18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (4310)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Frsm. atvmn. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um menntastofnun á sviði matvælaiðnaðar, hótel-, veitinga- og almennrar ferðamannaþjónustu, en 1. flm. till. var hv. 5. þm. Vesturl. Nefndin hefur fengið umsagnir frá Sambandi veitinga- og gistihúsa, frá Ferðamálaráði Íslands og Félagi ísl. kjötiðnaðarmanna. Í umsögn Sambands veitinga- og gistihúsa kemur fram sú skoðun að Hótel- og veitingaskóli Íslands hafi nægu hlutverki að gegna. Því sé ekki rétt að bæta við öðrum starfsstéttum. Í umsögn Ferðamálaráðs Íslands kemur fram að undanfarna mánuði hafi starfað nefnd á vegum menntmrn. að því að gera tillögur um framtíðarskipun þessara mála innan skólakerfisins. Sú nefnd mun nú vera að vinna að tillögum ráðherra um þessi mál. Atvmn. telur nauðsynlegt að auka menntun þeirra starfsstétta sem þessi þáltill. fjallar um. Eins og fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum í umsagnir hér að framan er hins vegar ljóst að það þarf vandlega athugun hvernig heppilegast sé að koma þessari menntun fyrir og fleiri en ein leið koma til greina í þeim efnum.

Í trausti þess að ríkisstjórnin hraði þeirri athugun er lagt til að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Undir þetta nál. rita Garðar Sigurðsson, Þórarinn Sigurjónsson, Kristín S. Kvaran, Björn Dagbjartsson, Davíð Aðalsteinsson og Birgir Ísl. Gunnarsson.