh. Mér finnst þessi skýrsla vera alveg nógu löng. Magn og gæði fara hins vegar ekki alltaf saman og mín gagnrýni á þessa skýrslu byggist ekki á því að mér hafi ekki þótt hún nógu löng. Auðvitað á hin nýja flugstöð ekki að heyra undir utanrrn. Þetta er rangt fyrirkomulag að ætla henni að gera það og það er gjörbreytt viðhorf þegar hún er komin út fyrir vallargirðinguna eða vallargirðingin liggur um eða í húsið.

Tollgæsla í flugstöðinni á auðvitað að heyra undir fjmrn. og það mundi hæstv. utanrrh. samþykkja með mér ef hann væri enn þá fjmrh. Það er ljóður á því frv. sem við samþykktum hér í deildinni um tollalög í fyrradag að þar er ekki tekið af skarið um þetta atriði.

Hæstv. utanrrh. svaraði hv. 3. þm. Reykv. klóklega þegar hann sagðist ekki hafa orðið var við það á ríkisstjórnarfundum að framsóknarráðherrarnir væru að finna að utanríkisstefnu sinni, en hugsanlega hefur hann orðið var við það utan funda þó það sé ekki bókað í gerðabók í ríkisstjórninni. (Gripið fram í: Hann sat ekki í ríkisstjórninni í þrjá mánuði utanríkisráðherrann.)

Hv. 3. þm. Reykv. telur að um einhverja stefnubreytingu sé að ræða hjá mér. Ég vil benda honum á að lesa ræður mínar um utanríkismál sem ég hef flutt á þessu kjörtímabili. Hann verður betri og víðsýnni og skynsamari maður af þeim lestri. Honum hefur batnað töluvert frá því áðan því það er af honum berserksgangurinn og það er gott. Því hann er leiðinlegur í geðvonskuköstum sínum og þó er hann þá sjálfum sér verstur. Nú tel ég að hann ætti að fara heim og sofna svolítið og vakna eins og eðlilegur maður í fyrramálið en ekki eins og umskiptingur. Ég þarf nefnilega að hitta hann á nefndarfundi strax árla morguns.

Ég vil ekki vera liðsmaður Svavars Gestssonar og það hvarflar ekki að mér að ganga í Alþb. Sjálfsagt færi fyrir mér eins og Möðruvellingunum og þeim öðrum liðsmönnum Alþýðubandalagsins að Svavar mundi fljótlega fara að lumbra á mér. Það er hins vegar rétt hjá Svavari Gestssyni að framsóknarmenn hafa margir farið í Alþb. Raunar eru allir málsmetandi forustumenn Alþb. fyrrverandi framsóknarmenn. Ég er ekki einasta hestamaður, ég er líka búfjárræktarmaður og ég kann á þessu skýringu. Alþýðubandalagsmenn eru nefnilega bara alls ekki til kynbóta og sannar það að þeir verða að sækja sína forustumenn í aðra flokka. (Gripið fram í.) Ég ætla hins vegar ekki að fara að kynbæta Alþb. Það fer ágætlega um mig í Framsókn og þar ætla ég að vera áfram.