13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4104 í B-deild Alþingistíðinda. (3697)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Frsm. menntmn. (Haraldur Ólafsson):

Hæstv. forseti. Þetta mál á sér alllangan aðdraganda. Það eru nú nær tíu ár liðin síðan þáverandi menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson skipaði nefnd til að endurskoða gildandi ákvæði um Rannsóknaráð ríkisins og samkvæmt skipunarbréfi var þeirri nefnd ætlað einnig að endurskoða lög um Vísindasjóð og hvort tiltækilegt mundi að fela stjórnum deilda Vísindasjóðs verkefni eða hlutverk Rannsóknaráðs hvors á sínu sviði.

Það voru reyndar tvær nefndir sem skipaðar voru og skilaði önnur nefndin áliti þegar 1981 en hin síðari 1982 og voru þær tillögur síðan grundvöllur að því frv. sem hér liggur fyrir. Það hefur þegar í framsöguræðu hæstv. menntmrh. verið gerð grein fyrir starfi þessara nefnda þannig að ég fer ekki lengra út í það. Hins vegar vil ég undirstrika að það frv. sem hér liggur fyrir er vissulega málamiðlun og ber þess ýmis merki.

Menntmn. þessarar hv. deildar fjallaði allítarlega um þetta frv. og sendi það nokkrum aðilum til umsagnar, öllum deildum Háskólans, stjórn Vísindasjóðs, iðnrn. samkvæmt sérstakri ósk, Vinnuveitendasambandi Íslands og reyndar fleiri aðilum. Svör bárust frá öllum deildum Háskólans nema lagadeild. Einnig barst mjög jákvæð umsögn frá stjórn Vísindasjóðs og einnig frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Hins vegar hefur þrátt fyrir framlengingu á afgreiðslufresti ekki enn borist svar frá iðnrn.

Það þótti ekki ástæða til að kalla mjög marga til skrafs og ráðagerða á fundi nefndarinnar. Þó komu þangað þeir Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, Sigmundur Guðbjarnason, rektor Háskóla Íslands, og Valdimar K. Jónsson prófessor, forseti verkfræðideildar Háskólans. Gáfu þeir allglöggar upplýsingar um tilurð frv. og þær umræður og vangaveltur sem menn einkum höfðu uppi um það þegar mál þetta var í undirbúningi. Mæltu þeir allir eindregið með því að frv. næði fram að ganga á þessu þingi, en forseti verkfræðideildar gerði þó nokkrar athugasemdir við frv., einkum þó þær að tæknivísindum, þ.e. rannsóknum í tækni og verkfræði, væri hugsanlega ekki gert nógu hátt undir höfði.

Það þarf varla að taka fram að í þeim álitsgjörðum sem bárust frá deildum Háskólans var víðast hvar látið í ljós að styrkja þyrfti einmitt þær rannsóknir sem fram fara á sviði viðkomandi deildar og eru það að sjálfsögðu ekki nema eðlileg viðbrögð. Allir vilja sinn hlut sem mestan og ekki nema gott eitt um það að segja að menn bendi á kosti og galla slíkra mála.

Hins vegar virtist nefndinni að þrátt fyrir ýmsar ábendingar og athugasemdir væri viðurhlutamikið að tefja framgang þessa máls með því að hefja viðræður við allmarga aðila um hugsanlegar breytingar. Það hefði frestað málinu a.m.k. um eitt ár og vafasamt, eftir þá miklu vinnu sem þegar er búið að leggja í þetta frv., að það hefði borið jákvæðari árangur en það frv. sem hér liggur fyrir.

Það má segja að allir þeir aðilar sem til var leitað hafi skilað jákvæðri umsögn þó svo að athugasemdir væru gerðar við einstök atriði.

Í áliti heimspekideildar Háskóla Íslands kom fram talsvert af þeirri gagnrýni - eða eigum við að segja komu fram allmargar af þeim athugasemdum sem þegar höfðu komið fram við 1. umr. í þessari hv. deild, m.a. hafði ég látið í ljósi vissar efasemdir um það efni, þ.e. skiptinguna í hagnýt viðfangsefni og þau sem hugsanlega væru ekki hagnýt. Það er enginn vafi á að það er ekki með öllu til góðs að hafa slíka stranga skiptingu. Það er mjög erfitt að flokka rannsóknir þannig niður að óyggjandi sé að þær hafi einhvern hagnýtan árangur í för með sér og eins er það svo með margar rannsóknir að mjög erfitt er að segja til um hvað mun skila einhverju jákvæðu og hvað ekki.

Mín skoðun er sú að rannsóknastarfsemi hljóti eftir því sem mögulegt er að vera frjáls að því leyti að einstaklingar, deildir og rannsóknastofnanir verði að meta hvað æskilegast er að kanna hverju sinni án þess að unnt sé að benda á beinlínis hagnýtan árangur svo óyggjandi sé af slíkum rannsóknum.

Þá kom einnig fram í athugasemdum heimspekideildar að varhugavert væri að setja hér á stofn tvær stofnanir í stað einnar sem duga mundi. Leggur deildin til að Vísindaráð og Rannsóknaráð verði ein stofnun, en deildaskipting innan þess verði í meginatriðum sú sem Háskóli Íslands hefur á deildum sínum.

