10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

198. mál, tollalög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var fyrr í kvöld sem við hæstv. fjmrh. áttum nokkur orðaskipti um tölur í sambandi við skattlagningu og í ræðum mínum hélt ég því fram að viðbótarskattar ríkisins væru 8580 millj. kr. samkvæmt ákvörðunum núv. ríkisstjórnar. Í einni af ræðum sínum í kvöld sagði fjmrh. að í fyrsta lagi hefðu ákvarðanir í sumar þýtt 3700 millj., ákvarðanir í haust 2000 millj., ákvarðanir núna 2050 millj. í auknar tekjur, en hann sagði: sem fara jafnharðan út aftur. En allt um það. Það eru auknar tekjur. Og niðurstaðan af þessu er 7750 millj. Síðan segir hann að inn í þær spár sem nú eru komnar sé gert ráð fyrir veltubreytingum umfram það sem gert var ráð fyrir við frágang frv. upp á 600 millj. Síðan segir hann að gert sé ráð fyrir bættri innheimtu upp á 400 millj. Þetta gerir samtals 8750 millj. og skakkar þá heldur litlu á milli okkar hæstv. ráðherra í sambandi við þessar tölur. Niðurstaðan er sú að við ákvarðanir núv. ríkisstjórnar um aukna skatta gera 8600–8750 millj. kr. Ég hygg að í þessu talnageri sé ekki hægt að komast öllu nær því sem ætla má að geti orðið niðurstaðan, en taka ber fram að þær verðlagsforsendur sem allt þetta byggir á, og m.a. fjárlagafrv., eru örugglega ákaflega veikar, m.a. vegna þess að sú fastgengisstefna, sem í orði kveðnu er fylgt hér í landinu, er að verða býsna laus í reipunum, að ekki sé meira sagt, og væri full ástæða til þess að taka hér smálotu í umræðum um almenn efnahagsmál og það sem fram undan er í þeim efnum hjá hæstv. ríkisstjórn, hvað hún hyggst gera, til hvaða ráðstafana hún hyggst grípa bak jólum í efnahagsmálum. En það er augljóst mál að grípa verður til víðtækra ráðstafana í efnahagsmálum á fyrri hluta næsta árs eins og sakir standa og horfur eru miðað við mikinn og vaxandi viðskiptahalla og halla á útflutningsatvinnuvegunum, m.a. fiskvinnslugreinunum.

Ég stend hér upp m.a. til að fagna því að þessi talnagrundvöllur, sem við höfum rætt hér nokkuð um í kvöld, er að skýrast. Það eru sem sagt á milli 8000 og 9000 millj. kr. sem auknar álögur ríkisins eru á þjóðina á næsta ári. Auk þess kemur hækkað útsvar, raunhækkun útsvars. Auk þess kemur hækkun fasteignagjalda sem stafar af því að fasteignamatið í landinu hækkar um 100 milljarða kr. á íbúðarhúsum, úr 320 milljörðum í 420 milljarða. Þegar þetta er allt saman talið þá er komin svipuð tala og sú sem var birt í einu dagblaðanna í dag og ég varð var við að ýmsum þm. þótti býsna ótrúleg: 10 milljarða kr. skattahækkanir á næsta ári frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 1987. Þá var að vísu gert ráð fyrir miklum halla. Og það er rétt sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. að það hefur verið skoðun margra, m.a. mín, að það væri hættulegt til langframa fyrir ríkið að vera rekið með verulegum halla. Það hefði verðbólguáhrif í för með sér og ylli margvíslegum öðrum vandkvæðum í efnahagsstjórnun vegna þess að þá ætti sér stað seðlaprentun, hætta væri á auknum viðskiptahalla og þar með erlendum skuldum. Þess vegna var ég þeirrar skoðunar fyrir kosningarnar í vor að eitt af fyrstu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar, hver sem hún yrði, hlyti að vera það að stuðla að betra jafnvægi í ríkisbúskapnum. Deilurnar gátu hins vegar snúist um það, og snúast auðvitað um það, í fyrsta lagi hverjir áttu að borga þennan halla niður. Um það snúast stjórnmáladeilur ævinlega, og enn fremur hlaut það að vera álitamál hversu hratt ætti að fara í þessum efnum með tilliti til greiðsluþols almennings og atvinnugreina í landinu. Þá er ég að tala um framleiðsluatvinnuvegi, iðnað og aðrar slíkar greinar.

