05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

22. mál, framhaldsskólar

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem hafa tekið til máls hér í þessari umræðu, einnig hæstv. ráðherra.

Ég vakti á því athygli í upphafi míns máls að s.l. laugardag hefði verið sérstakur umræðu- og fréttaþáttur í útvarpsfréttum, í hádeginu s.l. laugardag, þar sem þm. hefðu fengið heldur kaldar kveðjur. Af því tilefni hóf hv. 5. þm. Vestlendinga að rifja upp hverjir hefðu flutt mál af þessu tagi hér í þinginu og það er rétt að halda því öllu til haga. Það er rétt að fyrrv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, flutti framhaldsskólafrv. fyrstur í kjölfar álits framhaldsskólanefndarinnar á sínum tíma, eins og hæstv. ráðherra tók fram áðan. Það mun hafa verið 1977. Síðan flutti ég sem menntmrh. frv. tvívegis, þ.e. árin 1978 og 1979, og svo aftur í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens flutti fyrrv. menntmrh., Ingvar Gíslason, þann hluta frv. sem vék að skipulagi framhaldsskólanna án þess að þar væru kostnaðarákvæði með vegna þess að hann vissi að ágreiningur var um þann hluta frv. og hann freistaði þess að koma í gegnum þingið öllu öðru sem viðvék framhaldsskólunum en kostnaðarákvæðunum. Þetta þótti þm. ekki fullgilt og fannst að kostnaðarákvæðin skiptu þarna verulegu máli og yrðu að fljóta þar með og því var það frv. heldur ekki samþykkt.

Það er sem sagt ekki að ástæðulausu að yfir því er kvartað í þingsölum að þm. séu fluttar kaldar kveðjur í Ríkisútvarpinu og þeir sakaðir um algert áhugaleysi á þessum málum. Og svo að öllu sé nú til skila haldið og vegna þess að hæstv. ráðherra hefur greinilega áhuga á þessu má kannske bæta því við að skrifstofustjóri hans, Sólrún Jensdóttir, taldi það helst hafa staðið þessum málum fyrir þrifum hvað þm. hefðu lítinn áhuga á þeim. Og þetta var margendurtekið í þessum fréttapistli í hádeginu s.l. laugardag, að áhugaleysi þm. væri einn helsti þröskuldurinn í þessu máli. Þess vegna segi ég að það er ágætt að rifja upp í þessari umræðu hvaða afskipti þm. hafa haft af þessu máli og ég hygg að ef á að leita að áhugaleysi meðal þm. eða í einstökum þingmannahópum verði alveg sérstaklega að leita í Sjálfstfl. vegna þess að það er alveg ljóst að þar hefur verið mestur ágreiningur um þessi mál alla tíð. Þar hefur staðið mikill styr um þessi mál. Og ég er sannfærður um að ef sjálfstæðismenn hefðu tekið á með okkur öðrum þm. um afgreiðslu þessa máls væri það fyrir löngu komið á hreint. Þannig að mér fannst að sjálfsögðu að þessi ábending Sólrúnar Jensdóttur kæmi úr hörðustu átt. (Menntmrh.: Var hún ekki að meina okkur sjálfstæðismenn þá?) Það skyldi nú ekki vera að hún hefði einmitt meint það þó hún tæki hinsegin til orða.

