09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Það var ljóst þegar í stjórnarmyndunarviðræðunum í sumar sem leið að það var gert ráð fyrir þeirri kerfisbreytingu að utanríkisviðskiptaverslunin skyldi færð yfir til utanrrn. Það kom þá þegar fram mikil gagnrýni á það að gera slíka kerfisbreytingu á Stjórnarráðinu utan þings án þess að leggja fram þar um vel undirbyggðar tillögur í formi frv. um allsherjarbreytingar á Stjórnarráðinu. Eftir stendur að taka afstöðu til þess hvort við þm. Borgarafl. erum samþykkir þeirri breytingu að utanríkisverslunin færist nú yfir til utanrrh. Ég leyfi mér að efast um að hann geti bætt því við sig því hann er ekki mikið hér á landinu eins og öllum er kunnugt um, hæstv. utanrrh. En það kann að vera að einhverjir embættismenn í ráðuneytinu geti tekið þetta starf að sér. Við vonum það.

Hins vegar vaknar upp sú spurning hvort skynsamlegt sé að innflutningsverslunin sé í einu ráðuneytinu og utanríkisverslunin í öðru. Þá koma upp í hug minn ýmsar spurningar varðandi fjölda ráðherra hér. Við erum með ellefu ráðherra í núv. ríkisstjórn og ellefu aðstoðarráðherra. Einhvern tíma hefði mönnum þótt það ansi mikið. Þegar viðreisnarstjórnin sat á 7. áratugnum voru ráðherrar í henni sjö talsins og þótti öllum það nóg og hefði jafnvel mátt fækka þeim. Ég spyr nú hvort það hefði ekki verið einfaldara að leggja saman viðskrn. og utanrrn. og hafa þar einn og hinn sama ráðherra. Það hefði verið nær að sjá einhverjar slíkar hugmyndir í stjórnarmyndunarviðræðunum; að sameina ráðuneyti og störf ráðherranna. En það virðist vera sú þróun mála, sem er ríkjandi á þessu landi okkar, að Stjórnarráðið og ráðuneytin blasi út, enda er svo að verða að öllu þjóðfélaginu í smáum og stórum atriðum er stýrt þaðan.

Ég vil síðan taka undir það með hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnu Agnarsdóttur að ég skil ekki til hvers er verið að tefja þingtímann með því að leggja þessi frv. fyrir nú í miðjum jólaönnunum. Við vitum öll hvert stefnir núna næstu daga og þá viku sem er eftir fram að jólum. Við eigum eftir að afgreiða mikil og stór frumvörp og þó er verið að eyða tíma okkar í að ræða hér um að mínu viti frekar ómerkilegt mál, hvor hæstv. ráðherranna á að sinna utanríkisversluninni.

Ég mun svo síðar taka til máls um innihald þessarar kerfisbreytingar undir dagskrárliðnum um útflutningsleyfi.