10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

176. mál, staðgreiðslulán vegna sauðfjárafurða

Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka landbrh. fyrir svörin þó ég telji þau ekki fullnægjandi.

Ég held að menn verði að skilja að landbúnaðarstefnan markar líf alþýðunnar í hinum dreifðu byggðum og afkomu hennar. Þess vegna verður fjármögnun framleiðslunnar að vera á þann veg að kleift sé að framleiða afurðir án þess að stórtap verði á slíku. Það er ljóst að eftir að Seðlabankinn hætti að veita afurðalán til landbúnaðarins sjá viðskiptabankar sér ekki hag í að veita slík lán svo sem þörf er fyrir og gert var áður, enda hafa viðskiptabankarnir allt önnur sjónarmið í lánveitingum en Seðlabankinn. Hvers vegna ætti t.d. hlutafélagsbanki að veita afurðalán eða staðgreiðslulán? Þetta eru spurningar sem maður veltir fyrir sér.

Reikna má með að framleiðendur eigi núna útistandandi í kringum 100–130 millj. Það er þess vegna spurning hvernig á að fara með þær upphæðir. Ég held að það verði að taka miklu fastar á landbúnaðarstefnunni og láta hana renna í þann farveg að bændur geti búið við nokkurt öryggi. Við í Borgarafl. höfum orðið vör við að bændur standa mjög höllum fæti um þessar mundir. Þeir hafa ekki fengið þær greiðslur sem þeim ber og eiga erfitt með að fjármagna sinn rekstrarkostnað. Það er mjög mikilvægt að staðið sé betur að þessu og það sé mörkuð miklu skýrari og einfaldari stefna.