Ég held að það sé tómt mál að fara út í miklar umræður eða koma með brtt. um þetta efni þó svo að ýmsir hafi bent á þetta, einfaldlega vegna þess að það frv. sem hér liggur fyrir hefur þegar verið ítarlega rætt af þeim stofnunum sem það snertir og ég held að tíminn verði að leiða í ljós hvort sú skipan sem hér er lögð til sé ekki vel fær. Hins vegar, komi í ljós að það skapi vandkvæði, er hægurinn hjá að breyta því, en ég á ekki von á öðru en að sú skipan sem hér er lagt til að verði hafi líka ýmsa kosti, m.a. þá að það eru fleiri aðilar, sem hér eiga hlut að máli, sem koma til með að fjalla um þær rannsóknir og þau vísindastörf sem þessum stofnunum er ætlað að styrkja þannig að í stað mjög fjölmennrar stofnunar með þungri stjórnun ætti að koma virkari stjórnun á þessi mál.

Í athugasemdum verkfræðideildar segir fyrst að hún fagni þessu frv. og leggur eindregið til að það verði samþykkt, telur samt sem áður að það verði að styrkja stöðu verkfræðideildar og efla tæknirannsóknir. Það er hið sama og kom fram í máli prófessors Valdimars K. Jónssonar á fundi nefndarinnar. Einnig er bent á það, sem fleiri hafa gert, að í 18. gr. í tölul. 1 segir einungis að tekjur Rannsóknasjóðs skuli vera fjárveiting á fjárlögum ár hvert. Sumir hafa talað um að það þyrfti að hafa ákveðna prósenttölu, t.d. af fjárlögum eða einhverju slíku, en það er mjög erfitt að koma slíku við og ekki víst að við sætum uppi með betri Rannsóknasjóð ef á ári hverju væri samþykkt hin kunnu ákvæði um að þrátt fyrir ákvæði laganna o.s.frv. skal einungis þetta veitt til hinna ákveðnu verkefna.

Raunvísindadeild gerir einnig nokkrar athugasemdir, telur frv. þó til mikilla bóta. Athugasemdirnar eru einkum varðandi stjórnun og fyrirkomulag hinna einstöku deilda, en þó er í athugasemdum raunvísindadeildar mjög ákveðin tillaga sem ég held að sé ekki hægt að taka til greina varðandi þetta frv. Það er um að einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands falli niður.

Einkaleyfisgjaldið hefur verið notað til þess að byggja yfir rannsóknastofnanir atvinnuveganna og helgast af því að Happdrætti Háskólans var lengi vel eina peningahappdrættið í landinu, en nú eru önnur komin til og er þá vissulega til íhugunar hvort ekki eigi að fella þetta gjald niður. En það er í raun önnur saga.

Í mjög jákvæðri umsögn guðfræðideildar er eindregið óskað eftir því að deildin fái beina aðild að deildum Vísindaráðs til jafns við aðrar deildir. Jafnframt lýsir hún áhyggjum sínum vegna þess að hugsanlega sé þrengt að hugvísindum með þessu frv.

Háskólaráð hefur einnig gert samþykkt þar sem eindregið er hvatt til þess að sú breyting verði gerð á frv. að guðfræðideild fái aðild að deildum Vísindaráðs eins og aðrar deildir Háskólans og hefur það verið tekið upp í brtt. frá nefndinni.

Frá stjórn Vísindasjóðs barst mjög jákvæð umsögn og engar meiri háttar athugasemdir gerðar þar. Frá Vinnuveitendasambandi Íslands barst einnig umsögn. Þar segir að stýring fjármuna og öll stjórn stofnana þurfi að vera mun markvissari en frv. miðar að og hvetur það til þess að meiri tími gefist til að gaumgæfa frv. Því miður hefur mér ekki tekist að ná í framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins til að fá nánari skýringar á því hvað við er átt í umsögn hans, en athugasemdirnar eru það almennt orðaðar að nefndinni þótti ekki tækt að að taka þær til sérstakrar athugunar.

Lagadeild treystist ekki til að gefa umsögn og vísar til bréfs forseta lagadeildar frá 11. febr. 1983 til allra forseta Alþingis þess efnis að þeir beiti sér fyrir því að umsagnarbeiðnir þingnefnda um lagafrv. verði bornar fram við einstaka kennara lagadeildar sem kynnu að taka að sér verk með samkomulagi hverju sinni. Síðan segir: „Lagadeild sem stofnun getur því miður ekki orðið við slíkum beiðnum.“ Og síðan heldur áfram: „Á hinn bóginn er um þetta mál og önnur hliðstæð erindi vakin athygli á nýstofnuðum gerðardómi og þjónustumiðstöð Lagastofnunar Háskóla Íslands. Vafalítið mætti semja við þjónustumiðstöðina um verkefni af þessu tagi.“ Um þetta er ekki fleira að segja.

