25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

149. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. 6. landsk. þm. Það er ekki vansalaust að slík umræða skuli fara fram í slíkum símskeytastíl sem boðið er upp á og það er með öllu óþolandi að ár eftir ár skuli Alþingi samþykkja, jafnvel einróma, ákveðnar aðgerðir sem síðan eru ekki uppfylltar. Ég held að ef við eigum að halda áfram að tala um þróunaraðstoð verðum við virkilega að setja okkur ekki bara markmið heldur einnig áætlun um hvernig þessu markmiði skuli náð. Það er talað um 0,7% af þjóðartekjum. Það er hægt að ná þessu markmiði ef árlega er aukið við í stað þess að lækka framlagið í raun og veru ár frá ári.

Ég held að við þurfum að taka þessi mál til ítarlegri athugunar og ekki gera með þessum hætti einróma samþykktir Alþingis að engu.