Ég hygg að staðan sé núna þannig að um leið og fyrir liggur að hugsanlegt sé að ríkissjóður verði rekinn með nokkrum jöfnuði á næsta ári, a.m.k. skárri en var á þessu ári, um leið og það er ljóst þá virðist líka vera ljóst að framleiðsluatvinnuvegirnir, þ.e. sjávarútvegurinn, fiskvinnslan, er rekin með halla og verður rekin með halla á næsta ári ef ekki verður gripið til sérstakra aðgerða.

Ég er einnig sammála þeirri skoðun hæstv. fjmrh. að það sé ekkert á móti því að taka inn aukið fé í ríkissjóð til samneyslunnar. Ég tel að það sé mikilsverður liður í því að tryggja samneysluna í landinu að ríkissjóður sé rekinn með sæmilegum hætti. En ég er hins vegar ekki sammála honum um þær aðferðir sem hann beitir, hvorki frv. um söluskatt, vörugjald, né heldur frv. um tolla, eins og það liggur hér fyrir, en tek þó fram að ég hef ekki átt þess kost, fremur en aðrir þm., að skoða það mál niður í kjölinn sem vert væri því hér er um að ræða stórt mál og flókið sem tók heila þrjá sólarhringa að prenta í Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg, en við höfum nú haft þriðjung þess tíma, þ.e. prenttímans, hér á hv. Alþingi til að kynna okkur þau mál.

Ég vil aðeins í framhaldi af umræðunni um vörugjald víkja að því að það er nokkuð athyglisvert hvernig ætlunin er að reikna út vörugjald af innfluttum vörum. Það er ekki gert með því að taka vörugjaldið af tollverði, heldur er það gert með því að taka gjaldstofninn, gjaldstofninn er tollverð innfluttrar vöru eins og það er ákveðið skv. 8.–10. gr. tollalaga, að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir skv. þeim lögum, auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar. Þannig að allt vöruverð er skrifað upp um 25% áður en vörugjaldið er lagt á, sem þýðir að raunverulegt vörugjald á þessum vörum er ekki 14%, heldur mun hærra eða 17–18%. Ég vildi gjarnan að rökstuðningur fyrir þessu væri skýrari en ég hef orðið var við að fram hafi komið, eða séð í athugasemdum við þetta lagafrv. um vörugjald, sem var til umræðu hér á undan.

Í sambandi við frv. um tollana vildi ég aðeins segja þetta: Það hefur lengi verið nauðsynlegt að endurskoða tollskrána. Það hefur lengi verið nauðsyn á því að samræma tollskrána. Það hefur lengi verið brýnt að lækka verulega fjölmarga tolla á almennum nauðsynjum sem hafa verið mjög háir, óeðlilega háir, lagðir á á tímum þegar það sem nú telst til daglegra nauðsynja var kallað lúxus eða eitthvað af því taginu. Þess vegna er samræming nauðsynleg. Hins vegar sé ég ekki betur í þessari tollskrá, tillögum ríkisstjórnarinnar, en að þessi samræming af hennar hálfu sé öll tilviljanakennd. Ég sé satt að segja ekki mikil rök fyrir sumum þáttum í þessu efni. Eins finnst mér að margt af því sem fellt er niður algjörlega undan tolli mætti gjarnan vera með tolli. Sömuleiðis get ég ómögulega séð hvaða rök eru bak við ýmsar þær tillögur sem ríkisstjórnin gerir í þessum pakka. Ég get t.d. nefnt það að gert er ráð fyrir núll tolli á sykri og sykurvörum. Það er gert ráð fyrir tiltölulega lágum gjöldum af sælgæti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. 6. þm. Reykv., að þegar verið er að skoða og endurmeta mál eins og tollskrá, þá sé alls ekki óeðlilegt að taka tillit til manneldissjónarmiða, manneldisstefnu. Ekki vegna þess að Alþingi eigi alltaf að vera að hafa vit fyrir öllum mönnum, heldur vegna þess að það liggja fyrir óyggjandi niðurstöður um það að neysla á tilteknum vörum hefur slæm áhrif á heilsufar fólks og það er engin forræðishyggja fólgin í því að hafa verðið á þeim vörum eilítið hærra en öðrum. Rétt eins og við ákveðum tiltölulega hátt verð á tóbaki sem og sjálfsagt er og áfengi, svo tvö dæmi séu nefnd. Sem dæmi um tilviljanakennda ákvörðun í þessu frv. í sambandi við tolla eru tollar á tóbaki. Það væri t.d. fróðlegt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. fjmrh. hvað veldur því að það er 10% tollur á neftóbaki en 50% tollur á öðru tóbaki. Kannski er á bak við þetta einhver þjóðlegur strengur, (Gripið fram í: Þetta er á bls. 54.) hæstv. ráðherra hafi viljað vekja á ný áhuga á þessari íþrótt og að útbreiða hana. En ég fæ ekki séð hverju þetta gegnir. Þetta litla dæmi nefni ég bara sem eitt af ótalmörgum sem ég hef séð í þessum plöggum sem ég satt að segja botna ekki í. Og þegar hæstv. fjmrh. flytur ræðu hér fyrir þessu máli, þá segir hann okkur hvað eru margir flokkar með núlli og hvað margir með 30% o.s.frv., en það eru ekki flutt rök fyrir því af hverju málin eru svona, 30% hér, 20% þar, 10% þar, 5% þar o.s.frv.

