18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

127. mál, lyfjakostnaður

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. spyr: „Eru í undirbúningi ráðstafanir af hálfu heilbr.- og trmrn. til að lækka lyfjakostnað í landinu, m.a. með lækkun álagningar á lyf eða með öðrum aðgerðum?"

Tilefni fsp. hv. þm. er væntanlega fréttir fjölmiðla um lyfjakostnað og aðra þætti er að lyfjanotkun lúta og er hv. þm. ekki einn um að hafa áhyggjur af miklum lyfjakostnaði.

Áður en spurningunni er svarað beint er rétt að eftirfarandi komi fram í þessu sambandi og skal ég reyna að hafa hraðan á.

1. Árið 1984 námu útgjöld sjúkrasamlaga vegna lyfja 544 millj. kr., en 1985 um 798 millj. kr. Þetta þýðir 2260 kr. á hvern einstakling fyrra árið en 32.99 seinna árið. Framreiknað til verðlags 1985 er hér um 8,6% hækkun að ræða.

2. Árið 1984 námu útgjöld sjúkrasamlaga vegna lækna rúmum 193 millj. kr., en 1985 um 337 millj. kr. Þetta þýðir 804 kr. á hvern einstakling fyrra árið en 1396 kr. seinna árið. Framreiknað til verðlags árið 1985 er hér um 29,1% hækkun að ræða.

3. Verð sérlyfja á tímabilinu 1. jan. 1985 til 1. jan. 1986 hækkaði um 28,4%. Meðaltal framfærsluvísitölu á sama tíma hækkaði um 34,4%. Álagning sérlyfja í prósentustigum lækkaði á árinu 1985 um 2 stig, þ.e. úr 72% í 70%, og hefur á þessu ári verið lækkuð í 68%. Jafnframt lækkaði heildsöluálagning úr 18 í 17%, hvort tveggja miðað við 1. apríl s.l.

4. Hinn 1. jan. 1985 eru skráðir 862 aðilar með lækningaleyfi hér á landi, en samkvæmt upplýsingum Læknafélags Íslands eru það um 700 sem greiða árgjöld til félagsins.

Á sama tíma eru skráðir 133 læknakandídatar sem eiga ófengið lækningaleyfi. Í byrjun árs 1985 eru læknar með heimilislækningar sem sérgrein skráðir 43 og fjölgar þeim um 10 á árinu og á þessu ari hafa 6 hlotið viðurkenningu sem heimilislæknar. Þá fengu 77 almennt lækningaleyfi á síðasta ári og það sem af er þessu ári hafa 44 aðilar fengið almennt lækningaleyfi. Samkvæmt þessu hefur sérfræðingum í heimilislækningum fjölgað um 16 eða um 37%. Hafa ber í huga að flestir ef ekki allir stunda almennar heimilislækningar. M.ö.o. má segja að aðgangur hins almenna sjúklings að læknum hefur orðið betri á undanförnum árum.

5. Þar sem hvorki Tryggingastofnun ríkisins né sjúkrasamlög telja lyfjaávísanir á lyfseðlum né lyfseðla, sem þeim eru sendir vegna greiðslna almannatrygginga á lyfjakostnaði, hefur tala lyfjaávísana verið reiknuð út frá rekstrarskýrslum apóteka sem lyfjaverðlagsnefnd fær sendar, en nánar verður vikið að Lyfjaverðlagsnefnd síðar. Út frá þessum rekstrarskýrslum var talið að á tímabilinu 1981-1983 væru lyfjaávísanir um 1,1 millj. á ári, en nú virðist sem gífurleg aukning sé að verða hér á, því að 1984 telst mönnum til að þær séu 1,2 millj. og um 1,3 millj. á síðasta ári. Hér er því um 18% aukningu að ræða á tveim árum. Varla hefur heilsufari okkar hrakað svo að það eitt réttlæti þessa aukningu.

6. Á undanförnum árum hafa komið fram mörg ný og dýr lyf. Hér skal tekið eitt dæmi: Notkun lyfja sem notuð eru við eða til varnar sársjúkdómi í skeifugörn og magasári hefur sjöfaldast á árunum 1978-1986, en sala þeirra á síðasta ári nam um 6,4% af sölu sérlyfja eða um 80 millj. kr. Líklegt má telja að þessi lyf hlífi mörgum sjúklingum við þeirri raun að gangast undir uppskurð vegna þessa sjúkdóms.

Augljóst má öllum vera að erfitt er að meta slíkt til fjár, en þessi aukna notkun er hugsanlega mælanleg á tíðni tilfella viðkomandi sjúkrahúsadeilda. Hér má því tala um tilfærslu útgjalda í heilbrigðisgeiranum.

Ég vildi; herra forseti, nefna þetta til þess að mönnum væri ljóst að breyting á innlögnum í sjúkrahús getur birst í auknum fjölda lyfjaávísana. Eftir því sem færri leggjast inn á sjúkrahús getur þetta aukist. Ég hef því miður ekki vegna ákvæða þingskapa tækifæri til að lesa það svar sem ég hafði látið vinna fyrir mig með upplýsingum. Ég vil einungis bæta því við að ýmsar ráðstafanir eru gerðar til að hvetja lækna til að draga úr fjölda ávísana á sýklalyf sem eru afar dýr, en talið er að Íslendingar noti af einhverjum ástæðum meira af sýklalyfjum en aðrar þjóðir.

Enn fremur er unnið að því að fá samvinnu við lækna í því efni að ávísa fremur á ódýrari lyfin en hin dýrari ef um er að ræða lyf sem hafa sömu verkan og verðum við að skírskota til samviskusemi lækna í þessu sambandi og líka að gera þær ráðstafanir sem við getum gert til að fylgjast með þessu. Eitt af því er tölvuvæðing apóteka sem stendur fyrir dyrum.

Ég hef ekki tækifæri til að svara fsp. frekar, en þakka forseta fyrir umburðarlyndið þessa seinustu mínútu.