10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á að segja frá því að þrátt fyrir þá hraðafgreiðslu sem ýmsir hafa talað um á bálknum mikla, sveitarstjórnarlagabálknum sem hér var í fyrra, vil ég ljóstra því upp að mér fannst meira en nóg um það mál rætt í þingflokki Sjálfstfl. Þó svo að það væri kannske lítill tími til að ræða málið í þessari hv. deild voru fá mál meira rædd í þinginu í fyrra og hitteðfyrra reyndar líka en þetta mál, í þingi og utan þess. Þannig fannst mér nægum tíma í það varið. Hitt er alveg rétt að það kom svo sem ekkert sérstaklega merkilegt út úr þessari miklu vinnu. Það var helst aftaka sýslunefndanna sem þar bar hæst.

Ég get í sjálfu sér tekið undir ýmislegt sem lagt er til í þessu frv. Það er ekki ofsögum sagt af því hversu erfitt það er fyrir hin fámennustu sveitarfélög að standa á eigin fótum. Það getur vel verið að það þurfi að beita einhverju agni eða einhverjum hvata til að fá sveitarfélögin, þau fámennustu, til þess að sameinast öðrum eða klofna og sameinast nágrannasveitarfélögum.

Ég geri mér alls enga grein fyrir upphæðum sem hv. flm. er að tala um í 2. gr. frv. Það er sjálfsagt nokkuð sem menn hafa ekki lagt í að reikna út enn þá. Það væri svo sem nógu gaman að vita ef hv. flm. hefði einhverjar hugmyndir um hvaða upphæðir þarna væri um að ræða. En hvað sem því líður er ég vissulega miklu hlynntari því að sveitarfélög stækki og eflist sem slík en að það þurfi að koma með einhvern millilið sem menn hafa kallað hið þriðja stjórnsýslustig, hvað sem það nú er.

Það væri nógu gaman að vita hvaða vitrun framsóknarmenn hafa fengið í sumar um þetta stig eftir að þeir samþykktu og lögðu mikla áherslu á að sveitarstjórnarlögin yrðu samþykkt í fyrra með aðeins tveimur stjórnsýslustigum. Meira að segja var lagt kapp á að sýslunefndir, sem voru einhvers konar millistig, skyldu út og af lagðar. Eitthvað hefur gerst í sumar í Framsfl. sem sýnir fram á að þarna séu komnar nýjar hugmyndir, nýtt stig sem þeir kalla þriðja stjórnsýslustig og reyndar er líka kallað manna á meðal þriðja stjórnsýslustig en ég a.m.k. veit ekkert hvað er. Það eru til lauslegar fylkjahugmyndir sem Samtök um jafnrétti milli landshluta hafa mótað. Það er einna næst því að vera handfastar hugmyndir af þeim sem ég hef heyrt og séð. Ég get vel ímyndað mér að það væri eftirsóknarvert að vera jarl yfir einu slíku fylki eða eitthvað þess háttar, en menn hafa fleygt því á milli sín að einn helsti agnúinn á sameiningu sveitarfélaga væri einfaldlega sá að hreppsnefndarmönnum fækkaði við það og oddvitum þar með líka. (Gripið fram í: Það þarf fyrirmenn í héraði.) Fyrirmönnum í héraði fækkaði um helming við fækkun sveitarfélaga um helming. En þetta er nokkuð sem ég er ekki maður til að leggja dóm á.

Hitt vildi ég nefna rétt í lokin að í Eyjafirði framanverðum er í gangi merkileg tilraun af sjálfsdáðum um eins konar sameiningu eða mjög nána samvinnu þriggja hreppa sem þar eru. Þeir hafa sett á stofn sameiginlega skrifstofu og vinna öll sín mál frá þeirri sameiginlegu skrifstofu og hafa mjög nána samvinnu í skólamálum, íþróttamálum o.s.frv.

Allt eru þetta snúin mál. Það skal viðurkennt. Það á sjálfsagt, eins og einhver hv. þm. gat um áðan, töluvert vatn eftir að renna til sjávar áður en af þessari eflingu sveitarfélaganna verður.