Frá tannlæknadeild barst einnig umsögn þar sem eindregið er hvatt til þess að frv. verði samþykkt, en jafnframt eru þar athugasemdir um fyrirkomulagsatriði sem eru varðandi valdsvið deildarstjórna og er ekki neitt sérstakt um það að segja. Það er til að styrkja frumkvæði í vísindastefnu í deildunum, taka skýrar fram um það. Hins vegar leggur tannlæknadeild til að málsgr. í 10. gr., þ.e. síðasti hlutinn, falli út, þar sem segir: „Hluta af árlegum peningatekjum Vísindasjóðs skal samkvæmt ákvörðun stjórnar Vísindasjóðs leggja í sérstakan sjóð er nefnist stofndeild Vísindasjóðs. Höfuðstól stofndeildar má ekki skerða, en heimilt er að verja vöxtum af fé til almennrar starfsemi sjóðsins.“ Tannlæknadeild segir um þetta atriði að æskilegra sé að verja tekjum Vísindasjóðs strax til rannsókna fremur en að nýta þær til sjóðsmyndunar. Við höfum ekki séð okkur heldur fært að taka þetta inn frekar en margar aðrar athugasemdir.

Ég held að það sé alveg augljóst mál, bæði af umsögnum háskóladeilda og Vísindasjóðs og eins viðtölum við þá sem hafa átt mikinn þátt í að móta þetta mál og eins af viðræðum við einstaka aðila innan Háskóla Íslands og í rannsóknastofnunum, að það sé einróma álit að þetta frv. sé til mikilla bóta þótt það sé með það eins og önnur manna verk að margt hefði þurft að athuga og menn séu ekki sammála um öll atriði og því beri að samþykkja þetta. Það sé svo stórt skref fram á við að ekki sé hættandi á að tefja málið meira en orðið er. Eftir að það hefur verið að velkjast, getum við sagt, um tíu ára skeið held ég að það sé mikilvægt að fá þetta frá. En til þess að unnt sé að taka málið upp í ljósi fenginnar reynslu hefur nefndin leyft sér að bera fram þá till. um ákvæði til bráðabirgða að frv. skuli endurskoða innan fimm ára.

Ég held að allar umræður og öll tortryggni eða hvað eigum við að segja, sá ótti við togstreitu milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna muni ekki skaða þetta frv. Það hlýtur alltaf að vera togstreita um fjármagn til rannsókna og yfirleitt til allrar æðri menntunar og vissulega til allra hluta. Gert er ráð fyrir að allmargir aðilar fái aðild að þessum sjóðum. Hinar þrjár deildir verði allsjálfstæðar og geti nýtt það fjármagn sem þær hafa til umráða á sem bestan hátt fyrir þau fræðasvið sem þeim er ætlað að annast. Einnig er rík áhersla lögð á samstarf og þátttöku í alþjóðasamstarfi í rannsóknum og vísindum og einnig gert ráð fyrir að allt það sem þarna er unnið sé ekki bara opinberað þeim sem hlut eiga að máli, heldur séu þetta opnar stofnanir, þar sem þjóðin öll fær að fylgjast með því sem fram fer. Það geti verið til þess að auka áhuga manna og efla áhuga manna á rannsóknum á vísindastarfsemi og opna augu manna fyrir því að hagnýtar rannsóknir og grunnrannsóknir svokallaðar séu í raun og veru óaðskiljanlegur hluti alls vísindastarfs.

Ég vil því eindregið mælast til þess að þetta frv. nái fram að ganga hér í hv. deild og að rannsóknastarf í landinu eflist við þetta frv. Vísindin efla alla dáð, orti Jónas og bætti við: orkuna styrkja, viljann hvessa. Við gætum kannske haft það að yfirskrift allrar slíkrar starfsemi.

Við höfum í nefndinni orðið sammála um að flytja brtt. Ég hef þegar nefnt eina, en við höfum leyft okkur að flytja brtt. við 5. gr. c-lið, en efni þeirrar brtt. er að guðfræðideild fái aðild að stjórn hug- og félagsvísindadeildar, en hins vegar verði aðeins einn aðili tilnefndur af fundi stofnana og félaga sem fást við rannsóknir á sviði hug- og félagsvísinda, þ.e. að fækka um einn þar og fær guðfræðideild þá samkvæmt okkar tillögu annan þeirra.

Þá er smávægileg breyting gerð við 6. gr. Þriðja setningin hljóðar svo: „Framkvæmdastjóri ræður annað starfslið að fengnum tillögum ráðsins.“ Við leggjum til að orðin „að fengnum tillögum ráðsins“ verði felld niður, enda er það í samræmi við það sem segir í 15. gr. um Rannsóknaráð, þar sem segir: „Framkvæmdastjóri ræður annað starfslið.“

Þá gerum við brtt. við 18. gr. um að síðasti málsl. 2. mgr. falli brott. Þar segir að ráðið ákveði styrkveitingar og síðan falli út orðin „Þær skulu háðar samþykki menntmrh.“ Þetta er til þess að auka sjálfstæði rannsóknarsjóðsins.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Nefndin er sammála um afgreiðslu þessa máls með þeim brtt. sem ég hef hér lýst og kynntar hafa verið hv. deild.