13.03.1987
Efri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4133 í B-deild Alþingistíðinda. (3757)

392. mál, almannatryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að nú skuli stigið það skref að fæðingarorlof verði allt að sex mánuðir, jafnvel þótt þessi gjörð sé ávísun á næsta kjörtímabil. Við skulum ætla að það sé nokkurs virði, enda þótt það verði ekki framkvæmt af núverandi ríkisstjórn. Í máli þessu starfaði nefnd, sem lagði vissulega mikla vinnu í undirbúning málsins og velti fyrir sér nokkrum valkostum hvað varðar greiðslur til kvenna. Valið var það að fara sömu leið og Atvinnuleysistryggingasjóður fer í greiðslum atvinnuleysisbóta. Við nánari athugun kom í ljós að sú viðmiðun var hvergi nærri nógu góð og í yfirliti sem við fengum frá Tryggingastofnun kom í ljós að ef sú regla yrði notuð mundi greiðsla til námsmanna lækka um 6972 kr. á mánuði, lækkun til þeirra sem vinna 516 klst. á ári yrði 1245 kr. á mánuði og lækkun til hálfsdagskvenna, eins og við köllum það, sem hefðu vinnuframlag 1032 stundir, hefði orðið 653 kr. mánuði. Hækkun var til staðar að öðru leyti.

Ekki var það meiningin að standa þannig að málum. Hugsunin var sú, að allir nytu nokkurs góðs af. En ef þessi regla hefði verið samþykkt, þá hefðu t.d. konur, sem vinna í frystihúsi hálfan daginn, lækkað, og það er obbinn af vinnukrafti frystihúsanna í dag. Þegar þetta var ljóst var brugðist skjótt við og valin önnur leið, sem gerð hefur verið grein fyrir, þ.e. gamla leiðin, sem sumir hafa kallað hólfaleiðina, og tilgreind er á brtt. frá nefndinni. Sú leið er líka gölluð eins og reyndar kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. En vissulega hefði þurft meiri tíma til að átta sig á því hvaða leið hefði verið best í þessu, hvernig þeirri hugsun væri best þjónað sem upp er lagt með af ráðherra og af nefndinni sem frv. samdi.

Það er alveg ljóst að við Íslendingar förum aðrar leiðir í þessum málum en aðrar þjóðir. Annars staðar er undantekningalítið miðað við vinnuframlag. Hér er það ekki nema að nokkru leyti og fæðingarstyrkur er sennilega hvergi í heiminum eins hár og hérna. Ég er ekki að lasta það, en þetta er nú svona. Það má velta því fyrir sér hvort þessar leiðir séu æskilegar. 82% giftra kvenna afla tekna, eru á vinnumarkaðinum. Það eru aðeins 18% kvenna sem ekki vinna fyrir tekjum utan heimilisins. Það má svo sem segja að þjóðfélagið hér sé lítið, afar smátt og við viljum hafa alla hluti sem jafnasta. Við vitum ekki hversu stór hluti af þessum 18% eru eldri konur sem komnar eru úr barneign, en við vitum að nokkur hluti af þeim konum eru þær sem ekki komast út á vinnumarkaðinn vegna ómegðar, eiga fötluð börn eða búa við óviðráðanlegar orsakir eða ástæður sem hamla því að þær geti komist út á vinnumarkaðinn. Því hljóta menn að spyrja: Er ekki rétt að þær njóti nokkurs líka? En ég vek athygli á því að þetta er ekki tíðkað annars staðar.

Ég tel það líka stóran galla á frv. að ekkert er gert til að leiðrétta það misræmi sem í dag er á milli réttinda ASÍ-fólks og opinberra starfsmanna, heldur þvert á móti er það misræmi fest í sessi. Annaðhvort bæri að hækka fæðingardagpeninga verulega þannig að heildarréttindi ASÍ-fólks yrðu hliðstæð réttindum opinberra starfsmanna eða taka ákvörðun um að bæta launatap þannig að fjárhæðir frv. yrðu lágmark.

Ég bendi líka á að á fjárhæðir frv. er ekki reiknað orlof og ekki heldur lífeyrisgjald. Því gefa tölurnar kannske ekki alveg rétta mynd af innihaldinu. Það má líka færa rök að því að í 7. gr. frv. um fæðingarorlof er ráðningartíma á óeðlilegan hátt blandað inn varðandi bótaskyldu atvinnurekanda, þannig að það er ýmislegt sem þarf að athuga í þessum efnum. Það kemur reyndar fram í nál. að skoða þurfi frekar nokkra þætti í frv., eða verðandi lögum, á þeim tíma sem líður fram að næsta þingi og vænti ég þess að svo verði gert.

Hvað varðar lífeyrissjóðinn, þá eru nýsamþykkt lög til sem gera ráð fyrir því að fólk þurfi að hafa greitt í lífeyrissjóð s.l. tvö ár til að fá húsnæðislán. Sú móðir, sem tekur sex mánaða fæðingarorlof, greiðir ekki í lífeyrissjóð þann tíma þannig að það er hugsanlegt að sú móðir, sem jafnframt væri að koma þaki yfir höfuð sér, mundi gjalda þess að hún væri að eiga barn. Ég tel þetta óljóst, það mætti gera það skýrara, en ég vænti þess að svo verði ekki á þessu tekið eða a.m.k. verði komið í veg fyrir að slíkt verði til þess að þessi kona missi réttindi til lána hjá Húsnæðisstofnun. Það er líka eðlilegt að þrátt fyrir að upphæðir séu nokkuð ríflegar miðað við það sem áður var að lífeyrisgreiðslur falli ekki út.

Þetta hefur áður verið deilumál í þinginu og ráðherra svarað því til að upphæðirnar séu svo og svo háar, en það dugir ekki til að mæta þessum vanda eða a.m.k. þarf það að koma þannig út að það verði ekki til að koma fólki í koll síðar.

Hér liggur fyrir brtt. frá Kolbrúnu Jónsdóttur. Hún hefur óskað eftir því að þessi till. komi ekki til afgreiðslu fyrr en við 3. umr. og þá mun hún tala fyrir till., en hún átti óhægt með að koma nú í kvöld til þess.

Ég ætla að fara að ljúka máli mínu því ég hef gert ráð fyrir að menn yrðu stuttorðir hér, en ég endurtek það að við Alþýðuflokksmenn fögnum þessum áfanga og teljum vissulega réttarbót hér á ferðinni, mannréttindabætur, ef svo mætti kalla það. En ég árétta að það er margt eftir óskoðað í þessu og mér svíður það að konan í frystihúsinu, verkakonan, hefur hlutfallslega jafnlök kjör og áður í hlutfalli við það sem gerist hjá opinberum aðilum. Það þarf að taka á þessu síðar.

En áfangar eru vissulega af því góða og ég þakka heilbrmrh. það frumkvæði sem hún hefur sýnt með því að færa þetta hér inn í þing þó vissulega sé ástæða til að taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði að öðrum eða næstu ríkisstjórn er ætlað að framfylgja og efna það sem við hér samþykkjum.