18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4476 í B-deild Alþingistíðinda. (4309)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Frsm. atvmn. (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti atvmn. um till. til þál. um eflingu atvinnu og byggðar í sveitum vegna breyttra búhátta. Nál. hljóðar svo, með leyfi forseta: „Nefndin hefur fjallað um till. og fengið umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands, landbrn. og Framleiðsluráði landbúnaðarins. Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins mæla með samþykkt tillögunnar. Í umsögn landbrn. er tekið undir efni till., en jafnframt vakin athygli á því að á síðustu mánuðum hafi verið unnið að því að hrinda ýmsu því í framkvæmd sem fjallað er um í till. Sú umsögn er birt sem fskj. með nál. þessu.

Atvmn. mælir með því að skipulegt átak verði gert til atvinnuuppbyggingar í sveitum vegna breyttra búhátta svo að byggðin í landinu treystist. Í trausti þess að ríkisstjórnin haldi áfram að vinna að framkvæmd þeirra áhersluatriða sem í till. felast leggur nefndin til að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Svo mörg voru þau orð. Því er ekki að neita að margir í atvmn. vildu ganga lengra og samþykkja þessa till. Umsögn landbn. ber það með sér að ýmislegt í till. er þegar í vinnslu, hvort sem það er í framhaldi af tillöguflutningnum eða af öðrum orsökum. Ég er sannfærður um að þessi till. hefur þegar haft sín áhrif úti í atvinnugreininni og allri umræðunni um landbúnaðarmál sem verið hefur mikil að undanförnu. Það er ekki síst hin vandaða greinargerð sem fylgir sem ýmsir hafa bent á og verið títt vitnað til í greinum og skrifum.

Það má m.a. benda á það í greinargerðinni þar sem talað er um þróun mjólkurframleiðslunnar að nýjustu fréttir herma einmitt að þarna sé að komast á jafnvægi. Hv. þm. gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því hversu mikils virði það er bændum í landinu að vera ekki að framleiða vöru sem illa selst. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir þessum tilfinningum bænda, að þetta ánægjulega en erilsama og oft erfiða starf getur verið þreytandi einkum og sér í lagi þegar umræðan er neikvæð eins og oft hefur viljað vera.

Við erum á réttri leið og í raun hefði þessi till. átt að vera óþörf. Nú hefur verið lagt fram í þinginu frv. til l. sem gerir ráð fyrir framkvæmd hluta þess sem í till. felst og því ber að fagna.