03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

148. mál, þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Þessi þáltill. um gerð framkvæmdaáætlunar um þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu fjallar um þarft málefni og brýnt. Í till. er fjallað um tvö efnisatriði, annars vegar að ríkisstjórninni skuli falið að láta gera fimm ára framkvæmdaáætlun um stofnbrautir og þjóðvegi í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu í samráði við sveitarfélögin þar og hins vegar að gerðar verði ákveðnar tillögur um fjármögnun framkvæmda og tiltekið að á árinu 1988 verði varið 360 millj. kr. í þetta verkefni.

Að því er varðar fyrra atriðið er þess að geta að undanfarið hefur mikið verið unnið í áætlanagerð um vegakerfi höfuðborgarsvæðisins eins og fram hefur komið. Þessi vinna hefur verið í höndum Vegagerðar ríkisins, sveitarfélaga á svæðinu og samtaka þeirra. Úttektir hafa verið gerðar og settar fram spár um þróun byggðar, íbúafjölda, bílaeignar og umferðar. Nú síðast hefur vinnuhópur sem Vegagerðin kom á fyrir nokkrum árum með þátttöku borgarverkfræðingsins í Reykjavík og bæjarverkfræðingsins í Kópavogi sent frá sér Áfangaskýrslu II. Þar er að finna drög að framkvæmdaáætlun fyrir þjóðvegi og þjóðvegi í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu fyrir næstu fimm ár eða til ársins 1992.

Skýrslan hefur verið send öllum alþm. ásamt sérstöku hefti Vegamála, fréttabréfi Vegagerðar ríkisins, sem helgað er vegum og umferð á höfuðborgarsvæðinu, svo og erindi hæstv. samgrh. Matthíasar A. Mathiesen um þessi mál sem hann hélt á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 14. nóv. sl. Það má því segja að það væru ótrúlega fljótvirk og snögg viðbrögð hæstv. ráðherra ef framlagning hans á öllum þessum gögnum, ræðan 14. nóv. og uppsetning á sýningunni í Kringlunni væri allt tilkomið vegna flutnings þessarar þáltill. Við skulum heldur hafa það sem sannara reynist og segja sem svo að þetta hafi verið skemmtileg tilviljun. En hæstv. samgrh. hefur haft forustu um kynningu á vanda samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu og fyrirhuguðum úrbótum, eins og ég nefndi, og þessa dagana getur almenningur t.d. kynnt sér þessi mál í Kringlunni eins og kunnugt er.

Í þessum umræddu gögnum er að finna upplýsingar um mörg atriði þessa máls, m.a. þá niðurstöðu áðurnefnds vinnuhóps að á næstu fimm árum þurfi að vinna við framkvæmdir á þjóðvegum fyrir um 750 millj. kr. og á þjóðvegum í þéttbýli fyrir um 1180 millj. kr. Þetta mat hópsins er byggt á spá um hóflegan vöxt umferðar miðað við undanfarin ár, þ.e. 10% aukningu umferðar frá 1987 til 1992, og mundi þá umferðarástand 1992 verða nokkru betra en það er nú. Óvissa er jafnan töluverð í umferðarspám og athugaði hópurinn því hver áhrif það hefði ef umferð 1992 yrði 15% meiri en í spá. Útkoman varð sú að ástand í vegakerfinu yrði svipað því sem nú er.

Að því er varðar síðara atriðið í till. til þál., þ.e. fjármögnun framkvæmda, eru í vegáætlun fyrir 1988 lagðar um 70 millj. til þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu og um 80 millj. til þjóðvega í þéttbýli. Svipað fjármagn fer til þessara verkefna 1989 og 1990. Sé þetta haft til hliðsjónar vantar um 80 millj. kr. til þjóðvega á ári og um 160 millj. kr. til þjóðvega í þéttbýli til að ljúka þeim verkefnum sem vinnuhópurinn telur nauðsynlegt. Hér er um mikið fjármagn að ræða, en vegna þess hve verkefnið er brýnt verður að leggja áherslu á að fjármögnun þess verði leyst í tengslum við endurskoðun vegáætlunar veturinn 1988–1989.

Eins og fram hefur komið hefur hæstv. samgrh. lagt til í ríkisstjórninni, án þess að þáltill. hafi verið komin fram, að auka ráðstöfunarfé Vegasjóðs 1988 um 300 millj. kr. með það í huga að fé þessu yrði m.a. varið til vegagerðar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta fjármagn er fengið með því að fullnýta markaða tekjustofna til vegagerðar 1987 og 1988 og kemur til skiptingar á Alþingi eins og annað fjármagn til vegagerðar. Telja verður þetta eðlilega leið til að auka fjármagn til vegagerðar 1988, þar á meðal til að taka fyrsta skrefið í átaki til úrbóta á höfuðborgarsvæðinu.

Af því sem hér er rakið er ljóst að verkefnið hefur verið skilgreint í stórum dráttum og að drög að framkvæmdaáætlun liggja fyrir. Öllum þeim sem fara um höfuðborgarsvæðið er einnig ljóst að mjög brýnt er að bæta umferðarástandið, fækka slysum og minnka tafir. Verkefnið er enn fremur stórt og kostar mikið fé. Fjárútvegun í þessu skyni verður verkefni Alþingis á næstunni. Það hlýtur því að vera styrkur að vita um áhuga flm. á þessu málefni og eiga von á stuðningi þeirra við það. Eins og ég hef rakið hér að framan liggja nú þegar fyrir þær upplýsingar og þau gögn sem lagt er til að unnin verði samkvæmt þessari till. til þál., en góð vísa er aldrei of oft kveðin og út af fyrir sig ágætt að fá till. fram til að ítreka mikilvægi þessa máls sem unnið hefur verið að á vegum hæstv. samgrh.