25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

149. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði vil ég vísa til þess sem ég sagði í mínu svari um störf stofnunarinnar. Ég held svar við getsökum um samband á milli fjárveitinga og undirbúnings hljóti að vera að sambandið geti ekki verið öðruvísi en það að auðvitað miðast allur undirbúningur við það fjármagn sem þessi stofnun fær af fjárlögum.

Hér hefur verið vikið að þeirri ályktun sem Alþingi gerði í þessum efnum. Það verður auðvitað Alþingis, í hvert skipti sem fjárlög eru samþykkt, að ákvarða hvaða fjárveitingar fara til þessara verkefna. Það liggur alveg ljóst fyrir. Hins vegar, eins og kom fram í mínu svari, hefur þessi stofnun reynt að nýta það fjármagn eins vel og mögulegt er, hafa samband við þær stofnanir sem sinna sömu verkefnum í næstu nágrannalöndum og alþjóðastofnanir þannig að það sem héðan kemur geti nýst eins vel og hægt er. Ég held að það sé ekki réttlát gagnrýni að gagnrýna þessa stofnun í sambandi við undirbúningsverkefni né heldur þau verkefni sem hún hefur farið með.

Mér láðist, þegar ég svaraði áðan, að geta þess að á þskj. 96 er fsp. frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem óskað var skriflegs svars varðandi svipað málefni. Ég vildi geta þess að þetta svar verður tilbúið innan örfárra daga og vonandi hægt að leggja það fram í þessari viku, en það er um ýmis atriði varðandi þróunarsamvinnu og hjálparstarf.