10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

195. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka það fram að Kvennalistinn styður þetta frv. og hefur stutt svipuð frumvörp á síðasta kjörtímabili. Það má kannski segja að í þetta sinn er sérstök ástæða og ætti að vera létt fyrir verslunina í landinu að láta eitthvað af mörkum til samneyslunnar því að að henni hefur verið hlúð og henni hefur gengið afskaplega vel núna á þessum síðustu góðæris- og þenslutímum að afla fjár. Þess vegna hlýtur það að vera gleðiefni fyrir verslunina í landinu að geta lagt eitthvað af mörkum til samneyslunnar og mætti gjarnan vera meira.