Varðandi þetta frv. þá á það auðvitað alveg sérstaklega við sem við sögðum hér fyrr í kvöld að það er ekki boðlegt að reyna að láta þingið afgreiða þetta svona. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða hundrað er í hættunni þó þessar breytingar tækju t.d. gildi 1. mars, eða 1. apríl, að liðnum fyrsta fjórðungi ársins 1988 þannig að þingið hefði skaplegan tíma til að skoða þetta? Má vel hugsa sér að jólaleyfi þm. yrði stutt, menn hittust hér bak jólum og á milli hátíða, (Gripið fram í: Nei.) héldu svo áfram strax eftir áramótin, hvað er á móti því, ég veit ekki betur en menn séu hér á fullu kaupi, og vönduðu sig við verkið? Mér finnst það miklu eðlilegri vinnubrögð, miðað við það í hvaða óefni málið er komið, heldur en að kasta svo höndunum til verksins sem við verðum dæmd til ella á þeim fáu dögum sem eftir lifa til jóla. Ég satt að segja skil ekki hvaða ósköp reka menn til þess að afgreiða þetta núna endilega á þessum dögum. Það mundi kannski verða flutt fram sem rök í þessu efni að það væri slæmt að láta tollskrá liggja opna mjög lengi. Það er rétt. En æðimikið annar svipur væri nú á því að við fengjum tækifæri til að afgreiða þetta mál t.d. í janúarmánuði, þannig að ný skrá tæki gildi 1. febrúar, heldur en að ætla okkur að gera það á þeim skamma tíma sem nú er eftir til jóla.

Ég leyfi mér líka að efast um það að hið opinbera stjórnsýslukerfi ráði við þessi verkefni á þeim skamma tíma sem eftir er til áramóta. Ég hef satt að segja ekki orðið var við það að vinnubrögð á þeim bæjum séu öll svo skilvirk, svo ég nefni uppáhaldsorð hæstv. fjmrh., séu svo skilvirk að menn róti frá sér jafnviðamiklum kerfisbreytingum og þessum milli jóla og nýárs. Ég hygg að til þess þurfi lengri tíma. Það er stórhættulegt að setja í gang slíkar kerfisbreytingar, stórhættulegt að setja þær í gang ef það tekst óhönduglega til í upphafi.

Þess vegna vil ég beina því til hæstv. fjmrh. og stjórnarmeirihlutans hér í þessari virðulegu deild, hvort ekki geti komið til greina að hinkra með afgreiðsluna á þessu fram yfir hátíðar þannig að þinginu gefist eðlilegur tími til þess að vinna málin, þannig að við getum að lokum opnum huga sagt hvert við annað sæmilega sátt: Ja, við vissum nokkurn veginn hvað við vorum að gera. Ég held að það sé mjög mikill kostur fyrir alþm. að standa upp frá verki sínu sæmilega sáttur við það að hann hafi haft hugmynd um það í grófum dráttum hvað hann var að gera og hvaða afleiðingar það hefur sem hann er að samþykkja.