25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

132. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. var í rauninni að taka undir með talsmönnum hinnar óheftu samkeppni. Hann var að tala um að það væri ekki hægt að mismuna neytandanum eða kenna honum átið. Út af fyrir sig getur þetta staðist. En ætli verðlagningarstefnan af stjórnvalda hálfu og verðið á vörunni skipti ekki miklu máli um hvert valið er hjá neytandanum? Og hvernig hefur núv. ríkisstjórn staðið að þeim málum í sambandi við niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum þar sem hefðbundna framleiðslan hefur rokið upp í verði á sama tíma og kjör fólksins eru skert?

Auðvitað er gott ef það kemur í ljós að afkoma bænda almennt hafi verið betri en menn gerðu ráð fyrir á síðasta ári, meira hafi komið í launaumslagið. En ég vara mjög við að menn séu að tala um bændur í einni spyrðu. Er það ekki einmitt vandinn, hin misjafna staða bænda, hin ólíka staða meðal bænda? Ég held að það sé einn stóri vandinn og ég held að formaður þingflokks Framsfl. hafi minnt hæstv. ráðh. á það nokkrum sinnum úr þessum ræðustól. Hvað er það svo sem bændur eru að taka á sig varðandi launaliðinn vegna stefnu ríkisstjórnarinnar á komandi verðlagsári? Hvað fólst í verðákvörðunum á síðasta hausti? Jú, það voru 200 þús. kr. tæpar, 197 þús. kr., sem meðalbú var að taka á sig þar í skertu verði.

Ég held að menn þurfi, einnig ráðamenn í þessum efnum, að halda öllu til haga sem þeir hafa staðið að að knýja fram, pinklunum sem þeir hafa verið að leggja á bændastéttina, sem er mjög misjafnlega í stakk búin til að taka við þessum álögum.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað