16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4218 í B-deild Alþingistíðinda. (3854)

392. mál, almannatryggingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í þetta sinn. Það kom ágætlega fram í máli hv. 8. landsk. þm. hversu ruglingslegt og flókið þetta mál er orðið í þeirri framsetningu sem er að finna í þeim frv. sem hér liggja nú fyrir, og ljóst að innbyrðis koma lagagreinar frv. ekki allar til með að standast.

En ég kem hér fyrst og fremst vegna orða hæstv. heilbrmrh. sem gerði að umtalsefni tvö atriði í ræðu minni. Annars vegar var það vegna orðalags í greiðslufrv. þar sem kveðið er á um fæðingarstyrk til kvenna í fæðingarorlofi. Hvað varðar orðaskilning okkar þá er á ferðinni nokkur skilningsmunur á milli okkar um hvað séu fæðingarorlofsgreiðslur. Af máli hæstv. ráðh. mátti ráða að hún jafnaði fæðingarorlofsgreiðslum við bætur hvers konar, svo sem örorkubætur og aðrar bætur sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir út. Mér finnst fæðingarorlofsgreiðslur hins vegar ekki vera bætur heldur greiðslur sem eru sambærilegar við launagreiðslur vegna þess að það er svo sannarlega full vinna og mikil vinna að annast um nýfætt barn. Þar liggur sá skilningsmunur sem er á milli mín og hæstv. ráðh. um orðalag.

Hitt atriðið sem hæstv. ráðh. gerði að umræðuefni varðar heimavinnandi konur. Vissulega er það rétt sem hún benti á að hér er um nokkra hækkun á greiðslum til þeirra að ræða, og hvarflar ekki að mér að draga úr því, en staðreyndin er samt sem áður sú að heimavinnandi konur bera helmingi minna úr býtum í fæðingarorlofi en konur sem eru í fullu starfi úti á vinnumarkaðnum. Greiðslur til kvenna sem eru heimavinnandi verða aðeins 15 000 kr. á mánuði samkvæmt frv. á meðan útivinnandi konur í fullu starfi njóta 33 000 kr. á mánuði eða þar um bil. Þetta er staðreynd málsins sem ekki verður hjá vikist.

Ég vil þakka hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni fyrir að koma hér og svara þeirri fsp. sem ég beindi til þm. Framsfl. varðandi þetta atriði sérstaklega. Það kom fram í máli hans að að þeirra viti er þetta ekki fullnaðarsigur heldur aðeins áfangi og þar erum við hv. þm. reyndar samsinna því að mínu viti geta þau frv. sem hér liggja nú fyrir ekki talist vera meira en áfangasigur í þessum mikilvægu málum, því miður.