18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4482 í B-deild Alþingistíðinda. (4318)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kem í pontuna nánast eingöngu til að þakka nefndinni fyrir afgreiðslu þessarar till. og er eindreginn stuðningsmaður breytingarinnar. Hún er mjög smellin. Í upprunalegu till. var talað um að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður, en það fannst einhverjum helst til ókurteislegt orðalag kannske og því er breytt í „að fela öðrum verkefni hennar“. Ég lít á þetta sem alveg jafngilt og er hæstánægður með það. Að strákslega hafi verið tekið til orða í grg. má vel vera. Það er verið að gagnrýna að talað hafi verið um stofnun „hans“, þ.e. forstjórans. Ég held að ég hafi lesið einhvers staðar í viðtali við formann Alþfl. á dögunum að hann hafi talað um flokkinn sinn og þótt það ekkert ljótt. Ég held að við höfum meint það sama að stofnun er oft við forustumann kennd og ekkert við því að segja og ekkert út á það að setja. En ég endurtek þakkir til nefndarinnar og er hæstánægður með brtt. og vil að hún verði samþykkt og mun með glöðu geði greiða henni atkvæði.