20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og þakka einnig þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það fer aftur á móti ekki milli mála að áhyggjur bænda eru ærnar, m.a. vegna þeirrar ákvörðunar sem felst í þeirri reglugerð sem nú hefur verið gefin út og ekki síður vegna hinnar staðreyndarinnar að á seinasta verðlagsári var ekki selt nema 9,2 þús. tonn en framleiðslan sem samið er um er upp á 11 þús. Þarna er um verulega skekkju að ræða og þess vegna spyrja menn: Við hverju getum við búist?

Það hvað reglugerðin var seint gefin út gerir það að verkum að bændur voru sviptir möguleikum á eðlilegri hagstjórn á búum sínum. Þeir sátu upp með það að hafa gert áburðarkaup. Þeir sátu uppi með það að hafa heyjað og hafa gengið frá sínum sláturmálum áður en þeir fengu að vita hvað þeir mættu framleiða á næsta ári.

Miðað við þá stöðu sem þessi mál eru komin í, ef hægt er að koma af stað annarri framleiðslu á búunum, þá held ég að sú stefna að kaupa upp fullvirðisréttinn sé rétt. Ég vil aftur á móti lýsa því yfir að þegar maður horfir á hinar veiku byggðir sem verða fyrir þessu, hér hafa svæði eins og Hólsfjöllin verið nefnd, í okkar kjördæmi má segja að t.d. Gufudalssveitin sé hliðstæða hvað það snertir að hún er eins konar öryggisventill í samgöngumálum Vestfirðinga, þá blasir það við að menn verða að taka afstöðu til þess hvernig á að standa að þessum málum sem heild. Ég fagna hugmyndum um að farið verði út í umræður um þessi mál hér á þinginu með eðlilegum ræðutíma manna. En ég segi það hér í lokin að ég trúi því ekki að mönnum sé það ekki ljóst og að menn vilji standa þannig að því að svæði, sem lifa á sauðfjárrækt og munu ekki lifa á öðru og hér hafa verið nefnd dæmi um í ýmsum kjördæmum og m.a. Strandasýslan er gott dæmi um, ég trúi því ekki að mönnum sé alvara með að það eigi að herða svo að á þeim svæðum að sveitirnar flosni upp.