10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

168. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að ræða frv. nokkuð og fara jafnframt fram með nokkurri gát. Ég tek undir það sem menn hafa sagt hér að þetta er í eðli sínu gott mál og flutt af góðum vilja, samstarfsvilja. Hins vegar geðjast mér ekki eins vel að þeim hugsunarhætti sem kemur fram í grg. með frv. þar sem segir m.a., með leyfi forseta: „Við erum í þetta sinn stóri bróðir.“ Það er eitt af grundvallaratriðunum í samvinnu þessara smáþjóða, Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga, að sú samvinna eigi sér stað á jafnréttisgrundvelli. Við erum enginn stóri bróðir í þessu samstarfi og eigum ekki að láta að því liggja með einum eða öðrum hætti.

Það sem rak mig frekar í ræðustól voru umræður sem hér voru hafnar um Grænlandssjóð sem er eitt merkilegasta mál sem samþykkt hefur verið á hinu háa Alþingi um samskipti Íslendinga og Grænlendinga. Einhver viðhafði þau orð að þessi sjóður hefði lítið gert og að litlu orðið en mig langar vegna sjóðsins að nefna um það ákveðin dæmi hvernig hann hefur komið grænlenskum menntamönnum að verulegu gagni, verulegum notum. Nú er til að mynda ungur maður við nám í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði og það að hann getur stundað þar nám er Grænlandssjóðnum að þakka. Það eru peningar frá þeim sjóði sem gera honum kleift að vera hér, í landi sem er tiltölulega dýrt að búa í. Hér þarf hann bæði að greiða húsaleigu og uppihald og það leiðir aftur hugann að því hvaða möguleika grænlenskir nemendur eiga á því að stunda skólanám á Íslandi yfirleitt.

Ég hef verið að skoða þetta mál nokkuð og á tímabili datt mér í hug að það kynni að vera ráð og opin leið að Lánasjóður ísl. námsmanna kæmi þessu fólki til stuðnings. Líklega er það ekki hægt, en einhverja aðferð þurfum við að finna til að greiða götu þess fjölda Grænlendinga sem vill miklu heldur koma til Íslands og stunda skólanám hér en í Danmörku. Þetta væri eitt af þeim málum sem við gætum greitt fyrir ef vilji væri fyrir hendi hér á hinu háa Alþingi. En umræður um samskipti þessara smáu ríkja eru af allt of skornum skammti. Það er fyrst þegar við hyggjum á einhvern útflutning til Grænlands, þegar peningamálin koma við sögu, að við förum að ræða samskipti þessara tveggja landa.

Ég vil líka geta þess að það er starfandi ráð, Vestnorræna þingmannaráðið, sem heldur fundi árlega. Það hefur ályktað um margvísleg samskiptamál Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga. M.a. voru á síðasta fundi sem haldinn var í Færeyjum fyrir ekki löngu samþykktar margvíslegar ályktanir sem sendar voru viðkomandi ríkisstjórnum og landsstjórnum til fyrirgreiðslu. Þau mál sem áður hafa verið samþykkt á fyrri fundum þessa ráðs hafa yfirleitt ekki fengið neina afgreiðslu hjá viðkomandi stjórnvöldum. Við fórum yfir lista um mál sem höfðu verið samþykkt fyrir hálfu öðru eða tveimur árum á fundi sem haldinn var á Selfossi í þessu ráði. Það kom í ljós að ríkisstjórnir og landsstjórnir, heimastjórnir þeirra landa sem um ræðir, höfðu nákvæmlega ekkert gert með þessar tillögur. Í þessum efnum er því auðvitað pottur brotinn.

Ég hirði ekki um að ræða meira um þessi mál en það væri fyllsta ástæða til að taka upp hér á hinu háa Alþingi vandaða umræðu um samskipti þessara þriggja ríkja. M.a. þyrftum við að ræða samstarf okkar varðandi Norður-Atlantshafið, fiskveiðamálin og mengunarmálin sem ég hef orðið mjög verulegar áhyggjur af. Það var samþykkt tillaga þess efnis í Vestnorræna þingmannaráðinu að sett yrði á fót stofnun þessara ríkja sem eiga land að Norður-Atlantshafinu og hafa verulegra hagsmuna að gæta. Ég vona að sú tillaga komi hér fram innan skamms svo að við getum rætt hana. Þessi mál þyrftum við að ræða miklu meira og miklu oftar. Það fer lítið fyrir þeim hér á þingi nema í einstaka tilvikum þegar viðskiptamálin koma meira við sögu.

En varðandi frv. vil ég aðeins segja það að lokum, herra forseti, að ég hygg að menn skyldu fara með nokkurri gát í það að samþykkja það og það þarf að skoða í tengslum við önnur mál eins og réttilega hefur komið hér fram.