Varðandi efnisatriði frv. sem við flytjum er það alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við leggjum töluverða áherslu á valddreifingu. Eins og ég rakti áðan gerum við í fyrsta lagi ráð fyrir að það sé flutt verulegt vald úr menntmrn. til fræðsluumdæmanna á þann hátt að fræðsluráðin verði yfirstjórnendur framhaldsskólakerfisins í hverju umdæmi. Í öðru lagi gerum við ráð fyrir að skólastjórnir velji skólastjórana, menntmrn. hafi þar ekki bein afskipti. Og við gerum reyndar þar að auki ráð fyrir því að skólastjórarnir ráði síðan kennarana án afskipta menntmrn. Mér þótti ekki nógu gott að hæstv. menntmrh. skyldi taka svo til orða að hann væri lítt hrifinn af því að búa til níu menntmrn. því að ég efast um að möguleiki verði á því að dreifa valdinu út til fræðsluumdæmanna öðruvísi en að fræðsluráðin fái verulega aukið vald. (Menntmrh.: Í fjármálunum?) Líka í fjármálunum, já. Það er okkar stefna. Við gerum ráð fyrir að ríkið greiði kostnaðinn við rekstur framhaldsskólanna að verulegu leyti og greiði síðan 80% af byggingarkostnaði skólanna eftir ákveðnum föstum reglum. Hins vegar hafi fræðsluráðin alla forustu um þessa uppbyggingu og geti ákveðið það fyrir sitt leyti hvort peningunum er ráðstafað í þennan hlut eða hinn, að þau hafi sem sagt mjög ákveðið vald innan vissra takmarka og þau þurfi ekki að leita til menntmrn. um samþykki á hverju einstöku smáatriði, heldur sé valdsvið þeirra töluvert, innan vissra marka, og mótist þá auðvitað af fjárveitingum hverju sinni. Á þessu er auðvitað reginmunur hvort við hér á Alþingi og þeir í menntmrn. erum að taka ákvarðanir um hvert einasta smáatriði sem varðar uppbyggingu framhaldsskólanna eða hvort Alþingi segir: Við látum þessa ákveðnu upphæð í þetta ákveðna fræðsluumdæmi, stefnum að þessari uppbyggingu í grófum atriðum, en látum síðan heimamenn um það að skipta upphæðinni og ráðstafa henni til þeirra hluta sem þar eru taldir mikilvægastir. Á þessu tvennu er auðvitað reginmunur og ég held að valddreifing geti ekki átt sér stað af neinu viti nema við þorum þó að treysta heimamönnum til að taka þarna ákvarðanir innan vissra takmarka.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra taldi að fræðsluráðin hefðu komið sér upp nokkuð viðamiklum skrifstofum á liðnum árum og að þar væri orðinn mikill fjöldi starfsmanna og það úr hófi fram. Það má vafalaust til sanns vegar færa. Þarna hefur átt sér stað nokkur þensla í starfsmannahaldi. En hvað er þarna fyrst og fremst um að ræða? Ég held að meginhlutinn af þeim starfskröftum sem hafa þarna bæst við séu starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu og starfsmenn sem tengjast ýmsum þeim sérverkefnum sem grunnskólalögin gera beinlínis ráð fyrir. Þannig að þarna er ekki um að ræða að maður að nafni Parkinson hafi komið við sögu og verið sé að þenja út skrifstofubákn sem engu hlutverki gegni og sé jafnvel í andstöðu við alla skynsemi. Þarna er bara ósköp einfaldlega verið að framkvæma grunnskólalöggjöfina. Þegar hún var samþykkt fyrir rúmum áratug var gert ráð fyrir stóraukinni þjónustu, einkum ráðgjafarþjónustu og sálfræðiþjónustu. Það var auðvitað ömurlegt hvernig búið var að skólum víða úti á landi í þessum efnum. Það var ekki nokkur leið að fá þjónustu sálfræðings þó að mikil þörf væri á því nema leita með viðkomandi nemanda alla leið suður til Reykjavíkur. Auðvitað gat þetta ástand ekki staðist til lengdar. Það varð að taka á þessu verkefni og það hefur verið gert með því að byggja upp þessa þjónustu víðs vegar um land og það tengist svo aftur því starfi sem núna er unnið í sambandi við afbrigðileg börn og þroskaheft börn o.s.frv. Við vitum að það eru gjörbreyttir tímar í þessum efnum. Við höfum byggt upp kerfi sem er allt annað en það sem fyrir var. Það var nánast ekkert fyrir. Við getum verið stoltir af þessari uppbyggingu og vitum það að hún kemur að miklum notum og við þurfum því ekkert að hafa áhyggjur af því þó þetta hafi kostað einhverja fjármuni. Það er auðvitað ekki hægt að byggja upp þjónustu af þessu tagi án þess að bæta við töluverðu af starfsmönnum.

Að endingu bið ég hæstv. ráðherra fyrir kveðjur til skrifstofustjóra síns og hann má gjarnan segja henni að hún hefur meira en lítið misskilið áhuga okkar þm. í þessum efnum ef hún ímyndar sér að það strandi á áhugaleysi alþm. að komið sé fram nýrri löggjöf um samræmdan framhaldsskóla. Og reyndar gerir ekkert til þó hæstv. ráðherra skili kveðju til Mr. Parkinsons því hann kemur þessu máli ekkert við.