10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

177. mál, fjármögnun lána vegna sauðfjárafurða

Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. landbrh. er fjármögnun á dilkakjöti ekki alveg í nógu góðu lagi. Það er talið að um 70% séu núna lánuð í stað 75% af haustgrundvallarverði og þá vanti þar í kringum 53 millj. til þess að endar nái saman.

Ég held að það sé ljóst af svörum hæstv. landbrh. að það þarf að taka þessi mál miklu fastari tökum. Það væri skynsamlegt að sameina afurða- og staðgreiðslulán í eitt lán og láta einn aðila lána féð út, hvort sem það kæmi úr viðskiptabönkum, Seðlabanka eða ríkissjóði. Þá mundi einn aðili hafa eftirlit með birgðum og innheimtu. Það er ljóst að eftir að Seðlabankinn hætti að veita afurðalán til landbúnaðar sjá viðskiptabankar sér ekki hag í að veita slík lán, enda er lausafjárstaða þeirra misjöfn, en almennur viðskiptabanki hefur önnur sjónarmið í lánveitingum en Seðlabanki. Það eru þær kröfur gerðar á peningamörkuðunum að bankarnir sjá sér ekki hag í þessu og þetta veldur þeim í raun útgjöldum þannig að hér eru mikil vandræði. Það verður ein regla að gilda um veðtryggingu afurðalána. Ríkið verður að sjá til þess að svo verði. Ég held að þann 15. okt. hafi vantað um 850 kr. á hvern meðaldilk til að fullnaðarfjármögnun, 75% upp í greiðslu og launa í sláturtíð, næðist.

Bændur hafa borið sig illa við Borgarafl. Þetta er mjög alvarlegt mál sem verður að leysa. Hvað kostar það sláturleyfishafa að fjármagna þetta og hvað kostar það alþýðubóndann? Menn geta reiknað það. Það er stór spurning hvort ekki þurfi að taka allt landbúnaðarkerfi landsins til endurskoðunar, endurmeta hvað er lánað, með hvaða tryggingum og ekki síst hver lánar. Það skiptir engu hvernig menn reikna þetta. Ómarkviss stjórnun er óþolandi. Skiptir þá engu hvaða atvinnugrein á í hlut, en því verri sem stjórnunin er, því hærri reikning þarf þjóðin að greiða upp í.