10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

17. mál, leiðbeinendur og stundakennarar í grunnskólum og framhaldsskólum

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans við þessari viðamiklu fsp. minni sem ég hefði umfangsins vegna trúlega átt að bera fram skriflega. Það hafa verið lesnar upp tölur og hlutföll og ég mun velta þessum svörum nánar fyrir mér. En tímans vegna er ekki hægt að rýna um of í þær á þessari stundu.

Það vekur óneitanlega athygli að allt of margar stöður eru enn þá skipaðar leiðbeinendum. Árið 1985 var fjöldi réttindalausra grunnskólakennara yfir 40% á Vestfjörðum og Austfjörðum, en tæp 3% í Reykjavík. Þetta hefur aðeins lagast, en þó alls ekki nóg.

En eins og ég minntist á áðan er höfuðorsök kennaraskortsins auðvitað sú að stöðugt eru gerðar fjölbreytilegri og flóknari kröfur til starfs kennarans og stöðugt er lögð þyngri ábyrgð á herðar honum án þess að þetta sé á nokkurn hátt metið til launa. Sú staðreynd blasir einnig við að fæstir skólanna eru í stakk búnir til að veita kennurum viðunandi starfsog vinnuaðstöðu. En þó að ástandið í höfuðborginni sé skást vakna spurningar varðandi landsbyggðina. Hún á við ramman reip að draga í þessum efnum og það gengur yfirleitt illa að fá þangað menntaða kennara.

Ef litið er t.d. í ástandið í grunnskólum á Vesturlandi kemur í ljós að þar hefur ástandið aðeins skánað um 1 % frá síðasta ári, en þess ber þó að geta að fjöldi kennara er um það bil sá sami þannig að álag á hverjum og einum er heldur meira. Þessi niðurstaða og sá munur sem er á milli dreifbýlis og þéttbýlis í þessum efnum vekur upp spurningar um raunverulegt jafnrétti til náms.

Það getur ekki lengur viðgengist að leggja þann bagga á misvel stæð sveitarfélög að yfirborga menntaða kennara sem koma vilja, oft tímabundið, og veita þeim alls kyns fríðindi sem heimamönnum standa ekki til boða og það er að sjálfsögðu ekki hægt að bjóða nemendum upp á þann óstöðugleika sem óhjákvæmilega skapast í skólastarfinu við ör kennaraskipti.

Árið 1985 kom út svokölluð endurmatsskýrsla unnin af fulltrúum menntmrn. og kennara. Í henni er yfirlit yfir stöðu skólamála og helstu vankanta skólastarfsins ásamt tillögum um úrbætur. Enginn ágreiningur varð um skýrsluna og því er undarlegt að ekki skyldu í kjölfarið koma neinar úrbætur kennurum til handa.

Í skýrslu OECD um skólamál kemur fram það sama og íslenskir kennarar hafa sagt árum saman. Rauði þráður hennar er sá að laun og starfskjör kennara valdi óbætanlegum skorti á menntuðum kennurum. Í nýútkominni skýrslu um stærðfræðikennslu í framhaldsskólunum er haft eftir starfandi kennara, með leyfi forseta:

„Við tökum við nemendum ómögulegum úr grunnskólum. Þau fá ómögulega kennslu hjá okkur og þegar þau eru útskrifuð fara þau að kenna í grunnskólum.“

Verði það örlög barna þessa lands að alast upp við slíkt ábyrgðarleysi og viðhorf gagnvart menntun getum við gleymt öllum draumum um framfarir, útflutning á íslensku hugviti og við getum sleppt setningunni um blómstrandi menningu í öllum hátíðarræðum. Það er ekki þörf á fleiri skýrslum heldur aðgerðum.

Ég lýk senn máli mínu, herra forseti. Á undanförnum árum hefur einn ráðherra menntamála af öðrum lýst vilja sínum til að bæta kjör kennara, en viljayfirlýsingar af því tagi eru lítils virði ef ráðherra fjármála er annarrar skoðunar. Því vil ég skora á hæstv. ráðherra þessara tveggja ráðuneyta að taka nú höndum saman. Við höfum ekki efni á að láta þetta dankast lengur.