20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að ræða vítt og breitt um frv. til lánsfjárlaga. Það eru fyrst og fremst tvö atriði sem mig langar til að koma inn á.

Þá er fyrst að taka þá grein frv. sem varðar hitaveitur. Það skal viðurkennt að það hefur farið nokkur hiti úr þessari umræðu samanborið við það sem var á miðvikudaginn í fyrri viku. Ég vil þó að gefnu tilefni spyrja hæstv. ráðh. að því hverjar tímasetningar eru af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna fyrirhugaðra ráðstafana í sambandi við Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Hitaveitu Akureyrar. Að því er ég best veit hafa engar dagsetningar komið fram. Ég hygg þó að þær séu einhvers staðar fyrir hendi. Þegar mikilsverð mál eru á ferðinni og til umræðu setja menn sér oft ákveðin tímamörk. Ég kýs að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort það sé fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að undirbúningi verði lokið bráðlega vegna aðgerða í sambandi við Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Hitaveitu Akureyrar og hvort tillögur komi fram t.d. í tengslum við afgreiðslu lánsfjárlaga eða fyrr.

Þetta er mjög brennandi verkefni. Það brennur á íbúum þeirra svæða sem í hlut eiga. Það er staðreynd. Ég stend hér upp sem stjórnarsinni. Mér er mjög mikið í mun að það fáist lausn á þessum málum undir hatti þessarar ríkisstjórnar, ekki síst vegna þess að ég trúi því að aldrei hafi verið ætlunin önnur en sú að standa við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið. Ég fer ekki nánar út í hverjar yfirlýsingarnar voru. Það hefur verið komið inn á það fyrr í umræðunni.

Síðara atriðið sem mig langar til að drepa á hefur jafnframt verið hér til umræðu og hv. síðasti ræðumaður kom inn á það. Það er varðandi Ríkisútvarpið. Ég hef grun um að samþykkt frv. eða stuðningur sumra a.m.k. við frv. til útvarpslaga á sínum tíma hafi ekki síst verið undir því kominn að staðið yrði við fjárframlög til uppbyggingar Ríkisútvarpsins, þ.e. að ákvæði 22. og 23. gr. laganna yrðu í framkvæmd þegar tímar liðu. Mér segir hugur um að verði sú breyting sem hér er lögð til, verði sú grein að lögum sem er í frv. til lánsfjárlaga, sé forsendan fyrir samþykkt útvarpslagafrv. á sínum tíma í raun brostin.

Ég get alveg sagt að mínu leyti byggði ég ekki síst stuðning við frv. einmitt á því að nú voru heitin strengd og menn sáu fram á að það yrði myndarlega tekið á að því er varðar fjárframlög til uppbyggingar Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið gerir eftir því sem ég veit best áætlanir til nokkurra ára í senn. Mig minnir að það sé til fimm ára í senn. Auðvitað er Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrn. fullkunnugt um þessar áætlanir. Í þessu sambandi má minna á að kostnaðaráætlun vegna uppbyggingar langbylgjustöðvar hljóðar upp á 300 millj. kr. Það var fyrirhugað að fara í það verk árið 1989. Ákvæðið í 22. og 23. gr. útvarpslaganna var kannske eina blóðgjöfin sem Ríkisútvarpið fékk eða ætlað var að það fengi í tengslum við samþykkt nýju útvarpslaganna.

Ég ætla ekki að fjalla um orð hæstv. fjmrh. um sölu á Rás 2. Ég held að hann hafi varpað þessu fram án þess að það hafi verið þrauthugsað. Hann er að vísu óvanur því, hæstv. fjmrh. Hann er þekktari að því að hugsa sitt ráð áður en hann setur fram skoðanir sínar og hugmyndir. En ég tel að ef mönnum dytti í hug í alvöru að selja Rás 2 mundi ýmislegt annað, sem ætlað hefur verið í sambandi við starfsemi Ríkisútvarpsins, falla um sjálft sig. Við skulum minnast þess að fyrirkomulag á starfsemi Rásar 2 var ekki ákveðið á sínum tíma þannig að það yrði algerlega óbreytt um alla framtíð. Því fer víðs fjarri. Þess hefur verið getið hér í umræðunni að Ríkisútvarpinu er lögskylt að hafa þrjár rásir, þ.e. tvær útvarpsrásir og eina sjónvarpsrás. Jú, gott og vel. Það þyrfti að breyta lögum. En hvað með fræðsluútvarpið? Það var a.m.k. á sínum tíma talið nánast óframkvæmanlegt að stofna til myndarlegs fræðsluútvarps með öðrum hætti en þeim að það væru fyrir hendi tvær hljóðvarpsrásir.

Um þetta ætla ég ekki að hafa fleiri orð. En spurning mín um hitaveiturnar er til hæstv. fjmrh. Enda þótt hitaveitumálin heyri í ríkari mæli undir hæstv. iðnrh. er það nú einu sinni svo að slíkar ráðstafanir og ákvarðanir, sem ég hygg að verði óhjákvæmilegar vegna hitaveitnanna, koma við ríkisstjórnina alla. Hæstv. fjmrh. er höfuð fjárhagsmálefna ríkisins og því beini ég þeirri spurningu til hans hvenær ákvarðana er að vænta. Það er mjög mikilvægt að fá það fram.