15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherrum fyrir þau svör við þeim spurningum sem ég setti hér fram er þeir hafa nú veitt.

Í tilefni orða hæstv. núverandi menntmrh. um að hann hefði lýst því yfir að til þyrfti að koma opinber aðstoð við Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar langar mig, virðulegi forseti, að hressa aðeins upp á minni hæstv. ráðherra. Það var - og ég tek fram að ég var ekki staddur á þeim fundi en ég hef fyrir því orð margra trúverðugra manna - á fundi sem Sjálfstfl. efndi til á Akranesi 1984 sem hæstv. þáverandi iðnrh. lýsti því yfir, a.m.k. skildu fundarmenn orð hans á þann veg, að hann mundi beita sér fyrir því að létt yrði skuldum af Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er næmu fimm milljónum dollara. Þannig skildu fundarmenn orð ráðherrans og til þessarar yfirlýsingar hans hefur oft verið vitnað í umræðum um vandamál Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Ég stenst ekki mátið þegar hæstv. fjmrh. greinir frá því að algjör samstaða hafi verið um það í ríkisstjórninni að svipta Ríkisútvarpið þeim tekjum af aðflutningsgjöldum sem um er fjallað hér. Það verður að segja eins og er að það er heldur köld kveðja til starfsmanna þessarar stofnunar núna sem unnu kraftaverk þegar leiðtogafundurinn var haldinn hér. Þeir hafa fengið heillaóskir og skeyti frá fjölmörgum erlendum aðilum sem þekkja þarna til verka, og ég hika ekki við að fullyrða það að starfslið sjónvarps og útvarps vann kraftaverk þessa 10 daga. Einn erlendur maður, sem þekkir vel til þessara mála, komst þannig að orði: Já, þið eruð undarleg þjóð Íslendingar. Nú hafið þið gert það á 10 dögum sem við í þessu alþjóðasambandi erum búnir að vera að reyna að kenna annarri tiltekinni Evrópuþjóð í 40 ár og hefur ekki tekist. - Það er köld kveðja sem starfsmennirnir fá þegar greinilega á að vega þannig að stofnuninni að hún verði að draga mjög saman seglin.

Það er fróðlegt að heyra hæstv. fjmrh. tala um það að nú eigi hugsanlega að selja Rás 2 sem þjónar allri landsbyggðinni með léttri dagskrá. Halda menn að einkaaðilar, eins og ég spurði áðan, að einkaaðilar hafi einhvern áhuga á að reka útvarp fyrir landbyggðina með þessum hætti? Ekki nokkurn. En það er hins vegar fróðlegt að sjá að aðstoðarmaður hæstv. fjmrh. er í sínum prófkjörskosningaauglýsingum í Morgunblaðinu með Rás 2 á sölulista yfir ríkisfyrirtæki. Sem sagt, það á að byrja að skipta Ríkisútvarpinu upp og það er þessi „sósíalismi andskotans“, sem Vilmundur Jónsson landlæknir kallaði svo, þegar gróðanum er beint til einstaklinganna en tapið skal ríkið taka á sig.

Þetta er auðvitað merkilegt. Ég spurði einnig hæstv. fjmrh. hvað honum fyndist um það, sem hans flokksmenn hafa svo oftlega gagnrýnt, að þetta ákvæði um teknaupptöku Ríkisútvarpsins í ríkissjóð er afturvirkt til upphafs þessa árs. Ef ég man rétt hefur það alltaf verið grundvallaratriði í málflutningi sjálfstæðismanna að skattaákvæðin - og þetta er ekkert annað en skattur sem er verið að leggja á Ríkisútvarpið - mættu aldrei vera afturvirk. Ég lýsi efasemdum og væri fróðlegt að fá upplýsingar lögfræðings eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. um það hvort svona ákvæði stenst yfirleitt. Ég hef miklar efasemdir um það. Ég spurði hæstv. fjmrh. um þetta en hann kaus að svara ekki. En ég þakka honum annars önnur svör. Það hefði verið fróðlegt að ræða svolítið við hæstv. núverandi iðnrh., en hann er horfinn af þingi í dag og það getur beðið betri tíma.