16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4351 í B-deild Alþingistíðinda. (4111)

209. mál, sjómannadagur

Frsm, sjútvn. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um lögfestingu á sjómannadegi sem sjútvn. þessarar hv. deildar lagði mikla vinnu í, en frv. naut ekki náðar í virðulegri Nd. Því var breytt þannig að fyrir okkur er ekki annað að gera hér, ef við viljum ekki fallast á það að taka þátt í þessari breytingu þá tel ég mikla hættu á því að þetta mál stöðvist.

Við héldum fund áðan í sjútvn. og urðum sammála um það að við mundum fallast á þessa breytingu, sem er nú ekki stór, það er aðeins eitt orð má segja, þar sem um er að ræða hvenær skal halda sjómannadaginn ef hvítasunnudagur er fyrsti sunnudagur í júní. Í frv. sem við lögðum til var gert ráð fyrir að það yrði þá fært aftur um einn dag, yrði þá síðasti sunnudagur í maí, en þeir í Nd. vilja að þetta yrði fært fram og yrði þá næsti sunnudagur á eftir, ef þetta ber upp á hvítasunnudag. Þannig að þetta er ekki stórmál. Og þó að nefndin í þessari hv. deild sé hlynnt því að hafa þetta heldur, þegar svona ber upp á, síðasta sunnudag í maí, þá mun hún fella sig við þessa breytingu frá Nd. til þess að þetta fái örugglega lögfestingu. Við sendum frv. ekki til baka og með því móti getum við gengið frá því að lögfestur verði frídagur sjómanna eða sjómannadagur sem ekki hefur verið hér á landi fyrr. Þess vegna leggur nefndin til að þessu verði ekki breytt frá því sem það kemur úr Nd.